Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Pálmi Jónsson :
     Virðulegi forseti. Með því fjáraukalagafrv. sem hér er komið til 1. umr. er verið að fara fram á að Alþingi veiti heimildir til þess að útgjöld ríkissjóðs aukist á þessu ári um 4056 millj. kr. og að lögfest verði ný spá um tekjur ríkissjóðs á árinu á þann hátt að þær vaxi um 3630 millj. kr. Miðað við þetta er gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði vaxi um 426 millj. frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir og verði um 5000 millj. kr.
    Fjáraukalög voru áður flutt í tengslum við kjarasamninga í febrúarmánuði sl. og afgreidd í byrjun maímánaðar, eins og fjmrh. hefur lýst. Þó að frv. komi til 1. umr. í dag hefur fjvn. nokkuð yfirfarið frv. og athugað ýmsa liði þess og farið yfir það með fulltrúum einstakra ráðuneyta. Sú vinna mun halda áfram en ég tek út af fyrir sig undir það með hæstv. fjmrh. að ákjósanlegt að mál af þessu tagi séu ekki ákaflega lengi til meðferðar hjá Alþingi. Og það mun vera ætlun formanns fjvn. að leitast við að hraða afgreiðslu þess.
    Ég lít svo á að með þessu fjáraukalagafrv. sé komið í ljós að hallarekstur á þessu ári fer vaxandi frá því sem áður hefur verið gert ráð fyrir. Fjáraukalagafrv. sýnir einnig haldleysi þeirra fjárlaga sem afgreidd voru fyrir tæpu ári síðan og það sýnir að ýmsu leyti gagnsleysi þess niðurskurðar sem ákveðinn var með fjáraukalögum sem afgreidd voru í byrjun maímánaðar. Enn fremur sýnir þetta frv. að gagnrýni mín og annarra stjórnarandstæðinga við afgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári síðan átti við full rök að styðjast.
    Þótt sú niðurstaða sem hér hefur verið vitnað til í þessu frv. sýni að þar sé gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði verði á árinu um 5 milljarðar þá er hér einungis um 1. umr. málsins að ræða. Enn er eftir að sjá hvort frv. breytist í meðförum Alþingis og í öðru lagi er einnig eftir að koma í ljós að hve miklu leyti nýtt fjáraukalagafrv., sem væntanlega verður flutt snemma á næsta ári, sýnir aðra útkomu. Að þessu sinni skal ekki um það miklu spáð. Ég get þó vitnað til reynslu frá fyrra ári. Þá var flutt fjáraukalagafrv. í nóvembermánuði og þar með fengnar heimildir fyrir því að auka útgjöld ríkissjóðs um 8,5 milljarða króna. Það fjáraukalagafrv. var afgreitt þann 21. des. sl. Því var þá býsna hátíðlega lýst yfir af hæstv. fjmrh. að ekki mundi koma til aukinna útgjalda umfram þær heimildir það sem eftir lifði ársins. Það var enda svo að það frv. fékk mjög yfirgripsmikla og ítarlega athugun af hálfu fjvn., sumpart vegna þess að frv. var í uppsetningu á þann máta að ekki var unnt að afgreiða það á Alþingi án þess að gerbreyta formi þess. Það var gert og ég vil taka það fram að það frv. sem hér liggur fyrir er í sama horfi og fjáraukalögin í fyrra voru afgreidd og ber vitaskuld að þakka að ekki skuli þurfa að gerbreyta frv. til þess að það sé þinghæft. En þó að fjáraukalög fyrir ári síðan væru afgreidd með þeim hætti þann 21. des. að þá væru fengnar heimildir til þess að auka útgjöld ríkissjóðs um 8,5 milljarða, þá reyndist það svo að nýtt fjáraukalagafrv. sem flutt var vegna ársins 1989 á öndverðu þessu ári fór fram á nýjar heimildir um útgjöld úr ríkissjóði sem námu 1073 millj. kr. Á tíu dögum, þar á meðal jóladögunum og gamlársdag og öðrum helgidögum á milli jóla og nýárs, hafði hæstv. ríkisstjórn sem sagt aukið útgjöld ríkissjóðs umfram það sem fjárlög og fjáraukalög heimiluðu um liðlega 100 millj. kr. á dag. Þetta út af fyrir sig sannar það að það er erfitt að spá um það á þessu stigi hver verður niðurstaða í útgjöldum og tekjum þessa árs þegar öll kurl eru til grafar komin.
