Vernd barna og ungmenna
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég tala hér fyrir var sýnt hér á 112. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frv. felur í sér endurskoðun á lögum frá 1966 um vernd barna og ungmenna og það er satt best að segja löngu tímabær endurskoðun.
    Það var 30. apríl 1987 sem Sverrir Hermannsson, þáv. menntmrh., skipaði nefnd til að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna. Það eru lög nr. 53/1966. Nefndin var skipuð Sigríði Ingvarsdóttur, formanni barnaverndarráðs, Ingibjörgu Rafnar hdl. og Gunnari Sandholt, yfirmanni fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Tveir starfsmenn barnaverndarráðs unnu auk þess með nefndinni, þau Guðjón Bjarnason framkvæmdastjóri og Guðrún Erna Hreiðarsdóttir lögfræðingur.
    Nefndin gerir í þessu frv. tillögur um veigamiklar breytingar á skipan barnaverndarmála. Síðast talaði ég áðan fyrir frv. um það að flytja mannanöfn úr menntmrn. í dómsmrn. Núna flyt ég frv. um að flytja vernd barna og ungmenna úr menntmrn. í félmrn. Viðstöddum til huggunar get ég sagt það í leiðinni að það er talsvert samt eftir í því góða ráðuneyti.
    Helstu nýmæli þessa frv. eru:
    1. Lagt er til að yfirstjórn barnaverndarmála verði í höndum félmrn. í stað menntmrn. Þessi hugmynd er ekki ný en hún kom m.a. fram í greinargerð með gildandi lögum þegar frv. var lagt fram á Alþingi 1966. Félmrn. hefur með höndum, eins og kunnugt er, almennt eftirlit með störfum sveitarfélaga svo og ýmsum verkefnum sem unnin eru á vegum þeirra, svo sem félagsmálum. Barnaverndarstörf tengjast með ýmsum hætti félagslegri þjónustu sem unnin er á vegum sveitarfélaga og þykir því fara betur á því að yfirstjórn þessara mála verði í sama ráðuneyti. Sem handhafi framkvæmdarvalds þykir ráðuneytið hafa mun betri aðstöðu en barnaverndarráð til að hafa virkt eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og skyldum sveitarfélaga og hafa þar áhrif á ef þessir aðilar bregðast lögboðnum skyldum sínum. Þá má benda á að annars staðar á Norðurlöndum er yfirstjórn barnaverndarmála í höndum félagsmálaráðuneyta. Þar sem töluverð samvinna er orðin á seinni árum varðandi barnavernd almennt milli þessara landa er þess að vænta að mun hentugra verði fyrir Ísland að standa að slíkri samvinnu verði yfirstjórn barnaverndarmála í höndum félmrn.
    2. Gert er ráð fyrir breyttum starfsháttum barnaverndarráðs, og það er ein grundvallarbreyting frv., þannig að barnaverndarráð fari ekki lengur með það tvíþætta hlutverk að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf við úrlausn einstakra mála og fara með fullnaðarúrskurðarvald í sömu málum. Gerð er tillaga um að barnaverndarráð fari einungis með fullnaðarúrskurðarvald í barnaverndarmálum en leiðbeiningarskyldan og eftirlit með störfum barnaverndarnefnda fari fram í félmrn. eins og sagði hér á undan.
    3. Þá er hér lagt til að barnaverndarumdæmin verði stækkuð en barnaverndarnefndir eru nú yfir 200 talsins á landinu öllu. Reynslan hefur sýnt að barnaverndarstarf strandar oft á smæð sveitarfélaga. Þau hafa ekki bolmagn til að sinna raunhæfu barnaverndarstarfi. Bæði er fjármagn af skornum skammti og einnig sérþekking við úrlausn barnaverndarmála. Fjárskorturinn leiðir m.a. til þess að ekki er unnt að ráða fólk með sérþekkingu til starfa fyrir barnaverndarnefndir en sérþekking er í flestum tilvikum afar nauðsynleg. Einnig er ráðgjöf sérfræðinga oft mjög brýn við úrlausn erfiðra barnaverndarmála en fyrir hana þarf að greiða sérstaklega. Sama á við um athuganir á börnum eða öðru heimilisfólki. Stofnanir eru t.d. ekki fúsar að taka þessi mál að sér án greiðslu.
