Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. viðskrh. um bætta aðstöðu verslunarfyrirtækja í strjálbýli. Fsp. er svohljóðandi:
 ,,1. Hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að efla það fyrirheit sitt að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli?
    2. Ef engin slík aðgerð hefur verið gerð, hverra úrbóta má þá vænta og hvenær?``
    Í málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, sem mynduð var 28. sept. 1988, segir: ,,Unnið verður að því að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli,`` og ég vil ætla að þó einhver breyting hafi orðið á ríkisstjórninni hafi ekki verið horfið frá þeim ásetningi að bæta þjónustu verslunarfyrirtækja.
    Mér er kunnugt um hvaða nefnd var skipuð í þessu sambandi. Hún skilaði áliti svo ég þarf ekki að spyrja um það. Hitt veit ég að ástand og horfur í strjálbýlisverslun eru afar slæmar og ljótt útlit hjá margri strjálbýlisversluninni. Margar hafa þær gefist upp að fullu og öllu og hinar, sem enn eru starfandi, flestar hverjar, búa við mjög slæma stöðu. Þjónusta verslunar er í ríkari mæli að færast frá þessum strjálbýlli héruðum, og jafnvel flestum landsbyggðarhéruðum, hingað á höfuðborgarsvæðið. Svo er hitt aftur önnur saga að verslun er mjög að færast úr landi hér af höfuðborgarsvæðinu og mörgum er það mikið áhyggjuefni. Gæti ég komið inn á það síðar þegar tími vinnst til og þá undir öðrum kringumstæðum en í sambandi við svarið við þessari fsp.
    Virðulegi forseti, ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. hafi eitthvað nýtt að segja í þessum efnum.