Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég þakka fyrir að þetta frv. var lagt fram og kemur hér til umræðu. Ég horfði á þátt um umferðarmál hér á dögunum þar sem einn varðstjórinn drakk úr maltflösku og svo var prófað hvort eitthvert áfengismagn mældist í blóðinu, og fram kom að það var vottur af því. Ég hygg nefnilega að verði frv. að lögum muni fólk frekar skilja að það er alls ekki óhætt að bragða neitt sem áfengi er í. Þá getur það átt á hættu að lenda í höndum lögreglunnar og að meira magn mælist í blóðinu en það telur sjálft að sé fyrir hendi.
    Ég held að einmitt það að þessi mörk eru lækkuð ofan í 0,25‰ sé af því góða og það muni í reynd verða til þess að hvetja fólk til að passa sig betur en nú er. Það var auðvitað vitað, þegar bjórinn var leyfður, að þá yrðu fleiri sem freistuðust til að drekka bjór, jafnvel í þeirri trú að ekkert áfengismagn mundi finnast í blóðinu, a.m.k. eftir tiltölulega stuttan tíma. Þetta hefur bara reynst á annan veg. Þess vegna mun ég styðja frv., tel tímabært að leggja það hér fram og að líklegt sé að það muni verða til þess að menn fari varlegar og slysum fækki jafnvel af völdum áfengisneyslu.