    Ég vil svo gjarnan taka það fram að flutningur fjáraukalagafrv. á fjárlagaári, eins og hér er gert, er til bóta og taka undir með hæstv. ráðherra varðandi það efni að það felur í sér visst aðhald eða á að geta falið í sér visst aðhald að óskum ýmissa stofnana um aukin útgjöld, en þó auðvitað því aðeins að því aðhaldi sé beitt af þeim sem með framkvæmdarvaldið fara.
    Ég vil þá jafnframt láta þess getið að eftir að hæstv. núv. ríkisstjórn hafði haldið á þann máta á þessum málum, þ.e. fjármálum ríkisins, eftir að hún tók við völdum haustið 1988 og á árinu 1989, að útgjöld höfðu farið 9 -- 10 milljarða fram úr heimildum fjárlaga hvort árið um sig, þá var það ljóst að svo yrði ekki við unað áfram. Þetta var tekið upp innan fjvn., þetta var tekið upp af hálfu fjvn. í viðræðum við hæstv. fjmrh. og honum gert ljóst að fjvn. og
Alþingi mundi ekki sætta sig við framhald málsins á þeim nótum. Í þeim viðræðum kom fram að hæstv. fjmrh. var reiðubúinn til þess að hverfa að því ráði að flytja fjáraukalagafrv. á sama ári, eins og hér hefur verið gert og einnig var gert í fyrra, sem vissulega er til bóta eins og ég hef lýst. En það á sér vitaskuld m.a. þær rætur að þau ósköp dundu yfir, bæði á árinu 1988 og 1989, að útgjöld ríkissjóðs fóru úr böndum og fram úr því sem fjárlög heimiluðu, um 9 -- 10 milljarða kr. hvort árið um sig.
    Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir tæpu ári síðan fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir halla um 3,7 milljarða kr. Þessi halli var vitaskuld í raun mun meiri, eins og ég lýsti við umræður um þau mál þá. Hluta af hallanum var leynt í þeim fjárlögum og það með ýmsu móti. Nú er svo komið að nokkur hluti af þeim viðbótarhalla sem augljós var við afgreiðslu fjárlaganna sjálfra er kominn í ljós. Þó vantar enn þá um 1 -- 2 milljarða á það að spá mín rætist um halla á útkomu ársins. Sú spá var vitaskuld með fyrirvara vegna þess að forsendur breytast. Sú spá var því auðvitað þeim fyrirvara háð að á öndverðu ári tóku aðilar vinnumarkaðarins völdin í landinu og lögðu alveg nýjan og gerbreyttan efnahagsgrundvöll sem var með allt öðrum hætti en sá efnahagsgrundvöllur sem hæstv. ríkisstjórn hafði lagt upp með og ætlað sér að framfylgja. Eigi að síður sýnist mér margt benda til þess að spá mín muni standast þegar öll kurl koma til grafar og eru þó málin þannig að áfram verður raunverulegum halla í ríkisrekstrinum leynt, þrátt fyrir þetta fjáraukalagafrv. og þrátt fyrir það fjáraukalagafrv. sem væntanlega kemur fyrir Alþingi á öndverðu næsta ári.
    Þetta gerist t.d. með því að áfram er haldið því

sem hófst fyrir alvöru á síðasta ári, að ganga á eigið fé opinberra sjóða sem sækja styrk sinn til ríkissjóðs og ríkissjóður ber ábyrgð á. Þetta eru sjóðir eins og t.d. Lánasjóður ísl. námsmanna, Atvinnuleysistryggingasjóður, Byggingarsjóður ríkisins, Byggðasjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og fleiri slíkir sjóðir. Og fjmrh. sjálfur hefur viðurkennt það að í þessu sé fólginn stórkostlegur vandi sem muni taka 2 -- 3 kjörtímabil að ráða við, þegar hann og hans ríkisstjórn er horfin úr Stjórnarráðinu. ( Fjmrh.: Það sagði ég ekki.) Ég bætti því að vísu við, hæstv. fjmrh., en það liggur í orðum ráðherrans sjálfs að þegar hann lýsir því yfir að það muni taka 2 -- 3 kjörtímabil að ráða við þau vandamál sem þessi hæstv. ríkisstjórn skilur eftir sig, þá leiðir það af sjálfu sér að það er ekki reiknað með því og reiknar auðvitað enginn með því að núverandi ríkisstjórn sitji í Stjórnarráðinu að þessu kjörtímabili loknu.
