Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil nefna það í upphafi að ég kysi að hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur þessa umræðu því ég ætla að víkja máli til hans, fyrir utan hæstv. utanrrh. sem einnig er hér. Sama gildir raunar um hv. 1. þm. Suðurl. sem ég vænti að sé hér í kallfæri. Ef ekki þá mundi ég vilja biðja hann um að koma í þingsal, þar eð hann hefur tekið hér þátt í umræðum. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hæstv. forsrh. er ekki í húsinu en gerðar verða ráðstafanir til að óska eftir að hv. 1. þm. Suðurl. gangi í salinn.) Ég óska eindregið eftir því að hæstv. forsrh. verði viðstaddur umræðuna og hlýði á mál mitt og honum verði gerð boð um það. ( Forseti: Forseti telur ekki ástæðu til þess að krefjast þess að hæstv. forsrh. sé hér þar sem hæstv. utanrrh. situr hér í sal og erfitt að sjá ástæðu til þess að aðrir hæstv. ráðherrar séu nauðsynlegir hér.) Virðulegi forseti. Ber að skilja það svo að hæstv. forseti flytji ekki hæstv. forsrh. boð um það að hans sé óskað hér við umræðuna? ( Forseti: Forseti telur einfaldlega ekki ástæðu til þess. Það er hverjum forseta nokkuð erfitt að eiga að sjá fyrir því að heilu og hálfu ríkisstjórnirnar séu viðstaddar fundi hér. Þessi málaflokkur er á valdi hæstv. utanrrh. og hann hlýtur að vera þess umkominn að svara fyrir þau atriði sem hér koma fram. Ég vænti þess að hann upplýsi þá hæstv. forsrh. um það hvað hér fór fram þegar þeir eiga sinn næsta fund. Hitt er svo annað mál að óski hv. 2. þm. Austurl. þess svo eindregið að hæstv. forsrh. verði kallaður hér til mun forseti að sjálfsögðu gera það. En ég tel að öllu slíku beri að stilla mjög í hóf og virða vinnudag hæstv. ráðherra. --- Vill hv. þm. að forsrh. verði kallaður hingað?) Virðulegur forseti. Ég hef borið fram mína ósk sem ég tel mig hafa góðan rétt til. Ég veit ekki annað en að fyrir því sé hefð hér í þinginu að óskað sé viðveru ráðherra í umræðum sem þeir taka þátt í. Ég tala nú ekki um í svo afar þýðingarmiklu máli eins og því sem hér er til umræðu og hélt að það væri ekkert áhorfsmál að við slíku væri tekið og slík ósk flutt viðkomandi hæstv. ráðherra. ( Forseti: Svo hefur nú verið gert.) Ég þakka virðulegum forseta.
    Ég vil nefna það í upphafi að þegar við ræðum þessi mál hér þá liggja fyrir nokkrar mjög athyglisverðar staðreyndir. Evrópubandalagið hefur hafnað kröfu EFTA-ríkjanna um fríverslun með fisk, Evrópubandalagið hefur enn engu svarað grundvallarspurningum EFTA um stjórnunarþátt hins Evrópska efnahagssvæðis þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni. EFTA-ríkin eru að búa sig í að skera enn niður undanþágulistana, sem lagðir voru fram í upphafi samningaviðræðna, í von um það að Evrópubandalagið hreyfi sig í því er varðar stjórnun þessa ráðgerða Evrópska efnahagssvæðis. Þeirri hugmynd tengjast allt að því tvö þúsund nefndir sem gætu komið til greina til þess að sjá um milligöngu og samráð innan þessa svæðis, hvorki meira né minna, samkvæmt upplýsingum hæstv. utanrrh.
    Eitt EFTA-ríkjanna hefur fyrir nokkru sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Tvö önnur EFTA-ríki eru að búa sig í það. Þar virðist kominn pólitískur vilji til þess að sækja um aðild að EB innan einhvers tíma, innan tíðar, þannig að staðan að því leyti er einnig mjög breytt frá því að við ræddum þessi mál hér síðast. Þá hefur það gerst í dag að stjórnarkreppa er í Noregi vegna þessa máls, þar sem Miðflokkurinn norski hefur haft uppi slíkan ágreining að hinn norski forsætisráðherra hefur beðist lausnar fyrir ríkisstjórn sína.
