Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta frv. og þær undirtektir sem það hefur fengið. Sérstaklega fagna ég orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. um að þessu frv. verði hraðað í gegnum þingið. Ég sé þó ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um það sem fram kom í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals og þær tölur og þann samanburð sem fram kom í hans máli hér sem ég tel vægast sagt mjög villandi.
    Ég tel, hv. þm., að það sé mjög villandi að bera saman 3,5% vexti í þessu almenna lánakerfi frá 1986 og tala síðan um 7% raunvexti í húsbréfakerfinu og reikna dæmið einungis út frá þeim forsendum. Hv. þm. verður einnig að taka með í reikninginn heildarskuldir viðkomandi vegna íbúðaröflunar. Á því er reginmunur hvað lánshlutfall í lánakerfinu frá 1986 getur verið hátt og hvað hátt er það fasteignaveðbréf sem fólk getur skipt fyrir húsbréf.
    Í lánakerfinu frá 1986 fær fólk hámarkslán vegna notaðrar íbúðar 3,2 millj., ef það er að kaupa í fyrsta sinn, annars einungis 2,2 millj. Hvað þýðir þetta, hv. þm.? Þetta þýðir að fólk þarf í verulegum mæli að leita til bankanna eftir viðbótarlánum, eftir skammtímalánum til að brúa það bil sem er á þeim lánum sem það fær úr Byggingarsjóði ríkisins og verði íbúðarinnar. Fólk þarf því að leita eftir skammtímaláni í bönkum, kannski upp á 1 -- 2 millj., til viðbótar því sem það fær úr 86 - kerfinu til þess að geta keypt sér íbúð. Og það hefur verið reiknað út að fólk borgar ekki 3,5% vexti þegar það kaupir sér íbúð. Ef heildarskuldir þess eru skoðaðar eru meðalraunvextir, þegar þessi skammtímalán eru einnig tekin, 6 -- 7% en ekki 3,5%. Og það er einmitt það sem ég var að ræða um, hv. þm., þegar ég sagði að m.a. mætti rekja þá greiðsluerfiðleika sem fólk er í til þess að það hefur fengið mjög lágt hlutfall af íbúðinni lánað. Og fólk sem hefur t.d. fengið lán úr lánakerfinu 1986 er komið í greiðsluerfiðleika þess vegna.
    Ég vil líka segja það, hv. þm., að greiðsluerfiðleikalánin, það hafa verið um 600 þús. sem fólk hefur fengið, leysa ekki vanda a.m.k. mjög margra sem eru í miklum greiðsluerfiðleikum nú. Vegna hvers ekki? Vegna þess að meðalskuldir hjá þessu fólki eru 3,5 millj., skammtímaskuldir 1450 þús. í bönkum sem þetta fólk getur ekki nema að hluta til losnað við með 600 þús. kr. láni sem það hefur fengið hjá Húsnæðisstofnun, ekki nema að hluta til. Og þetta fólk verður fljótlega komið í greiðsluerfiðleika aftur. Ég tel að hér sé um raunhæfa leið að ræða til að leysa varanlega greiðsluerfiðleika þessa fólks vegna þess að með húsbréfunum væri t.d. hægt að leysa skammtímaskuldir upp á 1,5 millj., sem er það þyngsta hjá þessu fólki, með því að fara þá leið sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Á þessu er því verulegur munur og ég tel að þó að við hefðum kannski einn milljarð til þess að veita hin hefðbundnu greiðsluerfiðleikalán, sem væru að upphæð 600 þús. kr., þá gerði það miklu minna til þess að leysa vanda þessa fólks en ef farin yrði sú

leið sem ég hér mæli fyrir.
    Við verðum líka til þess að líta að þó vextirnir séu hærri í húsbréfakerfinu en lánakerfinu frá 1986 fyrir þetta fólk, þá fær fólk með lágar og meðaltekjur vaxtabætur. Og af því að hv. þm. nefndi það að vaxtabæturnar væru bara fyrir hátekjufólk, ef ég skildi hann rétt, þær væru mestmegnis fyrir hátekjufólk, þá liggur fyrir úttekt frá fjmrn. um hvert þessar vaxtabætur gengu á síðasta ári. Þetta voru um 15 þús. einstaklingar, einstæðir foreldrar og hjón sem fengu þessar vaxtabætur og að 3 / 4 hlutum runnu þessar upphæðir, vaxtabæturnar, til fólks með lágar og meðaltekjur. Einstæðir foreldrar voru að meðaltali með um 800 þús. kr. í tekjur og eign upp á milljón. Og svipað var hjá einhleypum. Þar voru meðalmánaðarlaun um 90 þús. kr. og skuldlaus eign upp á eina milljón. Hjá hjónum voru meðalmánaðarlaun 177 þús. kr. og meðaleign þessa fólks 2 millj. Það er til þessa hóps fólks sem ég hér nefni sem verulegur hluti af vaxtabótunum gekk. Þessi hópur telur um 10 þús. af þeim 15 þús. sem fengu vaxtabætur sem voru með tekjur á þessu bili: Einstæðir 80 -- 90 þús. og hjón með saman um 177 þús. og eignir þessa fólks 1 -- 2 millj. kr. Það er þetta fólk sem fékk að verulegu leyti vaxtabæturnar.
