Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga um launamál sem liggur hér frammi til umræðu og er flutt af hæstv. ríkisstjórn er einstakt í þingsögunni. Það er einstakt hvað varðar lagatilbúning þessa máls. Það er einstakt að því leyti til að aldrei áður hefur verið flutt frv. til laga sem á að ógilda dóm og fjallar jafnframt um það að hér eigi að fara fram eignaupptaka.
    Ég hef tvisvar tjáð mig um þessi mál áður opinberlega utan þings, í greinum sem ég reit 10. ágúst og 24. ágúst í Morgunblaðinu og get vitnað til þeirra greina um mörg þau atriði sem hér hefði auðvitað þurft að taka frekar til umræðu.
    Það er alvarlegt mál þegar ríkisstjórn ákveður að setja bráðabirgðalög. Og það er öllu alvarlegra þegar bráðabirgðalög eru sett, sem er álitamál hvort ríði í bága við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. En spurningin er hvort hægt sé að taka tiltekna eign af fólki án fullra bóta þegar dómur hefur úrskurðað þetta lögmæta eign viðkomandi.
    Í 67. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um friðhelgi eignarréttarins. Bæði Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson töldu að eigi væri heimilt að gefa út bráðabirgðalög um hvaða efni sem er. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnarskrárinnar segir að bráðabirgðalög megi ekki ríða í bág við stjórnarskrána. Með þessu er einungis átt við þau fyrirmæli stjórnarskrárinnar sem varin eru af 1. mgr. 79. gr. hennar, sbr. Bjarni Benediktsson, Íslensk stjórnlagafræði II, bls. 59 og Ólafur Jóhannesson, Stjórnskipun Íslands, bls. 328. En það verður að telja að 67. gr. stjórnarskrárinnar sé þannig háttað. Útgáfa þessara bráðabirgðalaga er því brot á stjórnarskrá.
    Nú hlýt ég að spyrja hæstv. forsrh. hvað hæstv. ríkisstjórn muni gera ef dómur fellur í þá veru, sem ég þykist vita, að þessi lög brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. Hyggst hæstv. forsrh. segja af sér eða hyggst hann sitja áfram? Ég tel enn fremur nokkuð ljóst að það er ekki hægt að afgreiða þessi lög frá Alþingi fyrr en fyrir liggur dómur í máli sem þegar hefur verið höfðað um þetta atriði. Niðurstaða dómstólanna verður að liggja fyrir. Það verður að liggja fyrir hvort ríkisstjórnin hafi brotið þau grundvallaratriði stjórnarskrárinnar sem hér er fjallað um. Það er ekki nokkur vafi að hér eru mjög alvarlegir hlutir á ferðinni.
    Það hefur verið fjallað hér um útgáfu bráðabirgðalaga og deilt hart á það hvort setja eigi þau eins oft og raun ber vitni. En mun alvarlegra er hins vegar það ef bráðabirgðalög stangast á við stjórnarskrána. Einn af talsmönnum ríkisstjórnarinnar, hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, gagnrýndi mjög harðlega útgáfu þessara laga. Raunar er vitað að nokkrir stjórnarþingmenn styðja ekki útgáfu laganna.
    En það er ekki nóg með það að hér sé um lög að ræða, sem séu óvenjuleg hvað þetta varðar, heldur er sú aðferð sem beitt hefur verið í þessu máli mjög óvenjuleg. Þá á ég við þátt verkalýðshreyfingarinnar, þátt þeirra manna sem stóðu að kjarasamningum eftir að BHMR hafði gert sína samninga, einnig þátt atvinnurekenda og síðan þátt ríkisstjórnarinnar og þátt þingmanna sem styðja ríkisstjórnina. Það er fáheyrt að samið sé um það að kjarasamningar sem þegar hafa verið gerðir skuli falla úr gildi. Það er fáheyrt að það skuli tekið aftur með lögum með þeim hætti sem hér hefur verið gert.
    Eftir niðurstöðu félagsdóms liggur ljóst fyrir að þau 4,5% sem BHMR - félagar fengu eru eign þeirra. Með þeim lögum sem hér liggja fyrir hefur þessi eign verið tekin af félögum BHMR. Því er um skýlaust brot á stjórnarskrá Íslands að ræða. Þetta er upptaka eigna sem eru varðar af stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Ég tel að þeir aðilar, sem hafa staðið að þessum samningum og þessari lagasetningu, hafi farið langt út fyrir það umboð sem hægt var að veita þeim samkvæmt grundvallarreglum íslenska lýðveldisins.
