Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Stjórnmálamenn, flokka og ríkisstjórnir á að dæma af verkunum. Þrátt fyrir að nokkuð kunni að hafa á skort á stundum að þessi ríkisstjórn nyti sannmælis í umfjöllun stjórnarandstöðu, eins og við heyrðum á máli hv. 1. þm. Suðurl. hér áðan, eða fjölmiðlum, þá er nú svo komið að það er sýnt og fyrirséð að þessi ríkisstjórn mun fá góð eftirmæli; þrátt fyrir það að hún tók við vondu búi fyrirrennara sinna; vegna þess að hún mun skila miklu betra búi. Þrátt fyrir það að hún hefur stjórnað á samdráttarskeiði þar sem þjóðartekjur drógust saman um 20 milljarða; vegna þess að hún hefur ekki látið erfiðleikana buga sig heldur unnið sig út úr þeim. Þess vegna má segja um þessa ríkisstjórn hið fornkveðna: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að nota þennan stutta tíma sem ég hef til að hugleiða með áheyrendum tvær spurningar. Hin fyrri er: Hver hefur verið hlutur okkar jafnaðarmanna í þremur ríkisstjórnum á þessu kjörtímabili? Og í annan stað sérstaklega: Hvað leiðir sanngjörn umfjöllun í ljós þegar við berum saman fyrirheit fyrir kosningar og framkvæmdir? En seinni spurningin væri fyrst og fremst sú: Hver eru hin stóru verkefni sem bíða íslensku þjóðarinnar á næsta kjörtímabili, á þessum áratug, sem er í augsýn nýrrar aldar?
    Virðulegi forseti. Fyrir kosningarnar 1987 boðuðum við jafnaðarmenn jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, lögðum höfuðáherslu á lækkun verðbólgu og vaxta og stöðugleika í efnahagsumhverfinu. Muna menn hvernig þá var áhorfs í þjóðfélaginu? Verðbólga, hávextir. Menn töluðu um að Róm brynni. Menn bentu á skuldasöfnun og hallarekstur fyrirtækja. Menn boðuðu stöðvun í sjávarútvegi. Spámenn boðuðu að atvinnuleysi biði 10 -- 15 þúsund manns. Lítum nánar á niðurstöðurnar.
    Ég sagði: Við boðuðum lækkun verðbólgu. Þetta er fyrsta ríkisstjórnin í sögu lýðveldisins sem hefur náð því markmiði að verðbólga er nú komin niður á sama stig og í viðskiptalöndum. Í fréttabréfi Vinnuveitendasambandsins segir svo: ,,Nú er svo komið að árshraði verðbólgunnar er kominn niður í aðeins 3,9% miðað við síðustu þrjá mánuði.`` Ég held að við getum þess vegna sagt að við höfum staðið við það. Við boðuðum lækkun vaxta. Vextir hafa lækkað frá árslokum á seinasta ári úr 35% í tæplega 13%, þ.e. nafnvextir. Raunvextir úr 12 í 4%. Við höfum heldur betur staðið við það. Það var talað um efnahagságreining sem hafi leitt til stjórnarslita 1988. Jú, það er rétt. Við höfnuðum gengislækkunarkollsteypu þá sem úrræði, aðallega af tveimur ástæðum. Vegna þess að fyrirtækin voru svo skuldsett að þetta hefði riðið þeim að fullu og í annan stað vegna þess að það hefði leitt yfir okkur fjöldaatvinnuleysi og þar með rofið frið og grið á vinnumarkaðinum. Þess í stað leiðréttum við raungengið, sem var of hátt, í áföngum, treystum þannig undirstöður varðandi afkomu atvinnuveganna og sköpuðum forsendur fyrir þjóðarsátt, þjóðarsátt um

raunverulegar kjarabætur í stað verðlausra prósentuhækkana.