    Ríkisstjórnin hefur undir forustu hæstv. fjmrh. rekið gjaldþrotastefnu í málum þessara þýðingarmiklu sjóða. Með sama framhaldi stefna þeir allir í gjaldþrot. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er öðru nær en að reynt sé að bæta úr í þessum efnum. Þar er áfram haldið á sama vegi með hraðari ferð til gjaldþrota fyrir þessa sjóði. Með þessu eru stóralvarlegir hlutir að gerast sem þarf ekki að hafa mörg orð um að verður erfiður baggi fyrir framtíðina að axla.
    Ég skal ekki segja um það hvað tilteknir sáttakossar á samkomu sem haldin var í Hafnarfirði hafa í för með sér fyrir einhverja af þessum sjóðum en vel má vera að þar verði að einhverju leyti bætt úr varðandi frv. fyrir næsta ár, þó varla nema að litlum hluta. Ég vil þó aðeins rifja það upp að þrátt fyrir að málefni þessara sjóða verða væntanlega skilin eftir algerlega á galeiðunni, ekki einungis í þessu fjáraukalagafrv. heldur líka í því sem flutt verður í byrjun næsta árs og þar með leynt raunverulegum vanda í ríkisfjármálum, þá eru samt nokkrir gjaldaliðir sem ýmist eru þegar komnir í ljós eða eiga væntanlega eftir að koma í ljós sem ég vakti athygli á við umræður um fjárlagaafgreiðslu fyrir tæpu ári síðan. Ég vakti þá athygli á því að þá vantaði stóra fjárhæð inn í niðurgreiðsluliðinn og í liðinn um ríkisábyrgð á launum. Þessir tveir liðir voru teknir inn í fjáraukalagafrv. sem afgreitt var í maímánuði sl. og komu þá þegar í ljós snemma á þessu ári. Ég vakti athygli á því að það væri ólíklegt að það tækist að spara 500 millj. kr. í lyfjakostnað á sjúkratryggingum. Niðurstaðan er sú að þetta hefur ekki tekist. Þess í stað liggur nú fyrir, samkvæmt þessu frv., að gert er ráð fyrir því að 1100 millj. kr. þurfi til viðbótar við fjárlög í sjúkratryggingar. Að miklum hluta, og raunar meginhluta, vegna þess hvað lyfjakostnaður hefur farið fram úr því sem fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Enn er í þessu frv. gert ráð fyrir því að lífeyristryggingar fari um 100 millj. kr. fram úr fjárlögum og verði aflað til þeirra útgjalda heimildar með þessu lagafrv. Þarna er því samtals hjá Tryggingastofnun ríkisins gert ráð fyrir að vanti til viðbótar við það sem fjárlög gerðu ráð fyrir um 1200 millj. kr. Enn má geta

þess í þessu sambandi að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að ná á næsta ári sparnaði í lyfjakostnaði um 500 -- 600 millj. kr. og engin grein gerð fyrir því hvernig það eigi að gerast. Og heldur er það nú ótrúverðugt þegar sama hæstv. ríkisstjórnin og sami hæstv. fjmrh. og sami hæstv. heilbrrh. leggja fram fjárlagafrv. ár eftir ár með sömu sparnaðarliðunum sem mistakast svo hrapallega sem orðið hefur með lyfjakostnaðinn á þessu ári. Heldur er það nú ótrúverðugt. En þetta er eitt af þeim málum sem ég vakti athygli á fyrir tæpu ári síðan.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir að auka jöfnunargjald í iðnaði um 150 millj. kr. og í landbúnaði um 53 millj. kr. Óvíst er hvort þar séu öll kurl til grafar komin enda hafa komið til fjvn. erindi þar sem farið er fram á miklu meiri endurgreiðslu en þessar tölur sýna.