    Þetta breytta landslag hlýtur að valda því að við hljótum að vega og meta hver okkar staða er nú í tengslum við þessar viðræður og hverjar eru líkurnar á því að þær beri árangur. Ég vil nefna það hér líka að í mars 1989 þegar þessar viðræður voru ákveðnar af forustumönnum EFTA-ríkjanna flutti forsrh. Íslands ræðu. Íslenski forsrh. sagði m.a. í máli sínu:
    ,,Sveiflur í hinu íslenska efnahagslífi eru því langtum meiri en hjá nokkurri annarri þjóð innan EFTA og EB. Af þessari ástæðu m.a. er fullur samruni við háþróuð Evrópulönd útilokaður.``
    Síðan vék hann að auðlindunum og þýðingu yfirráða okkar yfir auðlindunum og segir síðan orðrétt í yfirlýsingu sinni fyrir hönd íslenskra stjórnvalda: ,,Með þetta í huga verð ég að leggja áherslu á að af Íslands hálfu á fyllsta mögulega framkvæmd samstarfsins fyrst og fremst við frjálsa verslun með varning. Hins vegar verðum við að hafa fyrirvara hvað varðar frelsi á sviði fjármagnshreyfinga, þjónustu og fólksflutninga.``
    Þetta er yfirlýsing forsrh. við upphaf þessa ferils. Og hann segir einnig: ,,Hið sama á við um frelsi á sviði þjónustu og vinnuaflsflutninga. Við erum að sjálfsögðu fúsir að kanna þessi atriði, en aðlögun verður að gerast smám saman og byggjast á vandlegu mati á áhrifum slíks á íslenskt fullveldi.``
    Forsrh. sagði einnig: ,,Við getum aldrei gefið okkur á vald yfirþjóðlegum stofnunum. Við getum aldrei afsalað okkur fullveldinu eða rétti okkar til þess að taka eigin nauðsynlegar ákvarðanir til að tryggja afkomu okkar og sjálfstæði.``
    Þessir fyrirvarar, sem voru bornir fram við upphaf viðræðnanna, vöktu vonir um það að það ætti að standa á rétti Íslands í þessum viðræðum og fara að með fyllstu gát. En því miður hefur önnur orðið raunin á, eins og þetta mál hefur þróast. Hinn pólitíski aðgöngumiði ríkisstjórnar Íslands að þessu máli var fyrst og fremst fríverslun með fisk, eins og það er kallað, sú staðreynd að EFTA-ríkin fengust til þess að skrifa upp á það sem sitt stefnumið að taka upp innan EFTA fríverslun með fisk, eins og það er kallað, og bera þá kröfu fram í viðræðum við Evrópubandalagsríkin í samningunum. En ég held að það hafi vafist fyrir ýmsum að átta sig á því hvað fælist í þessari kröfu og ekki síður hvaða líkur væru á því að Evrópubandalagið tæki undir hana.
    Nú koma hér hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni og segja að þeir hafi raunar ekki haft mikla trú á því frá upphafi að þessi krafa næði fram að ganga. Við heyrðum nú annað þegar þetta mál var borið fram. En þeir eru einnig að bera hér fram aðrar túlkanir, aðrar skilgreiningar á fríverslun með fisk, en uppi voru hafðar í byrjun, svona til þess að gera minna úr þeirri breytingu sem nú liggur fyrir þegar Evrópubandalagið hefur hafnað þessari grundvallarkröfu af hálfu EFTA-ríkjanna.
    Ég hef að vísu varað við því alla tíð að menn gengju fram með þessa kröfu um fríverslun með fisk, ótakmarkaða fríverslun með fisk, vegna þess hvað hún þýddi fyrir Íslendinga ef Evrópubandalagið segði já, féllist á hana og tæki upp fríverslun sín megin. Það er eitt atriði sem við verðum alveg sérstaklega að hafa í huga í því sambandi, sem afleiðingu af því ef tekin væri upp fríverslun með fisk, eins og málið var fyrir lagt, þá væri Íslandi ekki stætt á því að setja neinar takmarkanir á útflutning á ferskfiski frá Íslandi til Evrópubandalagsins. Það er alveg ljóst að slíkt yrði ekki heimilt. Sú skilgreining hefur m.a. verið viðurkennd nú af samningamanni Íslands, þó það hafi vafist fyrir ýmsum hæstv. ráðherrum að viðurkenna það að ein afleiðingin af því að taka upp óhefta fríverslun með fisk væri sú að ekki yrði hægt að reisa hinar minnstu skorður við útflutningi á ferskfiski frá landinu.
    Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa brugðist við og vera kominn hér í þingsal. Það sem ég vék að, hæstv. forsrh., í mínu máli, ég vitnaði til þinnar ræðu, yfirlýsingar af hálfu íslenskra stjórnvalda við upphaf könnunarviðræðna í Ósló í marsmánuði 1989. Ég bið hæstv. forsrh. um að varpa ljósi á það hvernig hann telur að við það hafi verið staðið, sem þá var fram sett, að krafan og samningsákvæðin í Ósló vörðuðu fyrst og fremst vörusviðið, fríverslun með vörur, en á öllum öðrum sviðum hefðu Íslendingar uppi sterka fyrirvara vegna sinnar sérstöðu. Ég fæ ekki séð, hæstv. forsrh., að þetta birtist í framhaldi málsins, hvað þá að það liggi fyrir nú. Ég sé ekki betur en niðurstaðan sé sú einmitt núna, og það var rætt hér m.a. af hæstv. ráðherrum, bæði utanrrh. og hæstv. forsrh., að Ísland hefði mjög fáa fyrirvara uppi í þessum viðræðum, og eitt meginviðfangsefni íslenskra stjórnvalda núna, eins og stjórnvalda í öðrum EFTA-ríkjum, er það hvaða fyrirvara á að skera niður til viðbótar. Og ég spyr hæstv. ráðherra, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.:
Hvert gera þeir ráð fyrir að verði framlag Íslands í þessum niðurskurði á þeim fáu fyrirvörum sem gerðir hafa verið í sambandi við hið Evrópska efnahagssvæði? Það er alveg nauðsynlegt að það komi fram hér í þessum umræðum hvað hæstv. ráðherrar eru að hugsa í því efni.
Það vill nú svo einkennilega til að það hefur aldrei verið lögð fram hér á Alþingi skilmerkileg skrá yfir það hverjir eru þessir fyrirvarar sem lagðir voru fram í upphafi. Hæstv. utanrrh. hefur nefnt meginatriði, en við höfum aldrei fengið þann lista skilmerkilega hér á borð alþingismanna, hvorki varðandi hina meginfyrirvarana, né heldur hina tímabundnu fyrirvara. Ég óska eftir því að slík skrá verði lögð fyrir, yfirlitsgóð skrá um það efni. (Gripið fram í.) Það er hægt að vísa í bláskinnu, hæstv. utanrrh., upp á 1038 síður, en miðað við það að fyrirvararnir eru sagðir mjög fáir hlýtur að vera hægt að koma þessu fyrir á einni blaðsíðu, leggja fyrir hverjir þeir eru. Og ég óska eftir því að það verði gert þannig að hér fari ekkert milli mála hvað var lagt fyrir í upphafi, hver er þróunin og hvaða kosti bjóða hæstv. ráðherrar nú í frekari niðurskurði á þessum fyrirvörum. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvar eru fyrirvararnir varðandi fjármagnsflutninga og fjármagnshreyfingar sem lagðir voru fyrir í upphafi ferðar, í Ósló í mars 1989? Hvar eru fyrirvararnir á þjónustusviðinu, varanlegir fyrirvarar á þjónustusviðinu, og hvernig er ástatt með fyrirvarann á búsetusviðinu varðandi atvinnu - og búseturéttinn? Er hann kannski einn af þeim fyrirvörum, öryggisnetið svokallaða, sem hugmyndin er að skera niður núna þegar á að fækka fyrirvörum í von um það að frá EB verði lagðar fram hugmyndir varðandi stofnanaþáttinn, stjórnun hins Evrópska efnahagssvæðis?
