Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil láta í ljós ánægju mína með hvernig miðar fram þeim nýju vinnubrögðum sem hæstv. núv. fjmrh. tók upp á síðasta þingi, að leggja hér fram og afgreiða fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár, sem er nýmæli í störfum þingsins, þarft nýmæli sem menn hafa rætt um árum saman, en fyrst nú eru tekin til framkvæmda.
    Ég vil aðeins í því sambandi láta það koma fram að miðað við þann eðlilega starfstíma þingsins sem verið hefur þegar þing kemur saman þann 10. okt., þá kemur þetta að sjálfsögðu sem hrein viðbót við þau störf sem fjvn. þarf að inna af hendi. Enn fremur eru verkefni þau sem fyrir nefndina eru lögð á ári hverju sífellt að verða viðameiri, enda eðlilegt því að útgjöld og tekjuöflun íslenska ríkisins verða sífellt viðameiri. En nú er málum svo komið að vinnuálag er orðið það mikið á nefndina að menn geta reiknað með því að nefndarmenn séu meira og minna fjarverandi eðlileg þingstörf frá því um miðjan nóvember og þangað til fjárlagaafgreiðslu lýkur. Það er hvorki eðlilegt né æskilegt að nefndarmenn geti ekki tekið þátt í eðlilegum vinnubrögðum á Alþingi og tekið þátt í afgreiðslu þeirra mála sem þeir hafa áhuga á en svona er nú því miður komið.
    Hæstv. ráðherra hefur látið í ljós skoðanir um að það þurfi að huga að þessu til breytinga, e.t.v. með þeim hætti að Alþingi komi saman til funda fyrr en gert er á haustin. E.t.v. er hægt að leysa þetta með öðru móti en ég er alveg sannfærður um að ég tala fyrir hönd fjárveitinganefndarmanna allra þegar ég lýsi þeirri skoðun minni að það er orðið nauðsynlegt að takast á við þetta vandamál því að það er ekki æskilegt að níu þingmenn fái ekki nema takmarkaðan kost á að taka þátt í hefðbundnum störfum Alþingis, kannski 1 1 / 2 -- 2 mánuði á ári, vegna mikils vinnuálags í störfum í þingnefndum.