    Lækkun verðbólgu og vaxta, þjóðarsátt, hvað hefur það þýtt í raunverulegum kjarabótum fyrir þá sem verst voru settir, hina skuldugu? Tökum dæmigerðan einstakling með 2 millj. kr. skammtímaskuld til tveggja ára. Fyrir ári hefði vaxtakostnaður þessa láns verið 450 þús. kr. á ári. Núna væri þessi vaxtakostnaður um 200 þús. Það munar um minna en 1 1 / 2 -- 2 mánuðarlaun vegna lægri vaxta. Ég spyr: Hvort skyldi vera hagstæðara skuldugu fólki, þjóðarsáttin með lágum prósentum og lágri verðbólgu eða verðbólgumarsúrki verðlags, vaxta og launa sem við þekkjum allt of vel?
    Afkoma atvinnuveganna sem lá við lokun. Það var í fréttunum í kvöld: Í fyrsta sinn í 20 ár er útgerð og fiskvinnsla rekin með umtalsverðum hagnaði. Helsti talsmaður iðnrekenda segir að samkeppnisstaða iðnaðarins á Íslandi hafi ekki verið jafngóð í 20 ár. Lítið á tölur um viðskiptajöfnuð. Lítið á, þrátt fyrir allt, þann árangur sem náðst hefur af aðhaldsstefnu í ríkisbúskapnum þótt þar vanti talsvert á. Er þetta stjórnarstefna sem heitir á máli þeirra sem óska eftir viti borinni stjórnmálaumræðu, að hafa fært Ísland austur fyrir tjald? Er þetta að hafa afnumið vestrænar hagstjórnaraðferðir?
    Tökum nokkur fleiri dæmi. Fyrir kosningar boðuðum við jafnaðarmenn staðgreiðslukerfi skatta sem verkalýðshreyfingin hafði barist fyrir í 30 ár. Við stóðum við það, í góðu samstarfi við samstarfsmenn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í ríkisstjórn.
    Í annan stað: Við boðuðum það að reyna að framkvæma stærstu og þýðingarmestu tillöguna hjá skattsvikanefnd um að fækka undanþágum í söluskatti til þess að loka skattsvikasmugum og styrkja innheimtukerfi opinberra gjalda. Við stóðum við það. Ég býð ekki í ástand ríkisfjármála ef við hefðum ekki þorað að gera að. Ég minni á dóm OECD - sérfræðinga sem sögðu: Þetta er róttækasta og best heppnaða breyting á hagstjórn á Íslandi á seinni árum.
    Við boðuðum að við ætluðum að bæta samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega með því að koma á virðisaukaskatti. Við gerðum það.
    Við boðuðum að við vildum auka valfrelsi í húsnæðismálum, annars vegar í séreignarkerfi og hins vegar að styrkja félagslega kerfið. Við höfum gert það.
    Við höfum lögfest kaupleiguíbúðir, við höfum endurskoðað löggjöf um félagslegt íbúðarhúsnæði. Við höfum aukið fjármögnun félagslega kerfisins og náð því marki í fyrsta sinn að það er nú 1 / 3 af nýbyggingum. Við höfum lögleitt húsbréfakerfið sem er afar hentugt fyrir þá á húsnæðismarkaðnum, sem þurfa að skipta um fasteignir, og við höfum losað skattgreiðendur við að fjármagna þau kaup. Við höfum lækkað útborgunarhlutfallið á ári, við höfum gert þessi viðskipti á fasteignamarkaðinum einföld og viðráðanleg. Þetta er einhver hagkvæmasta aðferð til að nýta gömul borgarhverfi sem upp hefur verið fundin. Þetta er mjög vel heppnuð lausn.

    Við boðuðum að gera átak í húsnæðismálum aldraðra, öryrkja og fatlaðra. Við höfum staðið við það.
    Við boðuðum að stokka upp verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem var reyndar eitt af helstu deilumálunum á fyrra kjörtímabili, sem hefur bæði styrkt fjárhag sveitarfélaga, aukið sjálfstæði þeirra og sjálfsforræði. Sérstaklega styrkt fjárhag þeirra. Kannski er þessi ríkisstjórn besti vinur Davíðs eftir allt saman.