    Ég held að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, að Alþingi setji sig með öðrum og skýrari hætti inn í það um hvað þetta mál snýst að öðru leyti en um sjávarútvegshagsmunina, sem auðvitað eru mjög stórir. En um hvað snýst málið, hið Evrópska efnahagssvæði, í reynd? Það snýst ekki um sjávarafurðir. Sjávarafurðir eru mikilvægar fyrir Ísland en þær eru algert jaðarmál í þessum samningaviðræðum, því sem fyrir liggur að nokkru leyti í bláskinnu, þessu 1000 síðna verki af 10.000 eða 30.000 blaðsíðum sem væntanlegar eru þegar búið er að þýða allt uppleggið.
    Ég vil nefna, t.d. varðandi atvinnu- og búseturéttinn, sem er eitt af þessum svokölluðu frelsum sem á að innleiða hér, hvað felur þetta í sér? Í stuttu máli sagt felur það í sér að Vestur-Evrópubúar af nítján ríkja svæðinu, að Liechtenstein meðtöldu, fái nákvæmlega sama rétt, fái þeir atvinnu hér á Íslandi, á nánast öllum sviðum, til athafna hér, til vinnu og starfa, og til þess að stofna fyrirtæki eins og Íslendingar. Þeir fái nánast sama rétt og Íslendingar og ákvæði, t.d. um ríkisborgararétt á ákveðnum sviðum, falla niður, ákvæði um forgang Íslendinga til starfa falla niður. Ég nefni eitt atriði sem þessu tengist, sem hefur nú þótt skipta nokkru máli, þar sem segir á bls. 26 í skýrslunni, töluliður 8: ,,Atvinnurekandi getur ráðið erlendan starfsmann án þess að þurfa að leita til stéttarfélaga.`` Óheimilt er samkvæmt núgildandi rétti að ráða útlendinga til starfa án þess að aflað hafi verið umsagnar stéttarfélaga. Þetta á að breytast, þetta fellur niður, engin umsögn stéttarfélaga þegar útlendingar koma og leita starfa. Sama gildir um það að launþegi getur tekið það starf sem viðkomandi býðst í beinni samkeppni við Íslendinga, segir í 9. tölulið. Samkvæmt núgildandi rétti skal hins vegar því aðeins veitt atvinnuleyfi fyrir útlendinga ef sérstakar ástæður þykja mæla með því, svo sem ef um erlenda sérfræðinga er að ræða. Síðan geta sjálfstætt starfandi aðilar, ef þeir eru komnir í landið og hafa fengið atvinnu í landinu, keppt hér um hvaðeina, flutt fjármagn ótakmarkað til Íslands til þess að setja hér upp fyrirtæki, til þess að koma sér fyrir í íslensku atvinnulífi. Þetta er hluti af þeirri opnun sem hér er um

að ræða.
    Ég held, virðulegur forseti, og nefni það hér við hæstv. viðstadda ráðherra, að það sé alveg nauðsynlegt að alþingismenn taki á þessum málum með allt öðrum og skilvirkari hætti en gert hefur verið, t.d. með svipuðum hætti og gert var í finnska þinginu sl. vetur, seinni hluta vetrar, að hinum einstöku málasviðum sem snerta innri markaðinn, og m.a. doðrantinum upp á 1000 blaðsíðurnar, verði vísað til viðkomandi þingnefnda hér á Alþingi til skoðunar og umsagnar. Þannig að félagsmálanefndir þingsins fái til meðferðar t.d. atvinnu- og búseturéttinn og það sem honum fylgir og veiti umsögn um það, að fjárhags- og viðskiptanefndir þingsins fái það sem snertir fjármagnsþáttinn, fjárfestingar og fjármagnsflutninga, og veiti umsögn um það. Að sem sagt hver og ein fagnefnd þingsins, sem í hlut á, taki á þessu máli og veiti umsögn. Það er ekki óeðlilegt að slíkt starf fari fram, annaðhvort undir stjórn Evrópustefnunefndar þingsins, eða þó enn frekar vegna stöðu utanrmn., að það verði utanrmn. þingsins sem leiði og stjórni því starfi. Þannig að fyrir liggi álit einstakra þingnefnda á því sem hér er um að ræða. Ég vil spyrja hv. þm. Þorstein Pálsson hvort hann geti ekki tekið undir það að slík vinnubrögð væru skynsamleg af hálfu þingsins, þannig að alþingismenn áttuðu sig á því og væru knúðir til þess í raun að setja sig inn í það hvað hér er um að ræða. Ég er ekki að segja að það sé áhugaleysi á þessu sviði, en það er fyrst er menn þurfa að setja sig inn í hlutina sem líkur eru á því að raunveruleg afstaða mótist á grundvelli vitneskju og þekkingar um það sem fyrir liggur. Auðvitað á skýrsla utanrrh., sem við ræðum hér, að ganga einnig og þau atriði sem þar eru að fylgja með í þessa vinnu sem ég er hér að leggja til að fram fari á vegum þingsins.
