Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hv. 14. þm. Reykv. lagði út af orðum mínum og virtist ekki alveg hafa skilið hvað ég átti við. Það sem ég átti við var það að hugsanlega gæti lífeyrisréttur manns orðið að engu, þ.e. ef fyrri konan hefði fallið frá og maðurinn væri kannski búinn að vera giftur seinni konunni stuttan tíma og félli síðan frá sjálfur, þá væri enginn sem fengi þessi lífeyrissjóðsréttindi. Það var bara þetta sem ég var að benda á, að það þyrfti að setja undir þennan leka, alls ekki það að seinni kona ætti að hljóta meiri réttindi heldur en fyrri kona, síður en svo. Ég álít að málið í heild sé réttlætismál. Það er bara þessi smáleki sem þarna gæti verið og ég álít að nefndin þurfi að fjalla um þetta og velta vöngum yfir hvernig megi koma þessu fyrir, ef það er hægt að hindra það. Ég er ekki einu sinni viss um að það sé hægt.