Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði því a.m.k. mjög ógreinilega hvað væri búið að vinna af þeim verkum sem gerðar eru tillögur um að unnar skuli umfram flugmálaáætlun og umfram það sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Hann nefndi þó aðeins þrjá flugvelli landsins sem er lítill hluti af þessu dæmi öllu. Hann svaraði hins vegar á engan hátt hver það væri sem hefði tekið slíkar ákvarðanir, hvort það væri hæstv. ráðherra sjálfur, flugmálastjóri, ellegar flugráð. Hæstv. ráðherra svaraði heldur engu um það hvað af þeim verkum sem gerðar eru tillögur um að fresta mundu frestast úr því sem komið er vegna þess að yfirvöld í þessum málum, hæstv. ráðherra og Flugmálastjórn, hafa dregið lappirnar með að vinna þau verk sem skylt er skv. þessari flugmálaáætlun.