Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Hæstv. forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs þegar umræðu var frestað í fyrrakvöld og ætla nú að taka upp þráðinn þar sem sú umræða hætti.
    Ef við lítum á það fyrst, um hvað snýst álmálið, um hvað snúast þeir samningar sem nú eru í gangi við erlenda aðila um orkusölu? Þeir snúast fyrst og fremst um það að ávaxta þann höfuðstól sem felst í orku fallvatna og sem felst í orku jarðhita. Það var sagt hér í umræðunni fyrr að þetta væri höfuðstóll sem héldi sínum vöxtum og því þyrftum við ekkert að flýta okkur í þeirri samningagerð sem nú stendur yfir. Það má satt vera. En hver getur spáð um framtíðina?
    Það hefur líka verið vitnað til þess sem gerðist þegar menn flýttu sér í samningaviðræður fyrir 1970 vegna þess að kjarnorkan væri við það að leysa aðra orkugjafa af hólmi. Við vitum hvað þar gerðist. Við vitum það öll. Þetta segir okkur að aðstæður geta breyst með svo snöggum hætti að menn verða að nota þá kosti sem bjóðast á hverjum tíma. Með það í huga styð ég það heils hugar að reynt verði til þrautar að ná viðunnandi samningum um orkusölu til álbræðslu nú. Hins vegar með tilliti til þess sem ég sagði áðan, að þarna erum við fyrst og fremst að ávaxta þjóðarauðinn, þá sjáum við hversu mikið er í húfi að vel takist til.
    Ef við lítum á þetta frá atvinnulegu sjónarmiði, þá eru þetta dýrustu störf sem hægt er að hugsa sér í okkar atvinnulífi þannig að málið snýst um að ávaxta fjármagn á þann hátt að við höfum af því auknar þjóðartekjur í okkar þjóðarbú.
    Lítum síðan á umræðuna í því samhengi sem hún hefur verið núna síðustu mánuðina og þá kröfu sem var sett fram um að þetta álver yrði reist utan höfuðborgarsvæðisins. Nú ætla ég ekki að fara í neinar bollaleggingar um það hvar höfuðborgarsvæðið endar og hvar landsbyggðin tekur við. Ég vitna bara til skýrslu Byggðastofnunar um það hvernig mismunandi staðsetning hafi áhrif á byggðaþróun og atvinnu. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í erindi sem Háskólinn á Akureyri var með á nýlegri byggðaráðstefnu. Sú tilvitnun hljóðar þannig:
    ,,Samkvæmt tölum Byggðastofnunar hafa orðið til 15.000 ný störf á Íslandi á seinustu átta árum. Segja má að þessi störf séu nánast öll í opinberri starfsemi og þjónustu. Af þessum 15.000 störfum eru 12.500 á höfuðborgarsvæðinu og 2500 á landsbyggðinni.`` Og, ég bið menn að taka eftir, áfram heldur tilvitnunin: ,,Mjög stór hluti þessara starfa er kominn til vegna beinna stjórnvaldsákvarðana. Allt bendir til þess að þróunin verði óbreytt á næstu áratugum.``
    Með þetta í huga, að nánast öll ný störf í opinberri þjónustu hafa fallið til á höfuðborgarsvæðinu, var það mjög eðlileg krafa landsbyggðarinnar að þegar í sjónmáli var uppbygging í framleiðslu sem veitti þó þetta mikla atvinnu yrði það iðjuver reist á landsbyggðinni. Hvernig fer fyrir okkur ef þær auknu þjóðartekjur, sem við hljótum að gera kröfu til að komi frá nýju orkufreku fyrirtæki, falla á sama hátt í þann

miðstýrða farveg sem auknar þjóðartekjur hafa fallið í á síðustu árum?