    Við boðuðum að setja þyrfti löggjöf um fjármagnsmarkaðinn utan bankakerfisins. Við hörmuðum það þegar sjálfstæðismenn gerðu sína misheppnuðu tilraun um vaxtafrelsið, ekki vegna þess að það væri ekki rétt út af fyrir sig að efna til vaxtafrelsis, heldur vegna þess að það var gert án fyrirhyggju löggjafar til þess að tryggja hagsmuni viðskiptavina og á vitlausum tíma, þegar eftirspurn eftir lánsfé var óstöðvandi og þensla mikil. Það endaði í vaxtaslysi.
    Við boðuðum að það yrði að gæta jafnvægis annars vegar milli réttmætra krafna sparifjáreigenda um raunávöxtun sparifjár en hins vegar yrði greiðslubyrði skuldara að vera í hófi. Okkur hefur tekist það.
    Við boðuðum að fækka viðskiptabönkum. Okkur hefur tekist það, það er búið að tala um það í tíu ár, okkur hefur tekist að fækka þeim úr sjö í þrjá. Hver er árangurinn? Árangurinn birtist m.a. í því að mannaflaþörf bankakerfisins minnkar nú milli ára um 5% í fyrsta sinn í 25 ár.
    Við boðuðum aukið útflutningsfrelsi og við boðuðum aukið frelsi í gjaldeyrisviðskiptum. Við höfum gert það. Reglugerð viðskrh. um það afléttir gömlum forréttindum.
    Við boðuðum nýjungar í atvinnulífinu. Við boðuðum að binda enda á kyrrstöðu og stöðnun varðandi virkjun orkulindanna og við höfum heldur betur staðið við það. Við erum með það mál á lokastigi og ég skora á ykkur, hlustendur góðir, hlustið þið vel eftir því hverjir eru úrtölumennirnir í því máli og hverjum er að treysta í því máli.
    Þannig gæti ég svo sem lengi talið. Við alþýðuflokksmenn höfum allan tímann verið traustir stuðningsmenn vestrænnar samvinnu á sviði varnarmála, öryggismála og efnahagsmála. Undir okkar forustu hefur verið staðið við öll fyrirheit í því efni. Við höfum verið óvenjulega virkir í alþjóðlegu samstarfi. Það á ekki hvað síst við um viðskiptasamstarfið þar sem við höfum haft forustu um stefnumótun og reyndar haft á hendi verkstjórn í viðamestu milliríkjasamningum sem íslenska þjóðin hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir og munu, ef þeir takast, verða stærsta skrefið sem stigið hefur verið í sögu þessarar þjóðar í átt til aukins viðskiptafrelsis.
    Góðir áheyrendur. Það er þýðingarmikið að tala um stjórnmál út frá staðreyndum og neita þeim ekki. Það er þýðingarmikið að halda stjórnmálamönnum og flokkum við þau fyrirheit sem gefin voru. Ég segi: Af þeim 34 skilgreindu fyrirheitum, sem við gáfum í kosningastefnuyfirlýsingu okkar 1987, höfum við staðið við og hrint í framkvæmd nú þegar 29. Það er góður árangur í samsteypustjórnum á erfiðleikatímabili. Það er rétt að við höfum látið verkin tala. Það

væri hins vegar afar fávíslegt að miklast af þessum árangri. Það væri jafnfávíslegt og að neita honum og vanmeta hann vegna þess að við höfum lagt grunn að traustu framfaraskeiði. Við höfum búið í haginn fyrir framtíðina.
    Virðulegi forseti. Saga Alþfl. leiðir í ljós að hann er umbótaflokkur sem hefur lagt gjörva hönd á mörg stærstu umbótamál sem hafa breytt íslensku samfélagi. Það á við um verkamannabústaðalöggjöf Héðins. Það á við um almannatryggingalöggjöf Haralds. Það á við um hugmyndirnar um opnun þjóðfélagsins í viðskiptum og samskiptum við aðrar þjóðir í tíð Gylfa. Það á við varnaðarorð okkar um ógöngur landbúnaðarkerfisins. Þannig mætti lengi telja.