    Því verður að líta svo á að barnaverndarstarfi verði ekki hægt að sinna á fullnægjandi hátt í svo smáum einingum sem núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir. Með sameiginlegum barnaverndarnefndum sveitarfélaga yrðu þær fremur starfshæfar einingar og ættu t.d. auðveldara með að ráða sérhæft starfsfólk og að standa undir öðrum óhjákvæmilegum kostnaði.
    4. Í frv. er leitast við að setja skýrari ákvæði um skyldu barnaverndaryfirvalda gagnvart börnum og ungmennum. Má í því sambandi benda á ákvæðin um leitar - og varnarstarf, svo og nánari skilgreiningu á því hvað eru óviðunandi aðstæður barna og ungmenna. Þá er í frv. kveðið á um skyldur yfirvalda gagnvart þeim börnum og ungmennum sem lenda í afbrotum, svo og þeim sem verða fyrir afbrotum. Nauðsynlegt er að gera viðeigandi breytingar á lögræðislögum, nr. 68/1984, um innlögn ungmenna á stofnun sem stefna eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu.
    5. Í frv. eru ítarlegri ákvæði en í gildandi lögum um ráðstöfun barna í fóstur, svo og um réttarstöðu barna í fóstri, fósturforeldra og kynforeldra.
    6. Í gildandi lögum eru ákvæði um málsmeðferð á víð og dreif í ýmsum lagagreinum. Í þessu frv. eru ákvæði um starfshætti barnaverndarnefnda og málsmeðferð sett í sérstakan kafla. Leitast er við að gera ákvæði er lúta að meðferð mála skýrari til þess að taka af öll tvímæli.
    Ákvæðin um barnaverndarnefndir er að finna í 6. gr. frv. og ákvæðin um barnaverndarráð er að finna í 13. gr. frv.
    7. Leitast er við að skilgreina betur réttarstöðu barna og ungmenna í barnaverndarmálum og miðað er að því að auka réttarvernd þeirra. Er því sett fram sú tillaga að börn eigi að jafnaði rétt á að tjá sig um málið og er það skylt þegar barnið er orðið 12 ára. Þegar sérstaklega stendur á er barnaverndarnefnd auk þess heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann.
    8. Felld eru brott ákvæði um skoðun kvikmynda, enda talið eðlilegt að þau verði í lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    Í frv. er síðan ítarleg greinargerð með hverri grein þess þar sem farið er yfir þær breytingar sem gerð er tillaga um frá gildandi lögum og af hverju þær tillögur eru gerðar. Ég tel að greinargerðin sé svo ítarleg og raunar frv. í heild og öll meðferð þess að það eigi

að vera unnt að afgreiða þetta frv. á yfirstandandi þingi. Í frumvarpstextanum eins og hann er lagður hér fyrir er ein villa sem ég vil biðja hv. þm. um að leiðrétta og verður auðvelt í þingnefndinni, en hún stafar af því að þetta er endurflutning á frv. sem gerði ráð fyrir því að lögin tækju gildi frá 1. júní 1990. Það getur auðvitað ekki orðið úr því sem komið er og þarf að hafa hliðsjón af því. Ég held að það sé eðlilegt miðað við sveitarstjórnarlög, sem hv. þingnefnd getur kannski athugað fyrir mig, að svona frv. taki frekar gildi á miðju ári en um áramót vegna þess hvernig stendur á með kosningar í nefndir á vegum sveitarfélaganna. En þetta kunna nú aðrir þingmenn örugglega betur en ég.
    Frv. fylgir kostnaðarumsögn frá fjmrn., Fjárlaga - og hagsýslustofnun. Þar kemur fram að nokkrar stofnanir mundu með þessu frv. flytjast beint yfir til félmrn. Það er náttúrlega barnaverndarráð, það er meðferðarheimilið á Torfastöðum, það er meðferðarheimilið fyrir unga fíkniefnaneytendur sem við stofnuðum uppi á Kjalarnesi og tekur til starfa núna á næstu vikum og það er Unglingaheimili ríkisins. Fjárveiting til þessara stofnana á fjárlögum ársins 1990 er samtals um 72 millj. kr. og þær munu allar flytjast til félmrn. ef þetta frv. verður að lögum.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.