Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég skal með ánægju reyna að svara því sem til mín er beint. Fyrst var spurt: Við hvaða sérfræðinga var ráðgast þegar metið var hvort ákvæði 1. gr. stæðist? Ég skildi þetta svo, var það ekki rétt? Ég ráðgaðist fyrst og fremst við minn ráðgjafa, Jón Sveinsson lögfræðing, og ég veit að hann leitaði reyndar ráða víðar. Hans niðurstaða varð eindregið sú að þessi grein mundi standast og alveg sérstaklega eftir að vinnuveitendur, þ.e. VSÍ og VMS, höfðu samþykkt formlega að greiða sömu 4,5%. Það var hans skoðun að sérstaklega þá væri alveg ljóst að þetta mundi valda röskun á hinum almennu kjarasamningum.
    Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja misskilning að mér er ekki kunnugt um að leitað hafi verið til ríkislögmanns og það er heldur sjaldan að það er gert því að hann er maður sem kemur inn í málið þegar á seinna stig er komið. Við hvaða sérfræðinga fjmrh. hefur rætt þori ég nú ekki að segja. En ég held að hann hafi rætt við ýmsa þá menn sem hafa staðið í samningunum með honum og þar eru vitanlega m.a. lögfræðingar. En betra er að hann skýri frá því sjálfur svo að enginn misskilningur þar verði.
     Sjútvrh. er ekki hér því hann er erlendis svo að ég á kannski ekki að vera að svara fyrir hans hönd. Þó vil ég leyfa mér að segja það að hann eins og ég og fleiri leit töluvert öðrum augum á það að breyta samningnum með lögum en að setja lög á félagsdóm. Ég heyri að við erum alls ekki sammála um það hér og það verður bara að hafa sinn gang. En, með leyfi forseta, þetta skilst kannski betur eins og lögfræðingurinn skrifar. Lögfræðinga skilja helst lögfræðingar, hef ég komist að. Lögfræðingurinn Jón Sveinsson segir:
    ,,Það er misskilningur að bráðabirgðalögin hafi numið úr gildi dóm félagsdóms. Dóminum er í engu raskað. Hins vegar er hluta samnings BHMR og fjmrh. breytt með lögunum þannig að þær greiðslur sem fólust í dóminum féllu niður frá 1. sept. 1990. Það þýðir hins vegar ekki að dóminum sé breytt, heldur þeirri réttarheimild sem greiðsluskylda samkvæmt dóminum var studd við.``
    Ég vona að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir skilji þetta betur. Ég kalla þetta forsendur. Kannski er það ekki rétt lagamál. Menn verða að taka viljann fyrir verkið hjá verkfræðingnum. En ég sé ekki stóran mun á því. En svona skýrir lögfræðingurinn Jón Sveinsson þetta atriði. Og þetta var vitanlega mjög ítarlega rætt. Það kom ekki til mála að setja lög og segja: Þrátt fyrir dóm félagsdóms skal ekki greitt ... Og það var greitt svo lengi sem þessi --- hvað kallar lögfræðingurinn það, --- réttarheimild var til staðar. Vitanlega eru ótal fordæmi þar sem við breytum lögum og fyrrverandi réttarheimild er felld úr gildi. Við erum að gera það allan tímann. Þ.e. réttarheimild sú sem dómurinn byggðist á er felld niður. Og þar til hún er felld niður var að sjálfsögðu greitt samkvæmt dómnum.
    Ég veit ekki hvernig ég á að svara þeirri

fullyrðingu að ég hafi kennt félagsdómi um að það var ekki greitt nema tvisvar. Að félagsdómur hafi sagt að það skuli ekki greitt nema tvisvar. Hv. þm. er velkomið að fara í mína ræðu og skoða það að sjálfsögðu. Mér hefur ekki dottið slíkt í hug. En, eins og ég kallaði það, að forsendunum hefði verið breytt og þar með ekki forsenda til að greiða lengur.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson skildi mig svo að það væri allt í lagi fyrir BHMR þegar þjóðarsáttinni ljúki. Hvers vegna þá ekki víxlverkan? Ég reyndi að skýra það áðan en eflaust hefur það ekki verið ljóst fyrst svo glöggir menn skildu það ekki. En ég skal reyna að endurtaka það. Ástæðan er sú að þegar við tölum um þjóðarsátt þá vísum við til þess samnings sem gerður hefur verið á milli atvinnurekenda og launþega og gildir fram í september 1991. Þetta er það sem við höfum nefnt þjóðarsátt. Það er svo sannarlega von mín, og eins og ég skildi hv. þm. erum við þar sammála, að þjóðarsátt takist áfram um að halda verðbólgu í skefjum og hafa skynsamlega stefnu hér í efnahags- og launamálum. En almennt hef ég skilið þjóðarsáttina svo að vísað væri til þessa samnings.