    Ég hef margoft sagt það hér og ætla að segja það enn einu sinni að stjórnarskráin verður aldrei betri en þingmennirnir sem sitja á Alþingi hverju sinni. Það er því krafa til stjórnarþingmanna að þeir veiti þinginu þá virðingu að greiða atkvæði gegn slíkum lögum, þeir veiti stjórnarskránni þá virðingu. Ef ekki, þá er það rétt sem ég hef sagt hér, að það breytir engu sem stendur í stjórnarskránni, hvort við höfum eina þingdeild eða tvær þingdeildir. Það sem skiptir máli er það að menn vinni heimavinnuna og haldi þau lög og þau stjórnlög sem í landinu eru.
    Útgáfa þessara bráðabirgðalaga er ríkisstjórninni til hneisu. Það hlýtur að vera krafa að þingmenn stjórnarliða komi og tjái sig um þetta mál því annars verður að líta svo á að þeir beri enga virðingu fyrir Alþingi og það sé því rétt sem almannarómur segir, að virðing Alþingis fari hnignandi.
    Það er sorglegt að vita til þess að ráðamenn íslensku þjóðarinnar skuli fara hér að eins og raun ber vitni. Ég held einnig að ef það virðingarleysi sem hér ríkir fyrir grundvallaratriðum í stjórnskipun Íslands heldur áfram með þessum hætti verðum við það ríki sem fyrst tapar sjálfstæði sínu. Og ég held að þingið, Alþingi Íslendinga, hljóti að taka meiri völd í sínar hendur. Alþingismenn, þó þeir styðji þessa ríkisstjórn, geta ekki verið þekktir fyrir að sitja aðgerðalausir hjá þegar svo veigamikið mál liggur hér fyrir. Það er ekki hægt að gera þjóðarsátt um það að brjóta stjórnarskrána. Það er ekki hægt að gera þjóðarsátt um að traðka á helgustu réttindum sem lög íslenska lýðveldisins veita okkur. Það er ekki þjóðarsátt. Það minnir frekar á þegar fulltrúar í einræðisríkjum koma fram á tyllidögum og segja okkur að þeir séu fulltrúar þjóðarinnar. Þeir menn geta aldrei verið fulltrúar þjóðarinnar sem fara þannig með helgustu lög íslenska lýðveldisins að þau ríða í bága við hana.
    Ég tel að þó að haldið sé aftur af verðbólgunni megi ekki gera það með þeim hætti að það ríði í bága við stjórnarskrána. Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er æðri en nokkurt það atriði sem ríkisstjórn getur framkvæmt, hún er æðri en svo að hægt sé að fara með hana eins og einhverja ómerkilega reglugerð sem hefur verið gefin út í ráðuneytunum.

    Ég tel nauðsynlegt að hæstv. forsrh. svari því hér og nú hvað ríkisstjórnin muni gera ef dómur fellur, sem ég tel að sé nokkuð ljóst, henni í óhag. Mun hún gera eins og þegar félagsdómur féll, að telja sig yfir dómstóla landsins hafna, eða mun hún víkja og segja af sér? Þetta eru atriði sem við hljótum að vilja fá svarað. Það er hættulegt að slíkir menn skuli vera nú við völd sem ekki víla fyrir sér að setja lög með þessum hætti.
    Það er stórkostlegt ábyrgðarleysi sem felst í útgáfu slíkra laga. Og það er stórkostlegt gáleysi, að ekki sé meira sagt, af þingmönnum þessarar ríkisstjórnar ef þeir ætla að láta þessi mál halda áfram með þeim hætti sem hér hefur komið í ljós.
    Hv. 2. þm. Austurl. sagði að holur hljómur væri í Sjálfstfl. í þessu máli. Ég held að hv. þm. hefði átt að lesa það sem við þingmenn Sjálfstfl. höfum skrifað um þetta og látið frá okkur fara áður en hann hafði þau orð uppi. Það er hins vegar holur hljómur í stjórnarþingmönnum sem standa hér upp, eins og áður hefur komið fyrir, og lýsa yfir andstöðu í málum, við ríkisstjórnina, en hlaupa síðan undan þegar á hólminn er komið með sérstökum bókunum í atkvæðagreiðslum. Ég skora á þingmenn ríkisstjórnarinnar að hafa kjark til að rísa upp og halda í heiðri stjórnarskrá lýðveldisins.