Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það þannig að hægt er að stofna búminjasafn á Hvanneyri á grundvelli gildandi laga, þ.e. laganna um þjóðminjavernd, þjóðminjasafnslaganna. Og því miður er það ekki þannig að það sé trygging fyrir framkvæmd hlutanna að þeir séu í lögum. Það sjáum við kannski best af hinum nýju lögum um Þjóðminjasafn, sem mættu vera alþm. nokkurt umhugsunarefni.
    Það voru alþingismenn sem beittu sér fyrir því að sett voru ný lög um Þjóðminjasafn Íslands og þjóðminjavernd en framkvæmd þeirra mála hefur hins vegar til þessa, og bersýnilega enn um nokkurt skeið, strandað á fyrst og fremst skorti á fjármunum. Með öðrum orðum framkvæmd þessa málaflokks strandar ekki á skorti á lagaákvæðum heldur á skorti á fjármunum. Það hygg ég að sé nú reyndar tilfellið með mörg önnur mál sem koma hér til umræðu á hv. Alþingi.
    Þessi mál, sem varða búminjasafn á Hvanneyri, eru til meðferðar í menntmrn. og ákvarðanir um skipan þeirra mála verða teknar m.a. með hliðsjón af öðrum ákvörðunum, þ.e. í fyrsta lagi um skipulag og framtíðarstöðu sjóminjasafns, sem hafa verið til meðferðar í ráðuneytinu. Við höfum fyrir nokkrum mánuðum óskað eftir því við stjórn Sjóminjasafnsins að fá tillögur um skipan þeirra mála sem varðar vernd sjóminja. Þær tillögur eru enn ekki komnar í ráðuneytið en þeirra mun skammt að bíða.
    Í öðru lagi hefur svo ráðuneytið verið með til meðferðar núna um nokkurt skeið drög að reglum um byggðasöfn. Undirbúningur að setningu þeirra reglna er fyrir nokkru hafin og drög að þessum reglum hafa verið send byggðasöfnunum og nokkrum öðrum söfnum til umsagnar. Það er miðað við að þessar reglur verði settar fyrir árslok. Þegar allt þetta er komið í hús, þ.e. tillögur um sjóminjasafnið og framtíðarskipan þess, tillögur um byggðasöfn og framtíðarskipan þeirra, þá er auðvitað ekkert að vanbúnaði af okkar hálfu að taka ákvörðun um stjórnskipulega stöðu hugsanlegs búminjasafns á Hvanneyri. Hins vegar er rétt að nefna að þjóðminjavörður hefur í sínum umsögnum um þetta mál lagt á það áherslu að það safn sem rætt hefur verið um á Hvanneyri sé í raun og veru frekar landbúnaðartækjasafn en búminjasafn. Ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi þekki vel viðhorf þjóðminjavarðar en þjóðminjavörður skrifaði félmn. Sþ. 26. jan. 1989 í tilefni af þeirri þáltill. sem aftur er tilefni þeirrar fyrirspurnar sem hér er til umræðu. Ég tel þess vegna í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að fara ítarlega yfir nýja greinargerð þjóðminjavarðar um þetta efni en vil bara segja að lokum, virðulegi forseti:
    1. Það er verið að vinna að þessum málum og koma þeim í eðlilegan stjórnskipulegan farveg.
    2. Það að stofna búminjasafn, eða landbúnaðartækjasafn á Hvanneyri hvort heldur sem menn vilja kalla það, mun auðvitað kosta fjármuni og samkvæmt úttekt, sem ég hef látið Þjóðminjasafnið gera, þá kostar það 3 -- 4 starfsmenn í vinnu á ári að því er mér er

tjáð auk rekstrarfjár. Það er talið að kostnaður við rekstur búminjasafns eða landbúnaðartækjasafns á Hvanneyri yrði á bilinu 20 -- 30 millj. kr.
    Þetta er sem sagt svarið um það hvernig að málinu hefur verið unnið í menntmrn. Ég vænti þess að það gefi að svo miklu leyti sem unnt er upplýsingar í samræmi við þá fyrirspurn sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefur hér borið fram.