    Í þessum samningi er ákvæði sem segir að ein forsendan fyrir því að launahækkanir verði ekki meiri hjá aðilum ASÍ á tímabili þjóðarsáttarinnar, þ.e. til september 1991, sé sú að aðrir hljóti ekki meiri launahækkun á þessum tíma. Þetta veit ég að hv. þm. þekkir. Sama ákvæði er í samningi fjmrh. við BSRB. Ég lýsti því hér áðan að ég geri mér vonir um að ef vel er staðið að þeim samanburði sem samþykktur var takist að sannfæra menn um að leiðrétting sé þarna réttmæt. Ég veit ekki hvað út úr þessum samanburði kemur og reyndar hafa sumir sem að honum hafa unnið fullyrt að út úr honum komi lítið sem ekkert af því að ýmis ákvæði, ég held að ég hafi nefnt það áðan líka, eins og lífeyrissjóður séu mikils virði og fleiri slíkir þættir, fleiri slíkar greiðslur sem háskólamenntaðir menn í þágu ríkisins njóta. Það yrði þá á valdi aðila hins almenna vinnumarkaðar að meta þetta og ákveða þá við samninga í september að ári, hvort þeir ætli að upphefja þá leiðréttingu sem BHMR hefði fengið. Ef þeir ákveða að gera það er ákaflega hætt við að víxlverkanir hefjist. Það er alveg rétt. En ég geri mér vonir um að ef vel er að þessu staðið þá megi gera leiðréttingu sem viðurkennd verður.
    Síðan var spurt: Hvers vegna var ekki rætt við BHMR? Ég hef sagt það, ég hef talið mig vera hreinskilinn og mér er stundum legið á hálsi fyrir það, en ég mun halda því áfram og það er alveg hárrétt sem ég sagði við Morgunblaðið að ég nefndi það að líklega hefði verið rétt að hefja viðræður við BHMR. Ég sagði aldrei að því hefði verið neitað eða ríkisstjórnin hefði ekki fallist á það. Hins vegar var þetta rætt og í þeim viðræðum kom m.a. fram hjá þeim mönnum sem unnu að samanburðinum að það væri óþarft að hefja máls á þessu á því stigi. (Gripið fram í.) Augnablik, ég ætlaði að segja það að fjmrh. tók undir það og taldi ekki ástæðu til þess. Ég veit að hann getur staðfest það. Ástæðurnar fyrir því voru fyrst og fremst þær, sem ég reyndar kom lauslega inn á áðan,

að margir töldu að þessi samanburður mundi ekki leiða til þeirra vandræða sem kom reyndar aldrei endanlega fram af því að honum var ekki lokið og menn töldu, ég nefndi það hér a.m.k. í framsöguræðu minni hygg ég, að þeim samanburði yrði lokið fyrir 1. júlí. Það var mjög eindregið stefnt að því að ljúka þeim samanburði fyrir 1. júlí. Því miður kom ýmislegt í veg fyrir það, m.a. það að verulegt ósamkomulag varð um það hverja skyldi taka með í þessum samanburði. Deilur urðu á milli fulltrúa BHMR og fulltrúa fjmrh. um það. Og það tók tíma að leysa það. Sömuleiðis voru skil til Gallup - stofnunarinnar miklu seinni en gert var ráð fyrir, því miður. Og menn töldu að ef þetta leiddi til mismunar þá væri eðlilegra að taka upp viðræður um það því að þá lægi fyrir að þá yrði röskun. Ég þrýsti ekkert á það síðan þegar ég sá að menn voru þessarar skoðunar. Ég sagði: Ég átti einu sinni fund með forustumönnum BHMR. Þeir báðu um fund með mér og þar voru þessi mál lauslega rædd. Þar var staðfest út af fyrir sig að þeir legðu mjög mikla áherslu á það að þessum samanburði yrði hraðað og yrði lokið. Mér fannst full ástæða til að ætla að það tækist þannig að ég féllst á þessi rök. Vel getur verið að átt hefði að taka upp viðræðurnar en ég skal ekkert fullyrða um það til hvers þær hefðu leitt.
    Hins vegar vil ég leggja ríka áherslu á að ítarlegar viðræður voru teknar upp eftir að ég kom heim 14. júlí og ég átti marga fundi með forustumönnum BHMR. ( FrS: Eftir að dómur féll.) Ég kem heim sama dag og dómur fellur. Það er rétt. Og ég tók þá upp ítarlegar viðræður við BHMR. Gerði það persónulega því ég gerði mér satt að segja vonir um að unnt væri að ná samkomulagi um frestun og var reynt að ná samkomulagi um það að í staðinn fyrir þá 4,5% hækkun sem dómurinn taldi að þeim bæri samkvæmt samningnum mætti fella þá hækkun inn í þá hækkun sem varð á hinum almenna markaði, sem var meiri í krónutölu en kom seinna. Ég gerði mér vonir um að unnt væri að ná samkomulagi um það að ljúka samanburðinum og gera síðan þá leiðréttingu sem hann leiddi í ljós í september að ári. Og ég gerði formlega tillögu í ríkisstjórninni um þetta sem var síðan lögð fyrir BHMR formlega. Þær viðræður voru síðan fullkomlega í höndum fjmrh. en ekki tókst samkomulag. Ég vil taka það fram að þeir fundir sem ég átti með forustumönnum BHMR voru mjög gagnlegir, voru opinskáir og þetta var rætt fram og aftur. Því miður töldu forustumennirnir sig ekki hafa heimild til þess að fresta jafnvel þótt leiða mætti rök að því að þær hækkanir, sem fylgdu í kjölfarið hjá ASÍ og BSRB, eyddu augljóslega þeirri leiðréttingu sem þarna væri um að ræða svo að það ekki tókst í þeim viðræðum. Og ég gæti vel trúað að þó að þær hefðu hafist fyrr hefðu þær leitt til þess sama. Það er ekki ólíklegt.
    Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þm. Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir gaf sjálf tilefni til að minnast á þessa svokölluðu sýningu og ég var nú sérstaklega með í huga utandagskrárumræðuna á fimmtudaginn þar sem mér voru afhentar spurningar og átti að svara á tveimur mínútum. Svörin við þeim spurningum hef ég gefið. Og mér þótti vænt um að heyra að ekki er um sýningu að ræða og þá er það út af fyrir sig af minni hálfu útrætt mál, en ég get ekki neitað því að mér fannst svona einhver vottur af slíku og gott að það er ekki.
    Ég hef nú rætt um það, af hverju ekki viðræður. Ég vona að ég hafi svarað því og þurfi ekki að staðfesta það aftur. Að sjálfsögðu gerðum við ráð fyrir því að öll ákvæði stæðust í samningunum, líka ákvæði í 1. gr. um að ekki skuli leiða til röskunar. Og ég er búinn að rekja það. Ég sat fjölmarga fundi, bæði persónulega fundi með formanni BHMR og kvöldfundi og næturfundi um hvítasunnuna í fyrra, til að fá þetta ákvæði inn. Og það getur hver sem vill sagt: Það var barnalegt, eða hvað þið viljið segja, hjá forsrh. að halda að þetta ákvæði stæðist. Ég hélt að þetta ákvæði stæðist eins og öll önnur ákvæði samningsins. Og það var að mínu mati óaðskiljanlegt ákvæði í þessum samningum. Ég fyrir mitt leyti hefði ekki treyst mér til að fallast á þessa samninga nema ég hefði trúað því að þetta ákvæði stæðist. félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki þannig ritað að það héldi gagnvart þessari refsihækkun, sem stundum hefur verið kölluð, upp á 4,5%. Ég ætla ekki að deila við dóminn. Það eru þá mistök hjá mér og mínum ráðgjöfum. Við héldum að það stæðist en það gerði það ekki.
    Hv. þm. sagðist hafa spurt að því hvað hækkun til BHMR einna hefði í för með sér. Það er mjög lítið og hefði ekki valdið neinum vandræðum. Og það var vandlega rætt við forustumenn á hinum almenna vinnumarkaði hvort þeir gætu virkilega ekki látið þessa hækkun, 4,5%, koma fram enda yrði skorið á víxlhækkanirnar sem gætu fylgt á eftir. En okkur var svarað því að forsendur í kjarasamningi í fyrra og loforð sem vinnuveitendur hefðu veitt sínum viðsemjendum að þeir fengju hverja þá hækkun sem væri meiri yrði ekki breytt. Og ég veit ekki hvort hv. þm. hefur tekið eftir því, mér fannst það ekki koma fram í hennar máli, að vinnuveitendur, VSÍ og VMS, samþykktu formlega að þeir mundu veita þessa hækkun svo að það var ekki lengur um að ræða hækkun til BHMR einna. Það með var alveg ljóst að sú hækkun kæmi til annarra. Við kynntum okkur einnig hvers mætti þá vænta af t.d. háskólamenntuðum mönnum utan ríkisins og okkur var tjáð að ekki væri annars að vænta en að þeir fengju þá sömu hækkun. Og til hvers var þá verkið unnið, spyr ég. Svo að það er vitanlega með tilliti til þess sem ég lét meta hvaða áhrif þetta hefði á efnahagslíf og verðbólguna. Ég lýsti því áðan. Nefndin getur að sjálfsögðu fengið það blað þar sem var reiknað fyrir mig,ég er ekki með það, en ég lýsti því áðan að það væri út af fyrir sig afar erfitt að meta þörf fyrir gengisbreytingu o.s.frv. sem kynni að fylgja í kjölfarið.
    Ég vona svo, herra forseti, að mér hafi tekist að svara þeim spurningum sem til mín var beint. A.m.k. vona ég að menn taki viljann fyrir verkið. Vitanlega tekur nefndin málið til meðferðar og það hefur sinn gang. Ég vil bara leyfa mér að fullvissa menn um það

að af stjórnarliða hálfu verður málið ekki tafið þar, alls ekki. Hins vegar kom fram hér hjá einum hv. þm., mig minnir hv. þm. Hreggviði Jónssyni, að það ætti ekki að afgreiða málið fyrr en dómur væri búinn að fjalla um það. Þetta verður nefndin að ákveða. En því vil ég lýsa yfir að af okkar hálfu verður málið ekki tafið.