Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að gera svo glögga grein fyrir nefndarálitinu sem skilað var í nóvember á liðnu ári, hann tók af mér ómakið. Ég vona að í þessu sannist að jafnvel hinar lengstu ferðir byrji á einu skrefi og bið nú hv. þm. að deila þeirri von minni með mér að úr þessu geti ræst og að mjór sé mikils vísir í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.
    Ég endurtek það sem ég sagði, ég er alveg sannfærður um það
að Byggðastofnun þarf að sinna þessum þætti byggðamálanna betur en gert hefur verið. Það er rétt hjá hv. þm. að málefni hennar eru ekki til umræðu, en ég vek athygli á því að hún kom einmitt við sögu í nefndarálitinu sem hv. þm. vitnaði til. Ég treysti á það að við náum góðu samstarfi um málið og vilji finnist í þinginu til þess að leggja þessu máli lið. Það er með þetta eins og fleira að það eru mörg verðug erindi sem koma fyrir fjvn. Þetta er eitt af þeim. Þar verða menn að velja og hafna. Það gildir líka hjá Byggðastofnun. Spurningin er hvort forgangsröðin hafi alltaf verið rétt.