    Þá var í fjárlögum þessa árs stofnaður nýr sjóður, svokallaður Mannvirkjasjóður menningarbygginga, og færður á B - hluta. Síðan var þeim sjóði ætlað að taka lán, 300 millj. kr., og færa þetta fé þaðan og yfir í A - hluta. Ég komst svo að orði við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári síðan að þetta væri með því ósmekklegasta sem ég hefði séð varðandi blekkingar við afgreiðslu á fjárlögum. Það fór enda svo að hæstv. ríkisstjórn gafst upp við að hafa þessar tilfæringar við meðferð þessa máls sem átti að vera til þess að leyna útgjöldum á A - hluta ríkissjóðs. Nú leggur hún til með þessu frv. að þessar 300 millj. kr. verði greiddar beint af A - hluta, sem ekki er gagnrýnisvert heldur er rétt. Hitt var ekki frambærilegt að haga með þeim hætti að stofna þennan B - hluta sjóð sem tæki lán og veitti þaðan fé yfir í A - hlutann. Allt var þetta með þeim hætti sem ég gagnrýndi í fyrra þó að sums staðar séu ekki nákvæmlega sömu tölur en þessir hlutir eru nú allir komnir í ljós.
    Enn eru þá nokkur atriði ótalin. Hér er að vísu gert ráð fyrir nokkurri fjárhæð til rekstrar á Flugmálastjórn sem augljóst var að skilin var eftir við afgreiðslu fjárlaga með fjárhaginn í lausu lofti, eins og margsinnis var vakin athygli á í fyrra. Ég skal ekkert segja um það hvernig þessi stofnun verður meðhöndluð við afgreiðslu frv. en það hafa komið, og nú síðast í dag, ný erindi frá Fugmálastjórn varðandi fjárhag þeirrar stofnunar á þessu ári sem fela í sér a.m.k. óskir um meiri útgjöld en það frv. ber með sér sem hér liggur fyrir. Ég skal ekki fara með þær tölur að sinni, enda kröfðumst við þess í fjvn. að það kæmi um það erindi, yfirlýsing og beint erindi frá samgrn.
    Sömu sögu er raunar að segja um ríkisspítala. Ég vakti athygli á því við afgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári síðan að þar væri mjög tæpt farið miðað við það rekstrarumfang sem ætlast væri til að haldið væri áfram á vegum þeirrar stofnunar. Nú var verulega bætt úr varðandi rekstur ríkisspítala við afgreiðslu fjáraukalaga í maímánuði sl. En í morgun kom erindi frá heilbrrn., sem að vísu á eftir að fara nánar yfir af því ráðuneyti, þar sem sýnt er fram á að þangað vantar býsna stórar fjárhæðir til þess að slétta út þann rekstur sem þar er á þessu ári. Hafa landsmenn þó orðið

varir við að þar hafa verið sparnaðaraðgerðir. Þær sparnaðaraðgerðir hafa verið fólgnar í því að loka deildum að sumarlagi og bera út á götuna veikt fólk sem sumt hvert á hvergi höfði að að halla. Þar hafa verið sparnaðaraðgerðir og þær hafa verið í þessu formi. Þrátt fyrir þær sparnaðaraðgerðir liggur nú fyrir í erindum hjá fjvn. að þarna er óleystur vandi sem nemur verulegum fjárhæðum, yfir 200 millj. kr. Ég skal ekkert um það segja hvernig á því erindi verður tekið af meiri hluta fjvn. og meiri hluta Alþingis. En þetta sannar með öðru að þau viðvörunarorð sem ég flutti við afgreiðslu fjárlaga varðandi hagsmuni þeirrar stofnunar, ríkisspítalanna, fyrir tæpu ári síðan áttu fullan rétt á sér. Og þetta sannar einnig að það er ekki líklegt að öll kurl séu til grafar komin varðandi aukin útgjöld ríkissjóðs á þessu ári og þar með aukinn halla.