    Ég tel, virðulegur forseti, að öll staða þessa máls sé komin í allt annað ljós nú eftir að Evrópubandalagið hefur hafnað kröfunni um fríverslun með fisk, eins og hún var fram sett í þessum viðræðum. Spurningin er ekki lengur um það hvort við náum þarna einhverju stórmáli fram, sem hefur þó sína annmarka, eins og ég hef bent á, vegna útflutnings á ferskfiski, þar er engar hömlur hægt að setja. Það er nú úr sögunni. En þá stendur meginmálið eftir: Er það í samræmi við íslenska hagsmuni að við gerumst aðilar að innri markaði Evrópubandalagsins? Það er kjarni þessa máls. Það er kjarni málsins eins og það liggur fyrir núna. Og ég set stórt spurningarmerki við það að það séu íslenskir hagsmunir. Ég efast um að það sé í samræmi við íslenska hagsmuni að opna hér allt upp á gátt samkvæmt lögum og reglum Evrópubandalagsins frá ársbyrjun 1993 og ætla íslensku atvinnulífi og almenningi í landinu að búa við þá hömlulausu samkeppni sem þar er um að ræða.
    Ég er satt að segja undrandi á því að heyra t.d. hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem vissulega reisti spurningarmerki við aðild að Evrópubandalaginu, þar erum við sammæltir, tala um breyttar aðstæður frá því í Ósló í mars 1989. Í hverju felast þær? Hefur hv. þm., og aðrir hv. þm., sett sig inn í hvaða þýðingu, hvaða

áhrif, innri markaður Evrópubandalagsins, hinn hömlulausi innri markaður, og þar höfum við nú ekki fyrirvarana, hér státa ráðherrarnir sig af því að þeir séu ekki þarna, hvaða áhrif ætli þetta hafi fyrir byggðirnar á Íslandi? ( SV: Þú misskildir þetta.) Kannski, kannski, já vonandi. Hvaða áhrif ætli þetta hafi á stöðu byggðamálanna hér á landi, til viðbótar við þau áform sumra ráðherra í ríkisstjórn Íslands að fara að fjárfesta 60 milljarða suður á Keilisnesi? Þá á um sama leyti og dælt er inn í hagkerfið á Íslandi tugmilljörðum, hér suðvestanlands, að opna allt upp á gátt til viðbótar fyrir fjármagnið í Evrópu, fyrir hina hömlulausu samkeppni innri markaðar Evrópubandalagsins. Þetta er aðför að byggðamálum á Íslandi. Þetta er, hæstv. forsrh., hreint glapræði að ætla að ganga þannig til verka. Og m.a. af þeim sökum set ég mjög stórt spurningarmerki við það að halda þessum samningaviðræðum áfram. Ég hef raunar frá byrjun ráðið frá því að við værum þar þátttakendur. Ég tel að íslenskra hagsmuna eigi að gæta með öðrum hætti.
