Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 2. þm. Norðurl. e. vil ég taka það fram að það er mikill misskilningur að sjútvrn. hafi verið í forustu fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fiskeldisfyrirtækja eða afurðalána til þeirra. Hitt er svo annað mál að hæstv. forsrh. lagði fram í ríkisstjórn, að því er ég best man, fyrri hluta síðustu viku skýrslu um stöðu fiskeldis í landinu sem tekin var saman af starfsmönnum Framkvæmdasjóðs Íslands eftir því sem ég best veit.
    Í þessari skýrslu kom fram mjög alvarleg staða þessarar greinar og þar kemur skýrt fram að margir fjárfestingarlánasjóðir eiga mikið fé hjá þessum fyrirtækjum. Ég held að það sé alveg ljóst að sumt af þessu fé mun seint innheimtast vegna stöðu greinarinnar og þeirrar arðsemi sem þar hefur verið. Hins vegar eru margir fjárfestingarlánasjóðirnir í þeirri stöðu að þeir telja það þjóna hagsmunum sínum að viðhalda þeim stofnum sem þar eru lifandi og koma þeim annaðhvort í eðlilega sláturstærð eða viðhalda þeim til frekara eldis. Mér er kunnugt um það að margir fjárfestingarlánasjóðanna hafa þurft að endurmeta stöðu sína í því ljósi og telja það samrýmast betur hagsmunum sínum að leggja fram nokkurt fé að láni til þess. Án þess að ég þekki þau dæmi sem hann nefndi hér um Byggðastofnun vænti ég þess að líkt sé farið um þann fjárfestingarlánasjóð sem á verulegt fjármagn útistandandi hjá fiskeldinu.
    Nú er þessum málum ekki þannig háttað, að mínu mati, að þeim verði kippt í lag með frekari afurðalánum eða rekstrarfjármögnun. Vandinn er miklu djúpstæðari en svo og ég sé enga leið aðra en þá að þeir sem hafa lánað fé til þessara framkvæmda og sett fé í þessa atvinnugrein þurfi að vera ábyrgir fyrir því og tel ljóst að þeir muni verða fyrir verulegum skakkaföllum. Það er hins vegar rétt að hæstv. forsrh. lagði það til að skipaður yrði samstarfshópur á vegum nokkurra ráðuneyta til að fara yfir málið og meta stöðuna og taka afstöðu til þeirra tillagna sem komu fram í þessari skýrslu en þar voru ákveðnar tillögur um það sem gera skyldi. Þessi nefnd hefur af skiljanlegum ástæðum ekki enn þá tekið til starfa en ég vænti þess að svo muni verða alveg á næstunni.
    Ekki veit ég hvort þetta svarar spurningum hv. þm. en ég vænti þess að nokkrir molar séu í það sem hann var að leita eftir.