    Þess má geta að þáttur í þessum vanda ríkisspítalanna og sumra annarra stofnana ríkisins, sem komið hafa til fjvn. nú þegar, er fólginn í því að inn í fjárlagaafgreiðslu í fyrra var ekki tekið fé til þess að mæta kostnaði við virðisaukaskatt sem leggst á ýmsar stofnanir ríkisins með meiri þunga en söluskattskerfið gerði áður. Þar er um allstóra fjárhæð að ræða hjá ríkisspítölum en þar er einnig um að ræða verulegar fjárhæðir hjá öðrum stofnunum ríkisins. Það er næsta hlálegt að verða vitni að því sem mér sýnist í fjárlagafrv. að enn sé ekki gert ráð fyrir kostnaði stofnana við virðisaukaskatt því að útgjaldatölur fjárlagafrv. eru að þessu leyti byggðar á reikningum og fjárlögum ársins 1989, fyrir daga virðisaukaskattsins. Hér er því enn liður sem þarf að koma til athugunar og verður væntanlega að gera það við afgreiðslu þessa frv. sem hér liggur fyrir. Ef ekki, þá kemur hann ábyggilega til kasta Alþingis með því fjáraukalagafrv. sem flutt verður þegar árið er liðið.
    Veigamesta skuld ríkissjóðs sem ekki er talin í þessu fjáraukalagafrv., og hæstv. fjmrh. vék hér örlítið að, er yfirtaka ríkissjóðs á skuld frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem færist yfir til ríkissjóðs á þessu ári, þ.e. í sumar. Ég lét hafa það eftir mér í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum að ég sæi ekki betur en þessi skuld, sem er talin í greinargerð með frv. um 1430 millj. kr., sem mun vera höfuðstóllinn, yrði að færast á þau fjáraukalög sem við erum nú með til meðferðar. Hæstv. fjmrh. mótmælti þessu kvöldið eftir og vitnaði þar til annarra lána sem ríkissjóður hefur yfirtekið, sem voru lán á orkufyrirtækjum, og gerði um leið góðlátlega gys að mér með tilliti til þess að ég hef verið formaður í einu því orkufyrirtæki sem hlut á að máli, þ.e. Rafmagnsveitum ríkisins. Nú voru þau lán, sem yfirtekin voru af orkufyrirtækjunum, föst lán. Þar var um skuldabréf að ræða sem ríkissjóður yfirtók. Og það eru fordæmi fyrir því að slík lán séu yfirtekin af ríkissjóði og færist ekki á rekstraryfirlit en komi síðan fram eftir því sem afborganir og vextir greiðast. Ég óskaði því eftir því við fjmrn., eftir að þetta viðtal birtist við fjmrh., að ég fengi greinargerð um þetta mál frá ráðuneytinu og fengi ljósrit af því skuldabréfi sem hér væri um að

ræða, sem væntanlega væri, úr því að hæstv. fjmrh. fullyrðir að það sé hægt að meðhöndla þetta mál í færslum ríkissjóðs eins og hann gerði grein fyrir. Og ég hef fengið hér svar frá fjmrn. sem er dagsett í dag. Í því kemur fram að Verðjöfnunarsjóður hafi tekið lán, fyrst 800 millj. kr. og síðar 400 millj. kr. til viðbótar. Um þetta lán hafi verið
samið við Seðlabanka Íslands að dregið skyldi á lánsheimild af sérstökum yfirdráttarreikningi sjóðsins eftir þörfum. Síðar kemur fram að hér er um lán á hlaupareikningi að ræða, eins konar yfirdráttarlán, sem sé lausaskuld, venjuleg lausaskuld. Hér er ekki um neitt fast skuldabréf að ræða. Hér er einungis lausaskuld sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins stofnaði til í Seðlabanka Íslands og hefur að baki sér yfirlýsingu --- aðeins yfirlýsingu, sem undirrituð er af Árna Kolbeinssyni fyrir hönd Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir hönd ríkissjóðs. Það er aðeins yfirlýsing. Það er ekkert skuldabréf um að ræða. Og þegar ríkissjóður tekur síðan að sér að greiða lausaskuldir fyrir einhvern tiltekinn aðila eins og þennan, þá verður ekki hjá því komist að það komi fram í yfirliti ríkissjóðs fyrir það ár. Það er enda viðurkennt í greinargerð fjmrn. að þessi fjárhæð muni, þrátt fyrir það að þeir reyni að malda í móinn, verða gjaldfærð á ríkisreikning fyrir árið 1990.
