Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Staðreyndir skipta máli í stjórnmálum ekki síður en annars staðar í mannlegu lífi. Stundum geta þær verið naprar og sannleikurinn bitur. Það er til að mynda staðreynd sem engum dettur í hug að neita að Sjálfstfl. hrökklaðist úr stjórnarforustu haustið 1988 vegna þess að hann reyndist ófær um að laða ólík öfl til sameiginlegs átaks gegn þeim vanda sem þá var uppi í þjóðfélaginu þrátt fyrir góðæri undanfarinna ára og hann öðrum fremur hafði tekið þátt í að sólunda. Mætir menn jafnt innan hans sem utan höfðu þó bent á raunhæfar leiðir út úr vandanum sem síðar áttu eftir að skipta sköpum í þessu efni. Viðskiptahallinn við útlönd hafði aukist ótæpilega sem og hallinn á ríkissjóði, verðbólgan var á fljúgandi ferð, útflutningsatvinnuvegirnir að stöðvast og allsherjarhrun blasti við. Þetta er staðreyndin sem forusta Sjálfstfl. helst vill reyna að gleyma, ekki síst í samanburði við stöðu þessara mála í dag, réttum tveimur árum síðar. Verðbólgan verður að lækka og komast á svipað stig og í helstu viðskiptalöndum okkar, var krafan sem bergmálaði um allt þjóðfélagið og hafði svo sem heyrst áður. En nú á haustdögum 1990 er þetta hins vegar staðreynd sem hefur áhrif á allt efnahagslíf þessarar þjóðar og það sem mestu skiptir, leggur grundvöllinn að auknum hagvexti og möguleikum að bættum lífskjörum í náinni framtíð. Þessi þýðingarmikli árangur hefur náðst, fyrst og fremst vegna þjóðarsáttarinnar sem aftur var ávöxtur heiðarlegs samstarfs fulltrúa atvinnulífsins og stjórnvalda. Það heiðarlega samstarf er staðreynd sem mun a.m.k. standa til hausts 1991 en án efa hafa síðan ómæld áhrif um langa framtíð þegar menn meta árangurinn sem allir munu njóta. En það var hins vegar sögulegt hlutverk Borgfl. hér á hinu háa Alþingi að ráða úrslitum um þá þróun sem leiddi til þess að þjóðarsáttin varð möguleg og verðbólgan hamin. Þetta er staðreynd sem þeir helst vilja gleyma er nú ylja sér við hillingar skoðanakannana og svífa á skýjum ímyndaðra vinsælda.
    Það er vissulega fátítt í íslenskum stjórnmálum að svo ungur stjórnmálaflokkur fái slíkt tækifæri og þori að axla þá ábyrgð sem slíkri úrslitastöðu óneitanlega fylgir. En nú þegar árangurinn er ótvírætt að koma í ljós á fjölmörgum sviðum og úti um allt land þurfum við, borgaraflokksfólk, ekki að sjá eftir því að bregðast rétt við á úrslitastundu. Þeir sem okkur gagnrýna háværast mættu hins vegar líta af sanngirni í eigin barm og gaumgæfa eigin verk í sömu stöðu. Ég ímynda mér af gamalli reynslu að jafnvel Sjálfstfl. þættist fullsæmdur af þeim árangri sem hér hefur orðið hefði hann sjálfur átt hlut að máli. Vitaskuld náðum við ekki öllu því fram sem við vildum, en það tókst að ná fram lækkun matarskattsins af brýnustu innlendu afurðunum enda þótt staðan væri vissulega þröng. En það sem nú skiptir mestu máli og enn er óunnið af því sem Borgfl. hefur lagt þunga áherslu á í stjórnarsamstarfinu er að finna leið til þess að rjúfa sjálfvirkni lánskjaravísitölunnar sem raunar hvergi annars staðar þekkist um hinn vestræna heim. Það er meginverkefnið sem enn er óunnið og nú hálfu þýðingarmeira en áður vegna þess að á því veltur hvernig til tekst um efnahagsstjórn hér næstu árin. Þegar það mál er leyst á farsælan hátt getur ríkisstjórnin unað nokkuð vel þeim árangri sem náðst hefur og þeim grundvelli sem tekist hefur að leggja að farsælli þróun til lands og sjávar í náinni framtíð.
    Hæstv. forseti. Það er hins vegar kaldhæðni örlaganna að þau fleygu orð sem Sjálfstfl. hefur reynt að eigna sér, stétt með stétt, hafa einmitt fengið fyllingu í þjóðarsáttinni og þeim árangri sem með henni hefur náðst. Friðsamleg lausn í kjaramálum sjómanna nú fyrir helgina er eitt dæmi þess að þjóðin öll skilur mikilvægi þess árangurs sem þegar hefur unnist. Og það er þessi árangur sem verður að varðveita. Atvinnulífið, heimilin í landinu og þá ekki síst landsbyggðin eiga hér sömu hagsmuna að gæta. Um það mun baráttan standa á því þinghaldi sem nú er nýhafið og einnig næstu ár.
    Ég þakka þeim sem hlýddu, hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, og býð góða nótt.