Brúarframkvæmdir á Suðurlandi
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að halda áfram að karpa við hv. 5. þm. Suðurl. um þetta mál. Höfuðkjarni þessa máls er sá að það kom upp stórfelld bilun á þessari gömlu brú. Hið eina og rétta viðbragð í þeirri stöðu var að taka til hendinni og ljúka þessari framkvæmd á einu ári. Brúin er stórhættuleg yfirferðar. Það tókst samkomulag um að brúa hana en síðan á að bíða hátt í eitt ár eftir vegi og görðum. En það er líka brýnt að hraða görðum vegna stórfelldrar hættu sem er við Markarfljót gagnvart fleiri hlutum svo sem vatnsveitunni til Vestmannaeyja og landbroti. Þannig að við þessar aðstæður var myndarlegt af þingmönnum Suðurlands að taka til hendinni og framkvæma þetta strax. En það situr að völdum ríkisstjórn sem setti fram fyrirheit um að standa sæmilega að vegamálum en hefur fallið frá öllum hlutum í þessum efnum. Það var skorinn milljarður í fyrra og það á að skera aftur milljarð nú. Þetta er kjarni málsins og það þýðir ekki fyrir hv. 5. þm. Suðurl. að vera að fara í kringum þetta. Þetta veldur því að framkvæmdir í vegamálum í landinu eru gersamlega allar farnar úr böndunum og verður ekki mætt nema með minni niðurskurði eða auknum lántökum.