    Ég tel það liggja algerlega ljóst fyrir að þótt ríkissjóður taki nýtt lán, taki t.d. nýtt skuldabréf í Seðlabanka Íslands eða með einhverjum öðrum hætti búi út ný lánsskjöl til að mæta þessari yfirtöku á lausaskuldum Verðjöfnunarsjóðsins, yfirdráttarláni Verðjöfnunarsjóðsins, þá er þar aðeins um nýja lántöku að ræða að formi til sem verður að bókast inn á rekstraryfirlit ríkissjóðs. Ég veit vitaskuld ekki hvort hæstv. fjmrh. tekst að fá meiri hluta fjvn. eða meiri hluta Alþingis til að taka þátt í því með sér að fara með þetta mál í greiðsluyfirliti ríkissjóðs á þann hátt að ekki samrýmist venjum eða reglum sem fyrir liggja. Ég á erfitt með að trúa því að svo fari.
    Ég rifja það einnig upp að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga frá 1. jan. til 30. júní þessa árs, sem birtist í ágústmánuði sl. og send hefur verið hv. alþm., segir um hækkun á áætluðum útgjöldum A - hluta ríkissjóðs á þessu ári að þær megi rekja til eftirfarandi atriða:
    1. ,,Framlag til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins að fjárhæð 1,6 milljarðar kr. Samkvæmt lögum nr. 39/1990 er kveðið á um að ríkissjóður yfirtaki skuldir sjóðsins hjá Seðlabanka Íslands miðað við 1. júlí 1990.``
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er það vitaskuld staðfest, sem ég hélt fram í sjónvarpsviðtalinu og held fram hér í þessum ræðustól, að það sé skylda að ríkissjóður færi þessa skuld sem hann er að yfirtaka, þessar lausaskuldir Verðjöfnunarsjóðsins, á rekstraryfirlit ríkissjóðs og sé ekki með tilburði til að leyna þessum útgjöldum í rekstraryfirliti ríkissjóðs í þeim tilgangi einum að láta þær koma fram í rekstraryfirliti ríkissjóðs síðar, á seinni árum eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn er farin frá. Sá einn er tilgangurinn. Þessir tilburðir hæstv. fjmrh. eru vitaskuld í samræmi við ýmislegt, þó í smærri sniðum sé, í ýmsum formbreytingum t.d. í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir og ég lýsti hér við 1. umr. þess máls. Allt á það að þjóna einum tilgangi, sem sé þeim að leyna fyrir Alþingi og fyrir þjóðinni raunverulegum útgjöldum ríkissjóðs á þeim tíma sem hann situr í embætti fjmrh. og láta svo líta út í yfirlitstöflum, skýrslum, greinargerðum og fréttatilkynningum að útkoman úr ríkissjóðsdæminu sé svo og svo miklu fallegri en raunveruleikinn sýnir. Þessar tilfæringar allar kann hæstv. fjmrh. En Alþingi á ekki að láta hann komast upp með augljósar villur og rangfærslur í þessum efnum. Við höfum hér dóm hlutlausra aðila sem er Ríkisendurskoðun um þetta tiltekna efni.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Hæstv. ráðherra sagði hér í ræðu sinni að rekstur stofnana ríkisins á þessu ári hefði gengið mjög vel og verið yfirleitt haldið í böndum. Það er vel að svo miklu leyti sem það er rétt. Í sumum tilvikum er það rétt en í sumum tilvikum hefur það gengið mjög miður.