    Hæstv. forsrh. nefndi hér í sínu máli áðan að það væri nauðsynlegt að líta til fleiri átta. Hann nefndi Norður-Ameríku og Japan. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh., en hann er bara ekkert á þeirri leið með því að ætla að hengja sig inn í Evrópskt efnahagssvæði. Hann er að binda okkur inn í Evrópu, Vestur-Evrópu, hinn opnað markað Vestur-Evrópu, en ekki að skoða möguleikana á að Ísland haldi sig utan við þessar stóru efnahagsheildir, sem er okkar góði kostur, að nota landfræðilega legu landsins til þess að eiga góð samskipti til allra átta, til Evrópu, til Norður-Ameríku, til Austur-Asíu, og ekki að binda okkur þarna inn á eitt svæði. Hagsmunir Íslands, staða íslensks sjávarútvegs, og sagan, eiga að færa okkur heim sanninn um það að óráðlegt er að ætla að binda sig fyrst og fremst við eitt markaðssvæði með okkar afurðir, fyrir nú utan þá tengingu inn á hið alþjóðlega fjármagn sem þarna er um að ræða.
    Það er þessi leið sem ég hvet hv. alþingismenn til að skoða áður en menn ganga lengra í þessum samningaviðræðum sem nú eru raunar komnar í það ljós að það er næsta ólíklegt, ég segi sem betur fer, að þær gangi upp. En þegar þessar samningaviðræður eru að stranda af eðlilegum ástæðum, þegar öflugustu ríkin í EFTA eru að búa sig í að gerast aðilar að Evrópubandalaginu með beinni umsókn, tengjast því þannig beint, er auðvitað alveg ljóst að um leið og það gerist fara menn ekki að leggja mikið á sig til að stofna hér sérstakt kerfi, Evrópskt efnahagssvæði, með flóknum hætti og menn kunna engin ráð til þess í raun enn þá, hvernig þetta á að gerast og sagt að ákvarðanir eigi að koma fyrir áramót. Því vísar flest á það að þessar viðræður lendi í strand. Þá fara menn að tala um hvað á að taka við og þá kemur margt fróðlegt upp á borðið. Það hefur verið að gerast hér í framhaldi af inngangsræðu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar í marsmánuði í fyrra, sem fyrstur þingmanna á Alþingi Íslendinga talaði um það að Íslendingar ættu í fullri alvöru að leita aðildar að Evrópubandalaginu. Síðan hefur nú komið liðsauki. Hann hefur að vísu

komið frá Valhöll og landsfundi Sjálfstfl. haustið 1989 í aldamótaskýrslunni, það er önnur bláskinna, aldamótanefndarálitið, þar sem varaformaður Sjálfstfl. Davíð Oddsson, sem við eigum von á hér inn í þingsali innan tíðar, mælti fyrir því að það yrðu teknar upp formlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið. Auðvitað hefur hv. þm. Þorsteinn Pálsson fylgt á eftir í samkeppninni varðandi þetta því hv. þm. notaði einmitt sérstakt tilefni, aðalfund Sambands ísl. fiskframleiðenda, til þess að boða þá stefnu að nú ættum við að fara að sækja um aðild og láta reyna á samningaviðræður.
    Þetta sagði formaður Sjálfstfl. á fundi suður í Leiru, á fundi þar sem formaður samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi varaði mjög eindregið við því að Íslendingar færu að hugsa um aðild að Evrópubandalaginu. Þá notaði formaður Sjálfstfl. einmitt tækifærið og Alþfl. er svona í humátt á eftir. Ef þessar viðræður sigla í strand, ja, þá náttúrlega verðum við að taka málið á dagskrá. Í rauninni segir formaður flokksins hér: Auðvitað verður að ræða þetta. Hann vill taka það á dagskrá nú þegar og hann sér að hverju fer og þá er hjartað farið að slá til Brussel. ( ÞP: Og formaður Alþb. líka.) Ef hann slægist nú í för, já. Ekki vil ég spá því, hv. þm., að hann fari að fylgja villuljósum að þessu leyti, þó hann hafi lent á rauðum ljósum einhvern tímann.