    Þá ætla ég að koma aðeins að staðarvalinu, ég vil leyfa mér að segja þeirri sorgarsögu hvernig það mál var allt saman unnið. Það gaf auga leið að ef málið átti að vinnast á þann hátt að gefa erlendu aðilunum sjálfdæmi út frá hagkvæmnisjónarmiði hvar þeir vildu vera, þá var nokkuð gefið hver sú niðurstaða yrði. Það verður að segjast alveg eins og er að fók norður í landi spyr: Hvað eru mennirnir að hugsa þegar sett er á laggirnar dýr nefnd sérfræðinga til að kanna umhverfisáhrif stóriðju og hún kemst að þeirri merkilegu niðurstöðu að út frá þeim sjónarmiðum sé þessi starfsemi betur komin á Reykjanesi en í Eyjafirði? Þetta lá allt saman fyrir. Spurningin var sú hvort stjórnvöld hefðu getað stillt málinu þannig upp að það hefði verið sagt: Við ætlum að selja orku til stóriðju á þessum stað. Og það hefði verið látið reyna á málið út frá þeim forsendum. Ég vil ekki fullyrða neitt um það hver niðurstaðan hefði verið út úr slíkri vinnu. En ólíkt hefðu það verið geðfelldari vinnubrögð.
    Annað atriði í þessari vinnu sem mér finnst ámælisvert er það að það virðist hafa liðið allt of langur tími frá því að erlendu aðilarnir voru búnir að taka sína ákvörðun um það hvar þeir vildu vera og þar til niðurstaða var kunngerð. Á þeim tíma var haldið áfram að biðja um nýjar upplýsingar frá þeim aðilum úti á landi sem voru að vinna að staðarvalsverkefninu. Og áður en nokkur yfirlýsing lá fyrir um þetta mál voru ráðherrar ríkisstjórnarinnar á opnum fundum farnir að gefa mjög ákveðið í skyn hver niðurstaðan yrði. Þetta eru vinnubrögð sem mega ekki endurtaka sig. Þarna verða menn að læra af reynslunni.
    Það er annað athyglisvert í þessu. Það komu fram á þessu tímabili í fjölmiðlum, m.a. frá þingmönnum, tölur um kostnaðarmun annars vegar á Reykjanesi og hins vegar í Eyjafirði. Þar nefndu menn allt upp í 5 milljarða, 10% af kostnaðarverði. Ég hef rökstuddan grun um það að þessar tölur séu komnar frá innlendum aðilum. Hvað gerist þegar fenginn er sænskur aðili til þess að gera hlutlausa könnun? Hans niðurstaða er sú að þetta séu ekki 5, ekki 6 milljarðar heldur einn. En ég skal láta lokið tali um staðarvalið.
    Ég geri mér grein fyrir í hvern farveg málið er komið. Ef við landsbyggðarmenn ætluðum að fara að setja hnefann í borðið núna gagnvart þeirri staðsetningu sem búið er að ákveða, sem ég vil þó taka skýrt fram að ég tel að hefði getað farið öðruvísi, geri ég mér alveg grein fyrir að það getur þýtt endanlegan trúnaðarbrest milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar. Við verðum því að vinna okkur út úr málinu á annan hátt.
    Ef þessi vinna verður þess valdandi að menn eru tilbúnir til þess núna að ræða um nýja byggðastefnu, byggðastefnu sem verður byggð á öðrum grunni en vinna síðustu ára skal ég vera fyrstur manna til að taka þátt í þeirri vinnu. Ég geri mér alveg grein fyrir að full þörf var á allri þeirri vinnu sem lögð var í að styrkja undirstöðugreinarnar úti um land á síðustu

árum. En nú er bara komið að því, og þar vitna ég aftur til þess sem ég vitnaði í hér áðan, erindi Háskólans á Akureyri, og ég ætla að leyfa mér að vitna þar beint í áfram: ,,Ef það á að vera pólitískt markmið byggðastefnu að snúa við þeirri þróun sem nú er í gangi verður að gera það með því að segja: Næstu 10.000 störf í opinberri starfsemi og þjónustu eiga að vera utan höfuðborgarsvæðisins. Þjónustustig á landsbyggðinni verður að vera það sama og á höfuðborgarsvæðinu ef stöðva á búseturöskunina.`` Og við skulum sameinast um þessa vinnu.
