Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er hér með fsp. til samgrh. um varaflugvöll vegna alþjóðaflugs og hljóðar hún sem hér segir:
    ,,Hvað líður uppbyggingu varaflugvallar utan Stór - Reykjavíkursvæðisins fyrir alþjóðaflug?``
    Fyrir tveim árum lagði fyrirspyrjandi ásamt hv. þm. Agli Jónssyni fram þáltill. um byggingu varaflugvallar á Egilsstöðum fyrir alþjóðaflug. Bent var þá á brýna nauðsyn þess vegna breytinga á flugi yfir Norður - Atlantshaf sem og í flugflota Íslendinga að hafa varaflugvöll á öðru veðursvæði heldur en á suðvesturhorni Íslands.
    Á þeim tíma var verið að ganga frá og kaupa tveggja hreyfla þotur í stað þeirra gömlu flugvéla sem Flugleiðir höfðu átt. Það lá í augum uppi og var viðurkennt bæði af Flugleiðum sem og þeim sem ábyrgð bera á flugi á Íslandi að þessi nýja tegund flugvéla krefðist þess að það væri meiri nálægð við flugvelli heldur en áður hefði verið, sérstaklega með tilliti til öryggis farþega sem og með tilliti til sparnaðar í rekstri þeirra flugvéla sem voru að koma í notkun.
    Því miður fékk þessi þáltill. ekki nægilega góðar undirtektir og nú stöndum við frammi fyrir því að íslenski flugflotinn hefur verið endurnýjaður, þ.e. þær flugvélar sem eru í alþjóðaflugi. Þörfin fyrir fullkominn varaflugvöll utan veðursvæðis á Suðvesturlandi er því enn brýnni með tilliti til þessara grundvallarbreytinga í sambandi við alþjóðaflug.
    Þá er einnig því við að bæta sem bent var á á sínum tíma að alþjóðaflug yfir Norður - Atlantshaf er meira og meira að færast í það horf að flugvélar sem eru með tvo hreyfla, þ.e. þotur, fljúga norðar en áður var þannig að þörfin fyrir slíkan flugvöll er einnig nauðsynleg með tilliti til annarra flugfélaga og farþega sem í þeim ferðast.
    Á sínum tíma tóku íslenskir flugmenn mjög eindregið undir þá þáltill. sem við lögðum fram um það að fullkominn varaflugvöllur væri byggður á Íslandi og komu nokkrir staðir til greina, þar á meðal Egilsstaðir. Einnig var á þeim tíma talað um að hægt væri að notast við Akureyrarflugvöll og jafnvel rætt um það að byggja nýjan flugvöll norður í Aðaldal. Ég er því með þessa fsp. í dag og beini henni til samgrh. og spyr: Hvað líður þessu máli? Hafa verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru með tilliti til öryggis farþega og þeirra sem að þessari atvinnugrein standa?