Lögreglustöðin í Grindavík
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason) :
    Frú forseti. Ég hef á þskj. 148 borið fram fyrirspurn svohljóðandi:
    ,,Hvenær hyggst ráðherra láta bjóða út innréttingar í nýju lögreglustöðina í Grindavík og hvenær er fyrirhugað að ljúka framkvæmdum?``
    Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú að í tvö ár hefur húsnæði sem dómsmrn. keypti fyrir nýja lögreglustöð staðið ónotað en kostnaður við húsnæðið hlaðist upp vegna hita- og rafmagnskostnaðar o.fl. Ástandið í þeirri lögreglustöð sem enn er notuð í dag er slíkt að það er ekki mönnum bjóðandi. Fangagæslum lögreglunnar í Grindavík var lokað að kröfu heilbrigðiseftirlitsins þann 8. nóv. 1989 þar sem ekki þótti við hæfi að vista fanga þar sökum ástands hússins. Lögreglumenn í Grindavík fullyrða að fangageymslurnar líti samt betur út en það húsnæði sem lögreglumennirnir sjálfir starfa í. Nú þurfa lögreglumenn að flytja alla fanga til Keflavíkur, 25 km leið. Oftast er lögreglan í Keflavík fengin til að koma á móti lögreglunni í Grindavík og þurfa lögreglumenn að flytja fangann eða fangana milli lögreglubíla. Þetta er gert til að hafa lögreglumenn frá Grindavík sem stystan tíma í burtu því Grindavík er löggæslulaus á meðan á þessum fangaflutningum stendur.
    Lögreglumenn og fangar eru oft í mikilli hættu þegar flytja þarf fanga milli bíla þar sem fangar eru oftast í misjöfnu ástandi þegar færa á þá í fangageymslur og hrein tilviljun að ekki hefur hlotist slys af.
    Vinnueftirlit ríkisins hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við vinnuaðstöðu og aðbúnað á gömlu lögreglustöðinni. Þær athugasemdir eru í tólf liðum. Þessi úttekt var gerð árið 1988 og þess krafist að lagðar verði fram tímasettar áætlanir um fullnægjandi úrbætur á árinu 1989. Þessu hefur ekki verið sinnt þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu. Viðhald á núverandi lögreglustöð hefur ekkert verið í tvö ár. Hún hefur drabbast niður og eins og ég sagði áðan er aðstaðan ekki mönnum bjóðandi.
    Heilbrigðiseftirlit hefur einnig krafist úrbóta. Því hefur heldur ekki verið sinnt þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu.
    Það má geta þess sem eins af atriðunum að það er sprunga í gólfi stöðvarinnar. Þaðan leggur þvílíkan óþef að með ólíkindum er. Slíkur þefur er vafalaust alltaf af upphituðu skolpi. Að slíkt skuli viðgangast í opinberri stofnun er með ólíkindum, bæði hvað varðar starfsmenn og þá sem þjónustu þurfa að sækja hjá lögreglunni. Ég ásaka ekki dómsmrh. því ég veit að hann hefur barist fyrir fjárveitingum í umrætt verkefni, en ég játa að mér hefur þótt seint ganga. Það er með ólíkindum að þegar um er að ræða neyðartilfelli, eins og hér er um rætt, skuli ekki mögulegt að sinna málum fyrr og bregðast skjótar við. Ég veit að fjárveitingar hafa verið tryggðar og þess vegna ber ég fram fyrrgreinda fyrirspurn.