Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstuttar athugasemdir. Það hefur vakið athygli mína þegar ég hef hlustað, meira að segja þráfaldlega, á rök um blessun þá sem landsbyggðin verður fyrir í sambandi við álverið í Straumsvík að helsta blessunin hefur verið sú að um tíma var einhver stáliðnaður austur á fjörðum. Eru ekki til einhver haldbetri rök fyrir blessun þeirri sem landsbyggðin hlýtur en þessi iðnaður sem virðist nú ekki lengur einu sinni vera við lýði?
    Hæstv. iðnrh. benti á að alheimslega séð væri miklu betra að menga íslenskt umhverfi og andrúmsloft en þar sem kol og olía væru orkugjafar og má það kannski rétt vera, en fyrir nokkuð löngu síðan var ort meira að segja vestur í Ameríku þar sem dollarinn grær, að heimsborgari væri ógeðsyfirklór og alþjóðrækni hverjum manni of stór. Ég held að það sé nú enn þann dag í dag svo. Við getum ekki verið viss um það að sú náttúra sem við erum að bjarga þarna suður í heimi hafi ekki verið miklu harðgerari og þolað mikið betur þá mengun og þá útötun sem af álinu stafar. Við getum heldur ekki verið viss um að þessir fjarlægu staðir sem við erum að bjarga frá álverksmiðjunum muni ekki bara brenna olíunni sinni og kolunum í einhvern allt annan orkufrekan iðnað og þar með útbía allt saman og eyðileggja. Við getum því miður ekki verið örugg um það.
    Þessar athugasemdir langaði mig til þess að setja fram vegna þess að mér finnst svona rök ekki haldbær á þjóðþingi íslensku þjóðarinnar.