Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fullgildingu samnings um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga á þskj. 153. Það er tilgangur þessa samnings að tryggja sérhverjum manni rétt til einkalífs og verndar á friðhelgi þess gagnvart vélrænni vinnslu persónuupplýsinga um hann. Samningurinn nær einkum til vinnslu upplýsinga milli landa og vinnslu upplýsinga erlendis. Er gert ráð fyrir því að aðildarríki samræmi framkvæmd réttarreglna á þessu sviði. Telja verður að lög um meðferð og skráningu persónuupplýsinga nr. 121/1989 uppfylli skilyrði í samningnum um vernd persónuupplýsinga. Að því er varðar ákvæði samningsins um upplýsingastreymi milli landa er heimild í lögum til að setja reglugerð um þær reglur sem greindar eru í samningnum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að unnt sé að framfylgja þessum samningi hér á landi.
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.