    Ég sagði umbótaflokkur. Við erum umbótaflokkur af því tagi sem beitir sér í samstarfi við aðra flokka fyrir umbótamálum. En við látum okkur ekki nægja að friðþægja samviskuna með mótmælum. Við viðurkennum veruleika samsteypustjórna en við náum árangri eftir þessum leiðum.
    Þegar við lítum til framtíðarinnar, þá höfum við skilgreint stærstu viðfangsefni okkar á næsta kjörtímabili þessi:
    Í fyrsta lagi að endurskipuleggja í grundvallaratriðum ýmsar forsendur atvinnustefnu okkar. Það á við um stóriðjumálin og virkjanamálin, það á við um landbúnaðarmálin og það á við um sjávarútvegsmálin.
    Í annan stað er eitt stærsta verkefnið að ljúka samningum okkar við Evrópubandalagið og skilgreina sess Íslands í samstarfi Evrópuþjóðanna í framtíðinni.
    Þriðja stóra málið er frá okkar bæjardyrum séð þetta: Ef við viljum verja velferðarkerfið, en til þess erum við sérstaklega kjörnir, þá verður ekki undan því vikist að vinda sér í fjögurra ára áætlun um uppskurð á ríkisbúskapnum íslenska.
    Fjórða stóra málið er jöfnun lífskjara. Það er að nýta nýtt hagvaxtarskeið til að jafna lífskjör, stytta vinnutíma og bæta skilyrði til almenns og heilbrigðs fjölskyldulífs.
    Ég mundi nefna sem fimmta atriði nauðsyn þess, með sterkri löggjöf og virku eftirliti, að draga úr vaxandi tilhneigingum til einokunar og sífellt vaxandi samsöfnun fjármagns á færri hendur.
    Loks í sjötta lagi væri það meginverkefnið að nýta nýtt hagvaxtarskeið til þess að grynnka á skuldum þjóðarinnar.
    Á flokksþingi okkar nú nýlega samþykktum við drög að kosningastefnuskrá upp á 50 síður þar sem við skilgreinum nákvæmlega þær lausnir sem við bjóðum í þessum stóru málum.
    Það þarf enginn að spyrja um það hver er afstaða okkar varðandi nýtingu orkulindanna og samninga við erlenda aðila um stóriðju. Þar höfum við látið verkin tala. Að því er varðar landbúnaðarmálin, þar sem okkur er oft núið um nasir að hafa farið inn í ríkisstjórn þrátt fyrir þá staðreynd að búvörusamningurinn batt hendur og fætur allra flokka fram til ársins 1992, þá vil ég bara minna menn á einn hlut: Í því tilboði, sem þessi ríkisstjórn hefur nú lagt fram með skuldbindandi hætti fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í sambandi við GATT - viðræðurnar, felst það að á átta árum munum við draga úr stuðningi við landbúnað í útflutningsbótum og heildarstuðningi um tæpa 4 milljarða á ári að meðaltali á næstu árum eða um 31,3 milljarða á átta ára tímabili. Ef þetta gengur eftir þá er það meiri árangur en nokkurn hafði órað fyrir eða þorað að vona.
    Virðulegi forseti. Flokkur sem starfar eins og Alþfl., flokkur sem getur kinnroðalaust lagt verk sín fyrir dóm kjósenda, kvíðir ekki þeim dómi. Og ég vil segja það að lokum að við höfum áður heyrt hrakspár um framtíð íslensks þjóðfélags, hrakspár um gengi þessarar ríkisstjórnar, hrakspár um gengi okkar flokks. En eitt segi ég: Ef stefnan sem Alþfl. hefur skilgreint og markar sérstöðu hans nær fram að ganga áfram á næsta kjörtímabili, þá þurfum við ekki að kvíða því að íslenskt þjóðfélag verði C2 - þjóðfélag, dæmt til þess að verða bónbjargamaður í samfélagi Evrópu. Þvert á móti verða möguleikar okkar nýttir til hins ýtrasta vegna þess að framfarasinnuð, umbótasinnuð stefna mun skila árangri. --- Ég þakka áheyrnina.