Vernd barna og ungmenna
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins láta í ljósi ánægju mína með að þetta frv. er komið fram og taka undir það að það er tímabært að fjalla um þessi mál og taka þau til endurskoðunar, ekki síst með tilliti til þess hversu breyttar aðstæður eru í þjóðfélaginu sem kalla á breyttar forsendur varðandi velferð barna og ungmenna. Hér er vissulega um mikilvægt mál að ræða sem varðar öryggi og velferð barna og ungmenna. Það er skilgreint í 1. gr. frv. að ungmenni séu einstaklingar á aldrinum 16 -- 18 ára en börnin aftur þau sem eru innan 16 ára aldurs svo að hér er um að ræða þjóðfélagsþegna sem eru á mjög viðkvæmum aldri og þurfa góðan stuðning til þess að verða góðir og nýtir þjóðfélagsþegnar á lífsbraut sinni. Það er ljóst að hér er um mjög persónuleg og viðkvæm mál að ræða sem varða einkalíf fjölskyldnanna og því hlýtur að verða að fara með mikilli gát þegar höfð eru afskipti af eða fjallað um slík mál sem eru eðli málsins samkvæmt yfirleitt erfiðleikar innan fjölskyldnanna, erfiðleikar hjá þessum börnum eða ungmennum sem oft stafa einmitt af erfiðleikum hjá fjölskyldunum sjálfum eða foreldrunum.
    Ég vil taka undir það að ég held að það sé mjög gott að þessi mál séu flutt yfir til sveitarfélaganna eins og gert er ráð fyrir í frv. og er eitt helsta nýmælið eins og kemur fram á bls. 19. Mig langar til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvort leitað hafi verið umsagnar sveitarfélaga eða samtaka þeirra við undirbúning að gerð þessa frv. og hvort sveitarfélögin eru þá ekki almennt sammála um þessa breytingu sem hér er verið að gera. Þá á ég við að færa þetta undir félmrn. og til sveitarfélaganna.
    Varðandi gildistökuna þá held ég að það sé ljóst, eins og kom fram hjá hæstv. menntmrh., að ef frv. kemst í gegnum báðar deildir þingsins þá sé eðlilegra að það yrði kannski um áramótin fremur en að gera ráð fyrir því á miðju ári. Ég býst við að það hafi farið svo fyrir fleirum en mér sem hafa litið í dagblöðin í dag og hafa séð grein í Tímanum að þeim hafi hnykkt við. Þar er fjallað um götubörn og utangarðsunglinga sem sagt er að hafi fjölgað. Þar er einnig sagt að það virðist svo sem samfélagið neiti að trúa því að svo sé og í stórri fyrirsögn kemur fram að það eru til börn sem fá ekki jólamat á aðfangadagskvöld. Og eins og ég sagði, ég býst við að fleirum hafi brugðið í brún en mér þegar þeir lásu þetta, en þarna er blaðamaður Tímans að fjalla um mál sem útideildin í Reykjavík hefur með að gera og jafnframt kemur fram að Rauði krossinn eða Rauðakrosshúsið svokallaða sinnir mjög þessum málum og hefur þess vegna kynnst þessu ástandi kannski betur en margir aðrir.
    Ég gat ekki setið á mér að minnast á þessa grein hér því að hún varðar einmitt þessa aldurshópa sem frv. fjallar um og það sýnir kannski best hversu brýnt það er að taka þannig á þessum málum af hendi löggjafans að hægt sé að hjálpa þessu fólki og þá náttúrlega fyrst og fremst með því að vinna forvarnarstarf.

Mér sýnist að það sem unnið er á vegum Rauðakrosshússins sé mjög gott forvarnarstarf. M.a. geta börn og unglingar leitað þangað hvenær sem er sólarhringsins eftir hjálp þó að það sé ekki annað en fá símaviðtal. Það kemur fram í greininni að það er ekki sagt við þau: Komdu á morgun og talaðu við okkur klukkan þetta eða hitt. Það er tekið við þeim á stundinni eða þeim veitt viðtal þó ekki sé annað en í gegnum síma.
    En ég vildi, hæstv. forseti, aðeins taka undir hversu brýnt það er að fjallað verði um þessi mál og þetta frv. fái málefnalega og góða umfjöllun og afgreiðslu hér í gegnum hv. Alþingi. Ég á sæti í menntmn. sem fær frv. til umfjöllunar og fæ því tækifæri til að taka þátt í umfjöllun þess þar og ætla þess vegna ekki að fara út í einstakar greinar frv., enda er ég sammála meginatriðum þess. Ég hef ekki heldur haft tíma til að lesa það yfir núna eða fara ítarlega ofan í það, en ég vildi sem sagt láta koma fram stuðning minn við frv.