Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að halda aðeins áfram hugleiðingum sem umhvrh. hæstv. var með hér áðan og blandast inn í þær umræður sem orðið hafa um umhverfisþætti þessa máls. Nú dreg ég ekki í efa góðan hug hæstv. umhvrh., félaga míns, til þess að taka af myndugleika á umhverfismálum og mengunarvöldum hér í landinu í víðu samhengi og er síst að letja hann til þess að hafa allt sviðið undir. En hér á auðvitað við hið fornkveðna að það gerir eitt slys ekki betra þó önnur hafi hent. Og sé það svo, sem þeim er mikið kappsmál hér, sessunautunum, greinilega að koma inn í umræðuna, að veruleg hætta sé á skaðlegri mengun frá jarðgufuaflsstöðvum þá bætir það ekki ástandið. Það réttlætir ekki mengun frá annarri uppsprettu. Reyndar væri fróðlegt að fara í svolitlar umræður hér við viðskiptafræðinginn um efnafræði. Og úr því að hann er svona vel að sér um hegðan brennisteinsvetnis í lofti, miklu betur en allir aðrir íslenskir vísindamenn sem enn hafa ekki treyst sér til þess að gefa í raun og veru neinar markbundnar vísbendingar um það hvaða áhrif tiltekin útlosun á brennisteinsvetni kann að hafa úr eldgosum eða uppi á háhitasvæðum, þá bið ég hann að liggja ekki á slíkum vísdómi. Okkur er mikil þörf á því sem höfum eitthvað verið að nusa af þeim málum í gegnum tíðina að fá þetta fram. ( Gripið fram í: Auðvitað veit hæstv. iðnrh. mikið betur ..... ) Já, ég segi það. Þó nú væri að iðnrh. vissi þetta og er nú ekki lítil gæfa fyrir þjóðina að eiga mann sem svona vel er að sér um hin ólíkustu svið sem tengjast hans málaflokki. ( Gripið fram í: Hann skapaði heiminn.) Ég bið hann t.d. að gefa sig fram á næsta ársfundi Jarðfræðifélags Íslands og halda þar snotra fræðilega tölu um þetta efni sem honum er svona hugleikið og hann er svona vel að sér um að hann telur sig þess umkominn að kalla hér fram í fyrir öðrum ræðumönnum með þeim sérstaklega milda stíl sem hann temur sér þegar hann sýnir vitneskju og málflutningi annarra virðingu.
    En ég verð að segja það á hinn bóginn að ég er hjartanlega ósammála hæstv. umhvrh. og mér þykir miður ef þær áherslur hafa verið eða verða lagðar af okkar hálfu að tilteknir hlutir í þessum efnum séu alls ekki á okkar valdi. Heyrði ég það virkilega rétt að umhvrh. hafi fyrir fram selt það í hendur viðsemjendanna eða viðræðuaðilanna að annaðhvort verði um vothreinsibúnað að ræða eða takmarkanir á brennisteinsinnihaldi í skautum. Það er ekkert í lögbókunum sem segir að hvort tveggja geti ekki verið fyrir hendi. Og það er bókstaflega ekkert sem kemur í veg fyrir það að metnaðarfullur umhvrh. í einu landi segi ósköp einfaldlega: Ég vil hafa hér hvoru tveggja, ýtrasta hreinsunarbúnað og tiltekin mörk hvað varðar óhreinku eða brennisteinsinnihald í skautum. Það er bókstaflega ekkert sem kemur í veg fyrir það. Þannig að það er auðvitað rangt og villandi að stilla dæminu þannig upp að annars vegar sértu með hágæða skaut með innan við 2% brennistein, hins vegar sértu með vothreinsun og þá eins skítug skaut og fara gerist. Þetta þurfa að sjálfsögðu ekki að vera andstæður sem menn þurfa að velja á milli. Og það liggur alveg fyrir að það er hægt að ná með vothreinsibúnaði átta til níu tíundu af þessari mengun burtu. Og vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur líka hug á því að efla iðnað og koma hér upp gifs - eða einangrunarplötuframleiðslu, sem er góð hugmynd, þá hygg ég að það mætti með léttum hætti sameina í þeirri vinnslu hreinsun á koldíoxíði einnig. En staðreyndin er nú sú að koldíoxíð, sem er nákvæmlega það sem veldur gróðurhúsaáhrifum, er stærsta einstaka efnistegundin sem fer út við svona vinnslu, eða 1,8 tonn á móti hverju tonni áls. Og vissulega væri það gott ef með einhvers konar kölkun og þá gifsframleiðslu og síðan þilplötuframleiðslu væri hægt að slá þarna tvær flugur í sama rothögginu, þ.e. ná niður brennisteininum og koldíoxíðinu, og væri þá metnaður okkar og vegur orðinn nokkuð góður í þessum efnum ef það tækist. (Gripið fram í.) Það er auðvitað enginn málflutningur og ég vona að ég þurfi aldrei framar að hlusta á tvo ráðherra úr ríkisstjórn Íslands reyna að réttlæta meiri mengun frá þessari stassjón heldur en nokkur ástæða er til með því að það sé víðar mengunin. Það sé ólestur í skolpmálum, það séu kindur að bíta gras hér og þar í landinu o.s.frv. Það er bókstaflega enginn málflutningur og ég biðst undan því að þurfa að hlusta á slíkt framar af munni tveggja virðulegra ráðherra í ríkisstjórn Íslands úr þessum ræðustóli.