Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég mótmæli því nú eindregið að ég hafi lesið hér einhvern reiðilestur. Ég veit ekki til að ég hafi verið neitt reið þegar ég flutti mál mitt.
    Það sem kom mér til að taka til máls varðandi þessa till. er það að mér finnst hún yfirborðsleg. Mér finnst hún yfirborðsleg á sama hátt og öll málafærsla Kvennalistans er í mínum huga vegna þess að hún tekur aldrei með gagnrýni á því hvaða afleiðingar það hefur haft að konur hafa snúið sér nær alfarið út á vinnumarkaðinn og þeim lítið verið sinnt. Og það eigum við konur sjálfsagt allar sameiginlegt að því hefur lítið verið sinnt að skoða með gagnrýni hvað hefur gerst.
    Hér áður fór fram mikil framleiðsla inni á heimilum á matvælum, á fatnaði, svo að eitthvað sé nefnt, að ég nú ekki tali um barnauppeldið. Hvað hefur svo gerst með frelsun okkar kvenna? Það hefur gerst að það sem áður var framleitt inni á heimilunum framleiða nú konur í verksmiðjum heimsins fyrir einhver allra lægstu laun sem á boðstólum eru. Og svo getum við allar velt því fyrir okkur hvort þetta var það sem við vildum.
    Ég get auðvitað verið sammála þeim kvennalistakonum um marga hluti og við höfum oft verið það. En það fer auðvitað ekki hljóðalaust yfir neitt samfélag þegar öll heimilismenning, og alla vega öll heimilismennt, beinlínis fellur niður því að það hefur hún gert. Og ég auglýsi eftir einu: Hér á árum áður voru handavinnusýningar algengar. Hvar eru þær núna? Þær eru á elliheimilum landsins og ég tek undir það með þeim kvennalistakonum að margt af því sem þar er að sjá er sérdeilis fallegt. En það er gamla fólkið sem vinnur þessa vinnu. Í fyrsta lagi vegna þess að það hefur tíma til þess og í öðru lagi vegna þess að það kann það.
    Mér er nefnilega stórlega til efs að konur kunni þetta lengur og ég vil benda á ósköp einfalda staðreynd. Hér í höfuðborginni voru þangað til fyrir svona 15 árum tugir verslana sem seldu garn og handavinnu. Ég má segja að þær eru þrjár eða fjórar í dag. Það leggst niður svona ein á ári. Og af hverju skyldi þetta nú vera? Það er vegna þess að konur kunna ekki lengur að prjóna. Og það hafa sagt mér verslunarmenn í þessari grein að þegar konur séu að kaupa garn, konur núna svona um fertugt, þá verði að kenna þeim að fitja upp vegna þess að þær hafa aldrei prjónað, svo að eitt dæmi sé tekið.
    Auðvitað hefur þetta valdið ýmsu öðru, svo sem þeirri gífurlegu neyslu sem er í þjóðfélaginu því að fólk þarf áfram að ganga í fötum og þau eru keypt á uppsprengdu verði, föt sem áður voru unnin inni á heimilunum. Það var ekki launað starf en það skyldi nú aldrei vera að það hafi verið mikil búbót fyrir þær fjölskyldur sem þessarar vinnu nutu.
Ég held að það hafi verið lítið gert í því að rannsaka hver áhrif þetta hefur haft á hagvöxtinn í landinu. Konur hafa aldrei þorað að ræða þessi mál á gagnrýninn hátt því hvað sem við viljum og segjum, auðvitað var þessi vinna unnin fyrst og fremst af konum, um það er ég alveg hjartanlega sammála. Og ég óttast að ýmislegt í þeirri handmenntahefð sem um aldaraðir þróaðist hér í þjóðfélaginu sé í hættu. Ég sagði kannski gáleysislega hluti hér um minjagripi og vil nú taka það fram að þá á ég ekki við það prjónles t.d. sem er framleitt á íslenskum heimilum. Ég lít ekki á það eins og minjagripi. Ýmislegt annað kom mér nú til hugar, sem ég hef orðið að berja augum þegar ég hef verið á ferð um, þó ekki væri nema flugstöðina hér suður í Keflavík og mætti nú margt af því missa sig. Auk þess sem ég læt ekkert af því, eins og ég hef áður sagt, að auðvitað eigum við að nýta listamenn þjóðarinnar og veita þeim aðstöðu til þess að framleiða hluti sem við getum verið stolt af og er svo sannarlega boðleg útflutningsvara, eins og margt annað.
    Ég er auðvitað alveg hjartanlega sammála hv. 18. þm. Reykv. að eina leiðin til þess að leiðrétta þau mistök sem gerð hafa verið, því það eru mistök, er að bæta hag fjölskyldnanna, stytta vinnutíma og gera fólki kleift að vera meira á heimilum sínum. Þá held ég að það kæmi nú kannski af sjálfu sér að fjölskyldan leitaðist við að hafast ýmislegt það að sem til heimilismennta má telja. Okkur greinir því ekkert á um það að við viljum endurvekja þá, við skulum segja, kvenlegu mennt sem a.m.k. ég hef áhyggjur af að við séum um það bil að týna niður. En ég er ekki sammála kvennalistakonum um aðferðir. Ég held að heimilisiðnaðarráðgjafar gerðu ekkert í því. Það held ég að næði til lítils hóps manna og kæmi að litlu gagni. Ég held að það væri miklu nær að við tækjum öll höndum saman, og ekki síst hv. þm. af karlkyni, um að reyna að auka veg fjölskyldunnar þannig að hún geti í sameiningu stundað slíkar menntir. Það er nú kannski af því að ég hef enn ekki komið auga á neitt sem bætir hag barna og kvenna sem ekki bætir um leið hag karla. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvað getur bætt hag barna og kvenna sem ekki bætir um leið hag karla. Þannig að það getur svo sannarlega verið að okkur greini ekki á í veigamiklum atriðum.
    Hins vegar held ég að það sé löngu kominn tími til á þessari öld rannsókna á öllum sköpuðum hlutum að það sé virkilega rannsakað hver áhrif það hefur haft í beinhörðum peningum, hvað varðar hagvöxt landsins og þjóðarinnar, að konur hafa lagt niður að miklu leyti vinnu inni á sínum eigin heimilum. Ég held að þar gætum við komist upp í stærðir sem enga okkar kannski órar fyrir. Neysluþjóðfélagið er engin tilviljun. Það var búið til vísvitandi og vitandi vits. Það er nefnilega svo að hlutir gerast ekki. Þeir eru gerðir og það er hlutverk stjórnmálamanna að vísa þjóðinni fram á veginn, reyna að hafa einhverja yfirsýn yfir afleiðingar gerða okkar. Við getum ekki breytt veigamiklum þáttum í samfélaginu án þess að leiða að því hugann hvaða afleiðingar það hefur. Ég held nefnilega að hérna sé gott dæmi um það, þar sem kannski var farið af stað með einum of miklum gassagangi án þess að sjá fyrir afleiðingarnar.
    En ég skal svo sannarlega standa með kvennalistakonum um allt sem lýtur að því að handmenntakennsla í landinu verði aukin og fólki verði gefinn tími til að stunda slíkt því að ég held að það sé fátt sem er meira virði hverri einustu manneskju en að geta haft ofan af fyrir sér og sínum og til gagns fyrir bæði land og þjóð. Ágreiningur okkar er því ekki mikill að öðru leyti en því að ég dreg mjög í efa gagnsemina af að til svo yfirborðslegra ráða sé gripið eins hér er lagt til.