Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Góðir Íslendingar. Það er stundum sagt að stjórnmálamenn standi ekki við stefnu sína. Það er stundum sagt að það sé ekkert að marka orðin og yfirlýsingarnar. Núna eru tvö ár síðan Alþb. kom að þessu verki. Þá voru Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. staddir á strandstað með landsstjórnina. Á röskri viku ákvað Alþb. að hefja björgunarstarfið í samvinnu við tvo af þessum flokkum, enda væri samstaða um að breyta stefnunni.
    Það eru liðin tvö ár og nú talar reynslan sínu máli. Alþb. lagði fram stefnu sem fól það í sér að með breyttri fjármálastjórn og breyttri peningastefnu væri verðbólgan tekin hér niður í það sem hún væri í samkeppnislöndum okkar. Reynslan sýnir að við búum nú við 7% verðbólgu sem er álíka mikil og í þeim löndum þar sem bestur árangur hefur náðst og ekkert bendir til annars en að sá árangur geti haldist á nýju ári. Alþb. lagði fram stefnu sem fól það í sér að hinum tryllta dansi á peningamarkaðinum, vaxtadansinum og óstjórninni í peningamálunum, yrði hætt og í staðinn væri tekin hér upp binding á peningamarkaði og slökkt það bál sem þar hafði geisað þannig að jafnvægi yrði komið á og vextirnir færu að hrapa. Það hefur líka gerst.
    Alþb. lagði fram stefnu sem fól það í sér að áherslan yrði flutt frá innflutningi og yfir til útflutningsgreina, stefnu sem fól í sér breyttar áherslur í gengismálum þannig að útflutningsgreinunum yrði sköpuð á ný sú aðstaða að geta rekið sig ár frá ári án þess að farið væri í gegnum gengiskollsteypu. Einnig á þessu sviði sýnir reynslan að árangur blasir við.
    Alþb. lagði á haustmánuðum 1988 fram þá stefnu að forðast yrði það stórfellda atvinnuleysi sem þá blasti við á öllum sviðum og Ísland yrði áfram að skera sig úr í hópi vestrænna þjóða þar sem atvinnuleysið væri óþekkt í þeim mæli sem það er annars staðar í Evrópu. Einnig á þessu sviði hefur árangur náðst.
    Alþb. boðaði þá stefnu að hætt yrði að taka erlend lán til að fjármagna halla ríkissjóðs til að standa undir velferðarkerfinu og skólakerfinu. Í fyrra tókst að ná því marki að 80% af fjárþörf ríkissjóðs var fjármögnuð innan lands og í ár verður fjármögnunin 100% að láni hjá okkur sjálfum. Þannig er hægt að telja áfram þann árangur sem hefur náðst, hvernig stefnubreytingin sem Alþb. flutti með sér inn í ríkisstjórnina fyrir tveimur árum hefur orsakað hér þáttaskil, vegna þess að Alþfl. kaus að hætta dýrkun sinni á stjórnarsamstarfi með Sjálfstfl. og vegna þess að Framsfl. var búinn að fá nóg af fimm ára veru í slagtogi með Sjálfstfl.
    En það er einnig á fleiri sviðum sem sú stefnubreyting sem við boðuðum hefur skilað miklum árangri. Í góðu samstarfi við aðra flokka í ríkisstjórninni hefur verið komið á breytingum í félagslegu húsnæðiskerfi þar sem ný löggjöf með búseturétti og verkamannabústöðum hefur orðið á þann veg að slíkar íbúðir munu skipa vaxandi sess í húsakosti þjóðarinnar á næstu árum.
    Í menningarmálum, í bókmenntum og listum boðuðum við það gildismat að með tilkomu virðisaukaskatts ætti bókmenntaþjóðin og menningarþjóðin að sýna í verki að sá þáttur væri svo mikilvægur að við vildum ekki taka hann inn í það skattkerfi. Allir aðrir flokkar höfðu viljað gera það. Með niðurfellingu virðisaukaskatts á íslenskum bókum hefur verið framkvæmd stærsta fjármálatilfærsla til íslenskrar menningar sem þekkst hefur í sögu okkar lýðveldis.
    Áfram var haldið. Við höfðum í um það bil tíu ár boðað nauðsyn á umhverfisráðuneyti, ekki vegna þess að það ætti að fjölga stjórnarskrifstofum heldur vegna þess að það þurfti nýtt gildismat í meðferð íslenskra mála. Það hefur tekist og nú er það ekki iðnrn. sem veitir starfsleyfi fyrir nýtt álver, heldur umhverfisráðuneytið þar sem færustu sérfræðingar í náttúruvernd og í umhverfisfræðum munu kveða upp dóminn sem þar þarf á komandi sögu.
    Við boðuðum að nauðsyn væri að afvopnun á höfunum væri kjarninn í utanríkisstefnu Íslendinga og því ber að fagna að Alþfl. og Framsfl. hafa þar tekið höndum saman við okkur á síðustu tveimur árum þannig að rödd Íslands boðar nú alls staðar á alþjóðavettvangi nauðsynina á afvopnun á höfunum.
    Í 20 ár höfum við gagnrýnt þann samning sem Alþfl. og Sjálfstfl. gerðu um álverið í Straumsvík vegna þess að í þeim samningi var afsalað frumrétti sjálfstæðrar þjóðar þar sem afneitað var íslensku dómsvaldi og íslenskri lögsögu. Því ber að fagna að nú þegar hefur tekist í samningum við erlendu fyrirtækin sem við ræðum nú við að festa það í sessi að það verða íslenskir dómstólar, íslenskar réttarfarsstofnanir og íslensk yfirvöld sem munu kveða upp úr þegar ágreiningur verður.
    Á fjölmörgum sviðum á síðustu tveimur árum sést stefnubreytingin. Alþb. getur þess vegna reitt fram orð sín á árunum 1983 -- 1988 og verk sín á síðustu tveimur árum. Sá dómur talar skýru máli. Það er umhugsunarefni fyrir hinn ágæta utanrrh., formann Alþfl., að það var þá fyrst þegar hinn róttæki jafnaðarmannaflokkur, Alþýðubandalagið, gekk inn í landsstjórnina að Alþfl. fékk skilyrði til að framkvæma stefnu sína vegna þess að 28 af þeim 29 atriðum sem hann taldi hér Alþfl. til tekna komu til framkvæmda eftir að Alþb. kom inn í ríkisstjórnina. Það ætti að vera þeim öflum í Alþfl., m.a. Árna Gunnarssyni sem hér talar í kvöld og boðar nauðsyn á stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl., tilefni til rækilegrar umhugsunar. Það þarf róttækan jafnaðarmannaflokk á Íslandi til þess að breyta þessu þjóðfélagi, flokk sem setur fram skýra stefnu og stendur við hana, flokk sem er óhræddur við að leggja verk sín undir dóm kjósenda, flokk sem segir: Við ætlum að framkvæma þá stefnu sem við boðum vegna þess að við viljum hér breytt þjóðfélag og betri tíma. Dómur reynslunnar af síðustu tveimur árum samanborið við fimm árin á undan er skýr. --- Góða nótt.