Mannanöfn
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Því miður þurfti ég að fara hér af fundinum þegar hæstv. menntmrh. var að flytja framsögu sína fyrir þessu frv. og eins missti ég af sjálfsagt gagnmerkri umræðu um þetta mál sem hér hefur farið fram. Erindi mitt hingað upp núna í þennan ræðustól er ekki kannski alveg tengt frv. en þó nokkuð skylt. Það er í sambandi við tvínefni og það að ríkisfjölmiðlarnir og þá sérstaklega útvarpið hafa lagt sig fram í því að nefna menn þá sem tveimur nöfnum heita sýknt og heilagt tveimur nöfnum núna upp á síðkastið. Þetta var ekki gert fyrir nokkru síðan og veit ég það m.a. að einn af þingmönnum okkar sem hér er í deildinni og var lengi vel starfsmaður Ríkisútvarpsins, aldrei man ég eftir því að hann hafi verið nefndur þá tveimur nöfnum sem hann þó mun heita. Mér finnst þetta sérstakur siður og ég vil vekja athygli á honum, en eins og allir hv. þm. vita þá var það nú íslensk nafnvenja að heita aðeins einu nafni, en það hefur breyst í tímanna rás. ( Gripið fram í: Það voru auknefni.) Já, það voru auknefni og menn báru þau með heiðri og sóma ýmis hver. Mér finnst það dálítið sérstakt með Ríkisútvarpið að það hamrar á því ef einhverjir starfsmenn eða flytjendur heita tveimur nöfnum. Hvort sem þessir menn nota þessi tvö nöfn eða ekki þá er það jafnan tíundað að þessi maður heitir nú Jón Jón Pétursson eða eitthvað svoleiðis en alls ekki bara einu nafni, Jón. Þetta er greinilega farið að hafa ákveðin áhrif í málfari og meðferð manna á mannanöfnum. Ég vil benda hæstv. menntmrh. á þennan þátt. Er þetta ekki í svolitlum tengslum við almennt málfar og málfarsvöndunarátak sem ráðuneyti hans hefur staðið fyrir? Er þessi þáttur sé ekki þess verður að hann sé athugaður. Ég vil vekja athygli á þessu nú í umræðu um þetta frv. um mannanöfn?