    Ég vil einnig nefna það, vegna þeirra orða sem hér féllu um að þetta væri það lengsta sem ríkisstjórnin gæti gengið til að bjarga þessu fólki og maður mátti skilja að hin hefðbundna leið sem hefði verið farin í gegnum greiðsluerfiðleikalánin væri betri og þetta mundi kannski ekki leysa vanda þessa fólks. Það þyrfti að borga 5,75% vexti o.s.frv., var hér sagt. Hvaða vexti þarf þetta fólk að borga núna af þessari 1,5 millj. sem það er með að meðaltali í skammtímaskuldir? Hvaða vexti þarf þetta fólk að borga? Hverjir eru vextirnir t.d. í bönkunum? Allt að 9,5% meðalraunvextir í bönkum, af verðtryggðum skuldabréfum 8,2%. Hér erum við að tala um 6% vexti. Þetta fólk fær lánað til 25 ára og þetta mun leysa skammtímaskuldir þess.
    Og ég vil í lokin, virðulegi forseti, ræða hér um afföllin sem fram komu hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og hjá hv. 18. þm. Reykv. Mér finnst gæta verulegs misskilnings þegar verið var að ræða um þessi afföll. Staðreyndin er sú að þeir íbúðakaupendur sem hingað til hafa fengið sína fyrirgreiðslu í gegnum húsbréfakerfið hafa ekki borið þessi afföll. Þeir hafa alls ekki borið þessi afföll vegna þess að þeir skrifa undir fasteignaveðbréf með 5,75% vöxtum. Það eru þeir vextir sem þetta fólk greiðir. Ef íbúðaverð hefði hækkað á þessum tíma, ef þetta fólk sem er að kaupa íbúðirnar hefði þurft að bera þetta í hækkuðu íbúðaverði, þá væri hægt að tala um afföll. En íbúðaverð hefur ekki hækkað vegna þess að seljendur fá greiðslu fyrir sínar íbúðir á tiltölulega skömmum tíma, innan við ári oft, sem má heita nánast staðgreiðsla. Þess vegna er ekki rétt hjá hv. þm. að tala um afföll í þessu sambandi. Og af því að ég sé að hv. þm. trúir ekki orðum mínum og hristir höfuðið, þá vil ég bera fyrir mig Morgunblaðið, hans eigið málgagn, sem

hann væntanlega trúir á. Þar kemur fram í fréttaskýringu sem er skrifuð af Þórhalli Jósefssyni, sem mér skilst nú að sé einn af húsnæðisspesíalistum Sjálfstfl., niðurstaða af könnun sem Morgunblaðið hefur látið gera. Þar er verið að bera saman húsbréfin og hefðbundin kjör og afföll í því sambandi, og segir í fyrirsögn, hv. þm., að hér sé um nánast sömu afföll að ræða og verið hefur með hinum hefðbundnu kjörum áður en húsbréfakerfið kom til. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að hv. þm. skilji og þeir sem tala hér hátt um afföll af húsbréfum. Hér er þetta borið saman mjög nákvæmlega og þar er talað um að fólk fékk, áður en húsbréfakerfið kom til, 75% af verði íbúðarinnar borguð út á heilu ári, vaxtalaust, og afganginn fékk seljandinn í handhafaskuldabréfi, óverðtryggðu. Niðurstaðan af þessum samanburði sem Morgunblaðið fékk tvo óskylda aðila til að gera, þ.e. Fasteignamat ríkisins og Landsbréf hf., er athyglisverð. Þessir aðilar komast að nánast sömu niðurstöðu, að núvirði sem seljandi fær vegna íbúðar sem kostar 7 millj. er nánast það sama með hinum hefðbundnu kjörum og með kaupum á húsbréfum. Og það er vegna þess að seljendur fá þetta nánast staðgreitt. Þess vegna hefur þetta ekki kallað á hækkun á fasteignaverði. Þess vegna hafa íbúðarkaupendur ekki þurft að bera þessi afföll. Þess vegna eru þeir vextir sem íbúðakaupendur bera gegnum húsbréfakerfið ekki 7% heldur hafa verið 5,75 og eru í næsta flokki 6%. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að fólk skilji og eins það að þó að vextirnir séu 6% þá er fólk núna í þeirri stöðu sem er að missa sínar eigur að það er með skammtímaskuldir í bönkum sem bera töluvert hærri vexti þannig að þetta fólk hlýtur að vera miklu betur sett ef þetta frv. verður að lögum. Ég tel reyndar ljóst að þetta geti forðað mörgum fjölskyldum frá því að missa íbúðir sínar í gjaldþrot.
    Þetta finnst mér mikilvægt að fram komi og ítreka að það er villandi og ósanngjarnt að bera saman vextina í 86 - kerfinu og í húsbréfakerfinu. Hv. þm. verður að taka með hvaða fyrirgreiðslu fólk fær, hvað hátt lánahlutfallið er í báðum kerfum fyrir sig og hvað mikil skammtímalánin eru sem fólk þarf að leita eftir í bönkum ef fyrirgreiðslan er í gegnum 86 - kerfið. Annars er samanburðurinn villandi og ósanngjarn, hv. þm.
    Í lokin þakka ég fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mál og vænti þess að þetta frv. fái fljóta og góða afgreiðslu hér í hv. deild.