Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er ánægjulegt að heyra í þingmönnum í sambandi við vegagerð og að menn geri sér grein fyrir því hvað þörfin er brýn með þennan málaflokk. En ég veit ekki hvort, ég hef nú ekki hlustað á allar þessar umræður, menn hafa gert sér grein fyrir því að ef vegafé yrði það á næstu fjárlögum sem það er merkt nú, þá mundi það taka a.m.k. 30 ár að gera það sem Vegagerðin telur mjög brýnt. Og ég vil taka undir með hv. þm. Eiði Guðnasyni að þessar stærri framkvæmdir verða tæpast gerðar öðruvísi en að fá fjármagn utan vegáætlunar.
    Ég tiltek jarðgöngin á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem er
mjög nauðsynleg framkvæmd ef menn meina eitthvað með því sem þeir eru að tala um, að það þurfi að halda byggðinni í sem líkustu horfi og hún er nú. Ég held að ef menn athuga hvaðan gjaldeyrisöflunin kemur fyrir þessa þjóð muni þeir átta sig á því að það þarf sérstaklega að halda þessum sjávarplássum við og þar þyrfti fólki meira að segja að fjölga. En þessi sjávarpláss standast ekki nema strjálbýlið í kringum þau haldist einnig. Þetta er ein kenning.
    Þá er bara spurningin hvernig eigi að raða þessu upp. Það þýðir ekkert hér á hinu háa Alþingi að koma með þáltill. um að gera þetta og gera hitt, en hugsa ekkert um það aftur á móti hvernig eigi að fjármagna þær framkvæmdir. Það verður höfuðverkurinn. Þáltill. sem eru samþykktar hér en ekki ætlað fjármagn í eru marklausar. Þær eru viljayfirlýsing en ekki lög. Ég vonast til þess að þegar verður farið að ræða þessi mál almennt þá geti menn af sanngirni, hvar sem þeir búa, reynt að raða því upp miðað við þörfina og þannig verði staðið að slíkum framkvæmdum.
    Það er líka rétt sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði um hafísveginn. Það fór fjármagn í hann utan við vegaféð í þrjú ár. Það átti að gera mikið meira miðað við þá tillögu sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi 1968 en var tekið af eftir þriggja ára fjárveitingu. Og þá var komið að Austurlandi því að þessu var skipt þannig að fyrstu þrjú árin fóru 2 / 3 á Melrakkasléttuna á milli Kópaskers og Raufarhafnar en 1 / 3 fór aftur á svæðið austan Þórshafnar. Svo átti það að snúast við þegar Sléttan væri búin en þá var fjármagnið tekið af. Ég vil bara minna á hvernig þetta gerðist.
    Ég endurtek það að þeir sem hér hafa talað skilja þörfina fyrir vegagerð. En við megum ekki tala einungis miðað við hvar við eigum heima á landinu, fyrir hvaða kjördæmi við erum að vinna. Það verður að líta á þörfina, hvar hún er mest og fara eftir því.