Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 stendur svo í grg., með leyfi forseta: ,,Framlag til Íslensku óperunnar er 14,4 millj. kr. samanborið við 13,6 millj. í fjárlögum 1990. Málefni Íslensku óperunnar eru í athugun en hún hefur átt við fjárhagsvanda að stríða. Þegar afstaða Reykjavíkurborgar liggur fyrir verður málið kynnt fjvn. Alþingis.``
    Þannig stendur málið í raun og veru. Það hefur verið farið yfir málið mjög rækilega. Það er talið að rekstrarfjárþörf Óperunnar á ári, miðað við þá starfsemi sem rétt sé að miða við, sé um 75 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því að eigin tekjur Óperunnar af þeirri starfsemi geti verið um 40 millj. og þá vanti 35 millj. sem verði að koma af almannafé, annaðhvort frá ríki og borg eða bara ríki eða bara borg. Og málin standa þannig að ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti fallist á það nefndarálit sem gefið var út af starfsmönnum menntmrn. og fjmrn. fyrir nokkrum vikum. Síðan hafa staðið yfir viðræður við borgina og þær eru ekki til lykta leiddar.
    Íslenska óperan skuldaði í lok maímánaðar, þá fékk ég þær tölur, um 24 millj. kr. Á þeim málum var tekið strax af ríkisstjórninni með þeim hætti að af svokölluðu ráðstöfunarfé menntmrn. voru greiddar 3 millj. kr. Fáeinum vikum síðar komu forráðamenn Íslensku óperunnar á ný á fund í menntmrn. og óskuðu eftir frekari stuðningi af hálfu ráðuneytisins. Til þess voru engin ráð eða efni á þeirri stundu. Í framhaldi af því kallaði ég saman fund með fulltrúum fjmrn., menntmrn., Landsbankans og Íslensku óperunnar og ákveðið var að Landsbankinn hlypi undir bagga með Óperunni nú um skeið þar til séð yrði hverjar yrðu endanlegar undirtektir Reykjavíkurborgar, svoleiðis að húsum verður haldið opnum. Jafnframt hefur verið tekin ákvörðun um það, sem birtast mun þingmönnum í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991 næstu daga, að greiða Óperunni auk þeirra 3 millj. sem þegar hafa verið greiddar 4 millj. kr. samkvæmt þeim tillögum sem lagðar verða fram í fjáraukalagafrv. eða alls 7 millj. kr. á þessu ári. Út á það veitti Landsbankinn sinn stuðning og sömuleiðis út á þær miklu eignir sem Íslenska óperan á. Landsbankinn hefur ákveðið að veita stuðning upp á þessa tölu þannig að rekstur Óperunnar eða starfsemin, sú litla sem þar er í húsum, heldur áfram út þetta ár. Hins vegar bíður ákvörðun um frekari starfsemi niðurstaðna af viðræðum sem við eigum nú í við Reykjavíkurborg.
    Samningar voru gerðir milli ríkisins og Óperunnar fyrir nokkrum árum, sem ríkið fyrir sitt leyti hefur staðið myndarlega við, þar sem auk fjárlagatalna hefur verið bætt við talsverðum upphæðum á ári hverju. Samtals hefur ríkið veitt á þessum fjórum samningsárum 89 millj. kr. á núvirði eða ríflega 22 millj. kr. á ári að meðaltali á núvirði.
    Ég tel að miðað við aðstæður ætti ríkið að geta staðið við það samkomulag sem gert var í ríkisstjórninni í sumar. Spurningin um viðbótina fer í fyrsta lagi eftir niðurstöðum viðræðna við Reykjavíkurborg, í

öðru lagi eftir vilja Alþingis sem þá tekur á málinu í sinni fjvn. En í þriðja lagi vil ég svo segja það að auðvitað verður Óperan að starfa áfram. Við verðum að leggja áherslu á að til þess verði skapaðar aðstæður. En það er auðvitað ekki hægt að gera það hvað sem það kostar og það verður að halda þétt utan um fjármál þar eins og annars staðar eins og frekast er kostur.