Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég kem nú hér upp fyrst og fremst til að þakka flm. fyrir að vekja athygli á mjög alvarlegu vandamáli þó að ég sé ekki sammála þessum tillöguflutningi eða frv. Ég tel að frekar eigi að fara áróðursleiðina, að gera fólki betur grein fyrir afleiðingum neyslu áfengis yfir þeim mörkum sem nú eru leyfileg og gera því fyllilega grein fyrir sínum gjörðum. Í því efni má t.d. nefna að fjölmargir eru teknir fyrir svokallaðan ölvunarakstur án þess í raun að hafa hugmynd um að þeir falli undir slíkt. Þá á ég kannski fyrst og fremst við þá sem hafa kannski tekið svona íslenska helgi, laugardagskvöld, allhressilega, eins og gerist æði oft hér, og fara síðan að keyra kannski um miðjan sunnudag, eru teknir, haldandi sjálfir að þeir séu fyllilega löglegir en í blóðinu er enn þá áfengismagn yfir þeim mörkum sem leyfileg eru. Fyrir slíkum hlutum á auðvitað að reka áróður og gera fólki grein fyrir þeim, en það á ekki að fara út í slíkar öfgar eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur á frekar, eins og ég segi, að auka áróðurinn og þá ef eitthvað er að þyngja refsingarnar.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv., en vissulega er margt hægt að segja um það. Það kom mjög skýrt fram í máli 1. flm. að ekki á að vera nokkur vafi í neins manns huga um að áfengi og akstur fara ekki saman. Sem sagt, það á ekki að bragða dropa af áfengi. Þetta kom alveg skýrt fram og kemur reyndar nokkuð skýrt fram í greinargerðinni. En ég spyr: Því er skrefið ekki stigið til fulls? Af hverju er verið að hafa þetta 0,25‰ en sagt engu að síður að ekki megi fara dropi inn fyrir varirnar?
    Ég hlýt þá að minna á að þessa dagana er haldið kirkjuþing. Það verður nokkuð athyglisvert að sjá auglýsingarnar frá prestunum, þegar verið er að kalla sóknarbörnin til altaris og bjóða þeim að dreypa á blóði Krists, um að menn vinsamlegast skilji bílana eftir því að þeir megi ekki keyra þaðan í burt. Það er akkúrat og nákvæmlega það sem 1. flm. sagði hér áðan, ekki dropi af áfengi. Ef dropi, þá má ekki keyra. Það er nákvæmlega það sama sem skeður ef við verðum nú það kirkjuræknir að fara og dreypa á blóði Krists. Og þetta tel ég að verði að skila sér inn á kirkjuþing og að mjög áríðandi sé að kirkjuþing fjalli um þetta, því að þeir verða náttúrlega að bregðast við þessu og hafa þá alkóhólfría drykki við altarið. Sé þetta vandamál eins stórt og af er látið skil ég ekki af hverju lög þessi eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. júlí 1991. Ef þetta er svona aðkallandi hljóta þau að taka gildi strax.
    Það er einnig athyglisvert að skekkjumörk eiga að vera aðeins í aðra áttina. Ég tel að þau ættu að vera í báðar áttir, bæði í plús og mínus.
    Þegar hér var verið að ræða t.d. um bjórinn fyrir tveimur til þremur árum kom ég hér upp í ræðustól með poka af sælgæti sem fyllt er með áfengi, þrælsterku áfengi reyndar, yfir 40%. Þetta er selt í verslunum. Það getur hvert mannsbarn, undir eða yfir lögaldri, keypt þetta og bragðað á. Þetta verður nákvæmlega jafnólöglegt. Flutningsmenn verða að gera sér grein fyrir að þeir verða að taka þetta sælgæti út af markaðnum líka.
    Reyndar er skekkja í greinargerðinni þar sem talað er um matið. Með leyfi forseta stendur hér: ,,Núgildandi umferðarlög valda því að ökumaður verður hverju sinni að meta sjálfur, eftir að hafa neytt áfengis, hvort hann er hæfur til að aka bifreið eða ekki. Þetta mat varð mun erfiðara eftir að bruggun áfengs öls var leyfð hér á landi.`` Hún hefur alltaf verið leyfð hér á landi. Þarna á sjálfsagt að standa: eftir að sala áfengs öls var leyfð hér á landi.
    Herra forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál og ætla því ekki að hafa langt mál um frv. að sinni, en ég vildi koma hér upp til þess að lýsa andstöðu minni við það. Ég tel að þau mörk sem nú eru í lögum séu nógu lág. Það þarf hins vegar að auka áróðurinn og mín vegna mætti gjarnan þyngja refsingarnar.