En ég kemst ekki hjá því að vitna til formanns samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi. Hvert er álit þessarar nefndar sem túlkar væntanlega viðhorf allra helstu samtaka í sjávarútvegi? Virðulegur forseti, þar segir: ,,Gengi Ísland í Evrópubandalagið yrði það að samþykkja sjávarútvegsstefnu bandalagsins eins og hún er í dag því hin almenna regla er að inngöngulandið samþykki það sem fyrr hefur verið ákveðið innan Evrópubandalagsins. Ákaflega ólíklegt er að við samninga Íslands við EB tækist að fá fram einhverjar grundvallarbreytingar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Efnislega þýddi þetta að sjávarútvegsdeild EB, sem er yfirþjóðleg stofnun, mundi hafa lokaákvörðunina um stjórnun á sjávarútvegi Íslendinga. Þannig yrðu ákvarðanir í sjávarútvegsmálum teknar í Brussel, m.a. um heildarkvóta og samninga við önnur ríki.`` --- Og takið eftir, hv. þm.: ,,Fiskveiðilögsaga Íslendinga yrði tólf mílur en utan þeirra marka yrði hafsvæði EB.`` ( Gripið fram í: Hver segir þetta?) Þetta er úr ræðu Magnúsar Gunnarssonar, formanns Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, og hún er haldin suður í Leiru 5. okt. 1990, á sama fundi og formaður Sjálfstfl. hvatti til þess að málið yrði tekið á dagskrá, að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.
Við heyrðum tóninn hér áðan, hann vildi að vísu ekki skera úr um að það væri hinn eini rétti kostur, ég ætla honum ekki meira en hann sagði, en hann vildi láta á þetta reyna og menn heyra undirtóninn og undirölduna, alveg skýrt. En hvert er viðhorfið hjá sjávarútveginum? Eru menn alveg í keng þar vegna tollmúranna? Telja menn að það sé ekki búandi við þetta og við verðum að taka afarkostum, jafnvel að

hleypa hér inn í landhelgina fiskveiðiflotum Evrópubandalagsins? Ónei, þar segir sami Magnús Gunnarsson fyrir hönd sinna samtaka: ,,Það er ánægjulegt til þess að vita að menn hafa vaknað til meðvitundar um það mikla hagsmunamál sem tengist samskiptum okkar við EB og þeim breytingum sem þar eru að eiga sér stað. En það er nú svo með okkur Íslendinga að á okkur rennur oft æði og við sjáumst ekki fyrir. Að sjálfsögðu skiptir okkur miklu máli að við náum góðum samningum við EB, en við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því að ef við náum ekki samningum þarf það ekki að þýða neinn heimsendi.`` --- Og hann endurtekur þetta með nokkuð öðrum orðum síðar í ræðu sinni, að það sé ekki ástæða fyrir íslenskan sjávarútveg að
örvænta þó lausn finnist ekki á þessu á næstunni. Hvernig stendur á því að stjórnmálamenn á Alþingi Íslendinga eru að hvetja til þess að fara nú að tala um aðild að Evrópubandalaginu þegar forsvarsmenn í undirstöðuatvinnuvegi okkar vara eindregið við slíku, segjast geta dokað við? Það er einmitt það sem þarf að gera. Menn þurfa þrautseigju til að ná fram hagsmunum sínum. Það hefur sagan kennt okkur í sambandi við landhelgismál okkar og meginmál, að tryggja stöðuna varðandi undirstöðuatvinnuveg okkar.
    Alþb. hefur borið gæfu til þess að vísa þessu máli frá, slá því föstu að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. ( KSG: Er það nú víst?) Er það nú víst, segir hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Heyrir hv. þm. einhverjar raddir úr Alþb. um annað? Eða eru einhverjir kannski komnir yfir til Alþfl. sem fylgja leiðsögn hans í þessum efnum? (Gripið fram í.) Já, það getur vel verið. Menn mega þá hafa vistaskipti, ég kýs það frekar en að Alþb. fari að breyta stefnu sinni í þessum efnum. Því mun ég ekki fylgja, að því mun ég ekki stuðla.