    Hann sagði einnig að kostnaður vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga sem leggst á ríkissjóð væri miklum mun meiri en gert hefði verið ráð fyrir við setningu þeirra laga. Ég hef af því tilefni óskað eftir því að fá greinargerð um kostnað ríkis og sveitarfélaga vegna þessara nýju laga um verkaskiptingu, bæði frá fjmrn. og eins frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég hef ekki enn þá fengið svör við þeirri ósk minni. Það er ekkert einkennilegt því það getur tekið nokkurn tíma að vinna það verk svo að greinilegt sé og hef enga athugasemd við það þó að svörin séu ekki komin. En ég vil láta Alþingi vita það að ég óska eftir því að fá greinargerð um þetta efni frá báðum aðilum, ekki einvörðungu frá hæstv. fjmrh.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um einstök atriði í þessu frv. umfram það sem ég hef þegar gert. Þar eru þó nokkur efnisatriði sem ástæða væri til að minnast á. Ýmis þeirra eru ekkert veigamikil en ég vil þó gjarnan geta þess að þar er t.d. gert ráð fyrir því að útgjöld einstakra ráðuneyta fari mjög misjafnlega langt fram úr því sem fjárlög kveða á um. Þar er því lýst greinilega og það hefur komið fram að útgjaldaaukinn er mestur í heilbr. - og trmrn. Það er í sjálfu sér ekkert einkennilegt vegna þess að það er útgjaldafrekasta ráðuneyti ríkiskerfisins. Næst í röðinni er hins vegar fjmrn. Fyrir fáum árum var það svo að fjmrn. var meðal hinna útgjaldaminni ráðuneyta stjórnkerfisins. En nú er fjmrn. annað í röðinni á eftir heilbrrn. um aukin útgjöld umfram fjárlög. Hæstv. ráðherra var að segja að stofnunum ríkisins hefði verið haldið í böndum og rekstur þeirra hefði gengið mjög vel en svo virðist sem þetta hafi ekki gengið sérstaklega vel í fjmrn. sjálfu.
     Ef litið er á nokkur atriði í fjmrn., þá segir hér til að mynda um aðalskrifstofu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Farið er fram á 4 millj. kr. viðbótarframlag til aðalskrifstofu. Meginástæðan er aukinn launakostnaður,`` o.s.frv. Ýmsar stofnanir kynnu nú að geta farið fram

á fé vegna aukins launakostnaðar ef ekki er haldið aftur af þeim lið. Það segir til að mynda um ríkisbókhald: ,,Sótt er um 30 millj. kr. viðbótarheimild til reksturs embættisins. Annars vegar hafa sértekjur verið ofáætlaðar og hins vegar hefur skýrsluvélakostnaður vegna bókhalds orðið hærri,`` en gert var ráð fyrir.
    Þá segir hér til að mynda um skattstofur, sameiginlegur kostnaður: ,,Til þessa fjárlagaliðar er farið fram á 116 millj. kr. vegna þess að hönnun tölvukerfis vegna staðgreiðslu og upptöku virðisaukaskatts hefur kostað meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum.`` 116 millj. kr. vegna þess að hönnun á tölvukerfi kostaði meira en gert var ráð fyrir. Þetta kallar maður nú að halda hlutunum í böndum og að rekstur gangi vel.
    Þá segir um gjaldheimtur og innheimtukostnað: ,,Til þessa liðar er farið fran á 30 millj. kr. Annars vegar hafa áhrif skattkerfisbreytinga á innheimtukostnað verið vanmetin og hins vegar hafa hertar innheimtuaðgerðir leitt til útgjaldaauka.`` Ýmis fleiri svona mál er hægt að telja upp í fjmrn. Þar segir til að mynda um launa - og verðlagsmál að til að mæta því sem á vanti vegna áformaðs sparnaðar sé farið fram á 140 millj. kr. Eitthvað hefur bilað hjá hæstv. fjmrh. að ná þeim sparnaði sem til var ætlast.
