Jarðgangagerð á Austurlandi
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Jarðgangagerð á Austurlandi, eins og þessi tillaga fjallar um, er eitt af baráttumálum fólksins í þessum landshluta fyrir bættri framtíð og auknum möguleikum. Ég hlýt því að styðja alla tillögugerð sem miðar að því marki að framkvæmdir hefjist í jarðgangagerð á Austurlandi. Þessar framkvæmdir er ekki hægt að mæla á mælistiku venjulegra vegaframkvæmda. Hér er verið að breyta sambúðinni við landið, breyta landsháttum, og það er auðvitað ekkert smámál. Að breyta landsháttum hefur miklu meiri breytingar í för með sér en að komast á bílum milli tveggja staða. Þetta hefur hv. flm. enda rakið hér. Þegar þéttbýlisstaðir sem hafa búið við einangrun á vetrum um árabil komast í öruggt heilsárssamband, jafnvel með innan við hálftíma akstur hvor frá öðrum, þá myndast skilyrði fyrir framþróun sem ekki hefur áður verið fyrir hendi.
    Þessi tillögugerð, sem hér er til umræðu, er ekki sú fyrsta sem flutt er um jarðgangagerð á Austurlandi. Á 111. löggjafarþingi flutti Jónas Hallgrímsson, sem þá sat hér í forföllum Halldórs Ásgrímssonar, tillögu ásamt öllum öðrum þingmönnum Austurlands um rannsókn á jarðgangagerð á Austurlandi og framkvæmdum í því efni og mat á þjóðfélagslegum aðstæðum í jarðgangagerð. Síðan hefur það skeð að jarðganganefnd er að störfum. Hún er reyndar að meta hagkvæmni jarðganga á Vestfjörðum en einnig á Austurlandi.
    Tillaga sú, sem hér er til umræðu, kveður á um það að rannsóknum verði hraðað og þessar framkvæmdir verði boðnar út í einu heildarútboði.
    Þetta tengist að sjálfsögðu fjármögnun vegagerðar almennt og fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð. Mun ég aðeins víkja að þeim þætti í lok máls míns. Ég er ekkert sannfærður um það að við mat á þjóðfélagslegum aðstæðum og ávinningi, sem er nauðsynlegt, sé það endilega Iðntæknistofnun sem á að annast það. Ég er ekki viss um að hún sé rétta stofnunin til þess. Mér finnst þetta frekar vera verkefni samgrn. og Byggðastofnunar. Hins vegar er óþarfi að hafa mörg orð um það við 1. umr. málsins. Það má taka til umræðu og meta í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar.
    En ég vil víkja að þeim þætti þessa máls sem er drifkraftur alls sem gera skal og það er fjármögnunin. Sl. fimmtudag sat ég hér ásamt fleiri hv. þm. lengi dags undir umræðum um stórframkvæmdir í vegagerð og stefnumörkun til lengri tíma í þeim efnum. Bar þar margt á góma sem kostaði mikla fjármuni. Allt voru þetta mjög nauðsynlegar framkvæmdir og koma til góða í þeim landshlutum þar sem þær eru fyrirhugaðar. Þessar umræður sýna áhugann fyrir vegaframkvæmdum og þörfina, en þær leiða líka hugann að fjármögnuninni. Ekkert af þessum framkvæmdum verður að veruleika, og eru þá jarðgöng á Austurlandi meðtalin, nema menn séu tilbúnir til þess að veita vegamálum forgang í opinberum framkvæmdum eða innheimta meiri tekjur til vegamála, til beinna framlaga eða til þess að standa straum af lántöku. Forgangur þýðir á mæltu máli að það þarf að skera niður annars staðar. Ef menn vilja ekki skera niður annars staðar, þá verða hv. þm. að vera tilbúnir til þess að leggja meiri álögur á þjóðina til að standa straum af þessari vegagerð.
     Ég held að við getum ekki blekkt okkur á því að standa hér í umræðum um stórframkvæmdir í vegagerð á næstu árum án þess að leiða hugann að þessum þætti í alvöru. Við getum ekki hér á Alþingi flutt hverja tillöguna eftir aðra um framkvæmdir í vegagerð sem kosta milljarða án þess að svara því hvort við séum tilbúnir til þess að skera þá aðrar opinberar framkvæmdir niður eða leggja meiri álögur á þjóðina og innheimta meira fé til vegagerðar. Ég er einn af þeim sem eru tilbúnir til þess að innheimta meira, en ég held að það dugi ekki til. Við verðum að veita samgöngumálum vissan forgang í opinberum framkvæmdum. Ég hygg að það verði að innheimta meiri tekjur af umferðinni til vegamála.
    Það má geta þess að á árunum 1972 -- 1974 þegar miklar framkvæmdir voru í vegagerð, m.a. á Skeiðarársandi, var varið 2,3 -- 2,35% af þjóðarframleiðslu til vegamála. En á árinu 1989 er þetta hlutfall 1,34% samkvæmt upplýsingu úr ársskýrslu Vegagerðarinnar. Séu menn ekki tilbúnir til að breyta þessu og tala um slíkt í alvöru, þá er allt þetta tal hér á hv. Alþingi núna síðustu dagana um vegamál innantómt hjal. Þetta segi ég ekki til að draga úr mikilvægi tillöguflutnings hv. 5. þm. Austurl., síður en svo. Ég lýsti yfir stuðningi við hans tillögu og vil skoða hana rækilega í nefnd og leggja mat á ýmsa þætti hennar. Hins vegar vil ég benda rækilega á alvöru þessa máls. Lántökur eru góðar og gildar en lántökur verður að greiða.
    Ég ætla ekki að syndga upp á náðina með því að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ef þessi tillaga kemur til allshn. þá hef ég tækifæri í þeirri nefnd til að fjalla um hana. Ég vona að hún fái þar sem vandaðasta meðferð.