    Ég skal nefna eitt dæmi sem snýr að því byggðarlagi sem ég bý í sem er eyfirskar byggðir. Eru menn tilbúnir til þess að sameinast um að efla Háskólann á Akureyri til þess að vera miðstöð rannsókna og kennslu í tengslum við matvælaiðnað í landinu? Eru menn tilbúnir til þess að setja lög um 10 ára áætlun um að svo megi vera? Ég segi ,,setja lög`` vegna þess að ég held að það sé sammerkt með öllu landsbyggðarfólki að það muni í þessari umræðu nú ekki taka mark á loðnum fyrirheitum. Það hafa verið gefin fyrirheit, m.a. í tengslum við kosningalagabreytingar og fleiri mál sem því miður hafa ekki gengið eftir. Í mínum huga eru þess vegna slíkar almennar yfirlýsingar afskaplega lítils virði.
    Ég ætla að leyfa mér að rökstyðja þetta mál aðeins betur. Fái Háskólinn á Akureyri að þróast á eðlilegan hátt og verði honum fengið hlutverk í okkar atvinnulífi gæti dæmið litið þannig út á árunum 1990 -- 1995 að í lok þess tímabils væru þar á annað hundrað starfsmenn, það væru þar um 500 nemendur og á þessu tímabili hefði þessi starfsemi veitt 4000 millj. inn í veltuna á þessu svæði. Ef menn vildu stíga það skref til fulls, sem ég nefndi áðan, á 10 árum, að gera Háskólann á Akureyri að miðstöð rannsókna og kennslu í tengslum við matvælaiðnað, sem hlýtur að vera eitt af því sem við horfum mjög til á næstu árum, mundi þessi kúrfa halda áfram að stíga með sama hraða það sem eftir er þessa áratugar. En til þess að þetta megi verða þarf pólitískt þrek og mikinn pólitískan vilja, því ég er alveg klár á því að við munum fá embættismannakerfið meira og minna á bakið á okkur ef á að fara að vinna á þennan hátt.
    Að lokum, varðandi þróun atvinnu út um land, er langt frá því að Eyfirðingar hafi misst móðinn við þessi málalok. Við stöndum réttir eftir. Í því að við búum þarna þrátt fyrir allt, 20.000 manns í samfélagi sem samgöngulega séð er orðið mjög samtvinnað, felst mikið afl. Þar er einnig verulegur prófsteinn hvernig til tekst með starf héraðsnefndar Eyjafjarðar þar sem öll sveitarfélög á þessu svæði eru nú að sameinast um sífellt fleiri verkefni. Það getur orðið mikill vaxtarbroddur ef stjórnvöld vilja styðja þar við. Ef hins vegar Alþingi og ríkisstjórn eru ekki tilbúin til þess að feta sig yfir á þessar brautir, dreifa þjónustunni, bæði sem snýr að hverju byggðarlagi og þjónustu á landsvísu líka, út um land, erum við, eins og ég sagði áðan, illa stödd. Og þá er ekkert annað eftir en það úrræði sem einstakar hreyfingar hér á landi hafa viljað grípa til, að byggðirnar fái yfirráðarétt yfir sínu

aflafé, þannig að stjórnvöld á hverjum tíma verði að leita þangað og sækja þá fjármuni sem þarf til samneyslunnar, til sameiginlegu þjónustunnar, hvort sem það er á sviði æðri mennta, heilbrigðismála eða hvers sem það er. Það yrði sú síðasta nauðvörn sem við hlytum að grípa til. Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar að við ættum að gera það. Ég trúi því enn að sá sameiginlegi vettvangur þjóðarinnar sem Alþingi er geti mótað þessa stefnu og muni gera það á næstu árum.