    Þá segir hér undir liðnum Ýmis kostnaður í fjmrn.: ,,Til þessa málaflokks er sótt um samtals 123 millj. kr.`` Hér skal ekki farið út í alla þá skiptingu sem þar er um að ræða en þar segir: ,,Kostnaður af tekjubókhaldi er 31 millj. kr. meiri en áætlað var.`` Og síðar í þessum texta segir um kaup á dagblöðum, sem falla undir þennan lið: ,,Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga heimild til kaupa á 500 eintökum af dagblöðum. Áætlaður kostnaður vegna þessa verði 50 millj. kr.`` Hv. þm. Páll Pétursson flutti við lokaafgreiðslu fjárlaga tillögu um að auka kaup ríkissjóðs á dagblöðum umfram þau 250 eintök sem áður höfðu verið keypt þannig að nú væru keypt 500 til viðbótar eða 750 eintök samtals. Þessi tillaga kostaði 50 millj. kr. Og það stóð ekki á því að hver einasti stjórnarliði greiddi henni atkvæði, hver einasti.
    Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að stofnunum á vegum fjmrn. virðist ekki haldið í böndum, svo notuð séu orð hæstv. fjmrh. sjálfs, með líkum hætti og gert er við ýmsar aðrar stofnanir sem fjær honum liggja. Útþensla á rekstri þessa ráðueytis er meiri en maður hefði fyrir fram látið sér til hugar koma.
    Ég tel eðlilegt að við 2. umr. þessa máls verði tekið til athugunar hvernig farið hefur verið með úthlutað fé af hinu svokallaða ráðstöfunarfé ráðherra sem er í hverju ráðuneyti. Ég get greint frá því að upplýsingar um þetta eru komnar frá ýmsum ráðuneytum en ekki öllum. Þegar það liggur fyrir mun fjvn. væntanlega taka til athugunar hvort þessi fjárlagaliður á rétt á sér eða ekki. Mér sýnist að í þessu fjáraukalagafrv. sé farið fram á ýmsa styrki, ýmsa smástyrki jafnvel, sem eðlilegt er og raunar var ætlast til að gætu fallið undir þennan fjárlagalið um frjálst ráðstöfunarfé einstakra ráðherra. Svo að gripið sé niður í til að mynda menntmrn. þá sést að þar eru t.d. útgáfustyrkir, samtals um 10 millj. kr., sem farið er fram á í þessu fjáraukalagafrv. Ég hef ekki séð enn þá skrá yfir þessa útgáfustyrki, en hér er auðvitað dæmigert viðfangsefni til þess að fella undir hið svokallaða ráðstöfunarfé ráðherra.
    Með bréfi er skipt fjárlagalið sem ætlað er til þessa verkefnis og í það er lögð vinna af fjvn. Gjarnan er það svo að þá er eftir skilið nokkurt fé sem er óskipt. Það fé hefur ráðherra hverju sinni haft til frjálsrar ráðstöfunar. Nú hefur hæstv. menntmrh. nokkuð rýmilegt fé á fjárlögum til viðbótar. Eðlilegt hefði verið að smáliðir eins og þessir færðust undir slíkan lið sem ráðstöfunarféð er. Ef það er ekki gert, þá er mikil spurning hvort ástæða sé til að halda þessum fjárlagaliðum áfram inni í fjárlögum.
    Ég vil svo taka það fram að þetta frv., eins og ég sagði raunar áðan, er eðlilegt í formi og þar með mikil framför frá frv. í fyrra. Ég tók eftir því að hæstv. fjmrh. sagði undir lok sinnar ræðu að ýmsar formbreytingar þyrftu að verða á störfum Alþingis og fjvn. og eðlilegt m.a. að breyta um samkomudag þannig að Alþingi fari að koma saman kannski í byrjun september. Ég er því a.m.k. við fyrstu sýn andvígur. En ég er hins vegar því samþykkur sem hæstv. fjmrh. sagði um að breyta þingskapalögum á þann hátt að fjvn. verði heilsársnefnd þannig að hún geti starfað í fullu umboði á milli þinga en ekki eins og nú er að þegar nefndin kemur saman, þá hefur hún ekki formlegt gildi. Því er eðlilegt að breyta vegna þess að reynslan hefur sýnt að fjvn. þarf iðulega að starfa, og stundum mikið, þann tíma sem Alþingi situr ekki. Þess vegna tek ég undir þá tillögu í ræðu hæstv. ráðherra en þessi tillaga hefur líka oft verið viðruð áður, m.a. af mér og mörgum fleiri sem höfum reynslu af þessum málum.