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur hér á Alþingi að nota tímann næstu vikur til að fara vandlega ofan í þessi mál, til þess m.a. að kemba bláskinnu, bókina sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson er með á borði sínu og sjálfsagt farinn að lesa, til að átta sig á því hvað fylgir þessu, hverjar verði afleiðingarnar ef við ætlum að opna hér fyrir innri markaðinn. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að endurskoða stöðuna í þessu máli, endurskoða hana frá grunni, m.a. vegna þeirra svara sem nú liggja fyrir. Og einnig vegna þess sem er að gerast í öðrum EFTA - ríkjum þar sem ríkisstjórnir eða ráðandi öfl eru að búa sig undir það að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Það er ekki sú leið sem Ísland á að fylgja. Við eigum að taka upp beina samninga, eins og við áttum að gera fyrir löngu síðan í raun, til þess að láta reyna á okkar hagsmuni og byggja þá upp með öllum þeim rökum og málafylgju sem við höfum. Í þeim efnum væri hægt að vitna í ræðu Magnúsar Gunnarssonar, í þá leiðsögn sem hann dró upp í þessum efnum þar sem hann bendir einmitt á hvernig á þessum málum beri að taka. Hann segir þar m.a., með leyfi forsta:
    ,,Ég held að það sé líka nauðsynlegt að forsvarsmönnum EB, hvort sem er í stjórnmálum eða einstökum deildum þess, sé gert það ljóst að íslenskur sjávarútvegur hefur ekki áhuga á því að láta þvinga sig til samninga. Sé það stefna EB að beita aðstöðu sinni til þess að skaða fiskvinnsluna á Íslandi held ég að íslensk stjórnvöld og íslenskur sjávarútvegur hjóti að leita leiða til þess að svara því. Þar hlýtur að vera efst á blaði að draga verulega úr hráefnisútflutningi til bandalagsins.``
    Þarna er verið að byggja upp stöðu. Þarna er verið að vísa á viðnám til þess að knýja á um samninga en ekki með undanslætti og ekki með því að ætla að opna hér portin fyrir hinu alþjóðlega fjármagni svo að það geti hreiðrað um sig og keypt upp atvinnufyrirtækin á Íslandi, sem eru á mörgum sviðum í mjög veikri stöðu. Og það er eitt mál sem er óunnið hér á Íslandi og sem ætti ekki síður að vera nauðsynlegur undirbúningur þess að laga sig að breyttum umheimi en að styrkja bankakerfið á Íslandi, eins og hæstv. forsrh. nefndi í sambandi við fjármagnsflutningana og fleira. Það er að móta íslenska sjávarútvegsstefnu, að taka á því stóra verkefni sem er að verulegu leyti óunnið, að móta samþætta og heildstæða sjávarútvegsstefnu. Það kemur sannarlega æ betur í ljós hversu afdrifaríkt það er að ekki hefur verið mótuð heildstæð sjávarútvegsstefna hérlendis. Ég tel að af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar þurfi í samvinnu við hagsmunaaðila í sjávarútvegi að taka þessi mál upp frá grunni, frá veiðum og úrvinnslu og til markaðssetningar afurðanna. Við slíka stefnumörkun þarf að hyggja að fjölmörgum þáttum, m.a. því sem er talið þjóðhagslega hagkvæmt, að markmiðum í byggðamálum og verndun fiskstofnanna, kjörum og starfsskilyrðum þeirra sem við sjávarútveginn starfa og stöðu gagnvart mörkuðum og viðskiptabandalögum. Þetta verk er því miður óunnið og við megum í raun, hvort sem við erum að tala um Evrópskt efnahagssvæði eða annað, ekki láta það dragast stundinni lengur að taka á þessu stóra máli til þess að undirstöðuatvinnuvegur okkar láti ekki spila sig sundur og saman ef svo illa færi að hér yrði opnað 1. jan. 1993 fyrir alþjóðlegt fjármagn, þó svo að menn séu að tala um að þá verði sjávarútvegurinn undanskilinn. Þær eru margar, leiðirnar, ef annað atvinnulíf á Íslandi, þjónusta bankastofnana og annað er orðið galopið fyrir útlenda hagsmuni.
    Virðulegur forseti. Kannski er meginábending mín nú til þingheims varðandi þetta mál sú að allar nefndir þingsins sem innri markaður Evrópubandalagsins getur varðað einhverju, félagsmál, viðskiptamál, fjárhagsmál taki sig nú til undir forustu utanrmn. og fari í gegnum bláskinnu, fari líka í gegnum þessa litlu skinnu hér, skýrsluna frá utanrrh. sem við erum að ræða í dag, og skili áliti til utanrmn. sem birtist síðan sem niðurstaða úr vinnu þingnefndanna fyrr en seinna.