Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að það bréf sem fjvn. hefur borist um þessi efni kom í framhaldi af ósk sem 1. þm. Vesturl. bar fram í fjvn. um að fengin yrði greinargerð um rekstur Flugmálastjórnar. Það var þess vegna fjvn. sem kallaði eftir þessu, það var ekki verið að senda þetta inn að frumkvæði samgrh. eða Flugmálastjórnar.
    Ég vil einnig vekja athygli á því sem hæstv. samgrh. sagði hér áðan um það hvort menn hefðu viljað stöðva tilteknar framkvæmdir eins og á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Síðan var hann jafnframt að tala um að það hefði aldrei staðið til annað en að leita samráðs. Auðvitað gengur svona málflutningur ekki upp. Þetta er ákvörðun sem búið er að taka áður en farið er að leita samráðs og þess vegna eru öll þessi samráð sem ráðherrann er núna að tala um einungis tilkomin vegna þess hvernig unnið hefur verið í þessum málum og vegna þeirra vandræða sem ráðherrann er kominn í vegna þessarar framkvæmdar.