Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Þetta er að verða þó nokkur umræða um þetta mál sem við erum sammála um að sé nú ekki mjög stórt mál, en þó að mati þeirra sem hér hafa tekið þátt í umræðunni mjög þarft. En umræðan hefur snúist svolítið á þann veg, og ég leiddi hana kannski þangað, að ræða um meðferð málsins hér á hv. Alþingi þegar nýju bifreiðaskráningarlögin voru samþykkt. M.a. er uppi fullyrðing frá hv. 3. þm. Vesturl. um að þeir sem töldu þessa breytingu ekki af hinu góða hafi verið þeir bíleigendur sem voru með lág númer. Einn stendur hér núna í ræðustól með lágt númer og andæfði gegn þessari breytingu. En ég marglýsti því yfir og ég tel að það hafi verið skoðun flestra þingmanna að númerstalan skipti engu máli í sambandi við þá umræðu og andstöðu okkar. Ég geri það enn, jafnvel þó að hv. þm. Eiður Guðnason brosi út af þessari fullyrðingu. Mér væri alveg sama hvort fyrir framan töluna 43, sem er á mínum bíl, bættust 2 -- 3 tölur ef ég aðeins fengi að halda P - merkinu mínu. Og um það er verið að fjalla hér. Það er verið að fara fram á það að við fáum að merkja bílana okkar út frá heimasvæði og ég heyri ekki betur en hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu taki mjög undir þetta.
    Ég hef ekki verið haldinn neinum vandræðum með það að leggja saman tölur á bílnúmerum eða leita að þversummu eða slíku. Ég hef fyrst og fremst litið á bókstafinn og merkið, sýslumerki bifreiðanna þegar ég hef verið að huga að því hvaðan bílar koma.
    Sá þáttur umræðunnar hér að við sem værum andstæð þessum málum værum að berjast fyrir lágu númerunum okkar færði þessa umræðu niður í svolitla lágkúru. Menn voru ekki að ræða um þessa hluti, menn voru að ræða um merkingu bílanna út frá byggðum og svæðum. Í sambandi við skjaldarmerkið tel ég að hv. flm. hafi aðeins misskilið það sem ég sagði. Ég tel að skjaldarmerkin séu algerlega óþörf og eigi að falla niður. Það þarf mikið á sig að leggja eins og ég sagði. Við mundum bara alveg hætta að horfa á veginn, sem hv. þm. Eiður Guðnason benti á að við ættum fyrst og fremst að horfa á en ekki númerin, ef þessi skjaldarmerki eiga að fá að vera á bílnúmerunum og menn séu að leita eftir því hver þau eru. Ég er alveg viss um að það er þó nokkur slysahætta í því að hafa þessi skjaldarmerki og það mundi minnka þá hættu að hverfa frá þeim og koma með fulla stærð bókstafs í staðinn.
    Það má náttúrlega halda þessari umræðu heilmikið áfram, ég veit ekki hvað ég á að nefna fleira. Ég tek undir það sem nefnt var hér af flm. og hv. 3. þm. Vesturl. að það er náttúrlega alveg fráleitt ef einhverjir einstakir menn, kannski þar í hópi þingmenn, hafa möguleika til þess að velja sér sérstök númer úr þessu tölvuvædda skráningarkerfi sem við búum við núna. Og mér finnst það líka alveg fráleit hugmynd að einhverjir sem hafa nóga peninga geti keypt sér sérnúmer. Mér finnst það jafnfráleitt. Þetta á að vera jafnt fyrir alla og menn eiga að ganga inn í þetta kerfi sem jafningjar, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir.
    Um kostnaðinn má vitaskuld lengi deila. Ég er á þeirri skoðun að það hafi ekki verið staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar voru í sambandi við þessa breytingu þegar talað var um að kostnaður mundi minnka. Í mínum huga eru nú hlutirnir á þann veg að þegar tæknin eykst og fullkomnari tæki koma til hverrar vinnu sem er þá megi búast við því að kostnaðurinn minnki en aukist ekki. Það getur tekið ákveðinn tíma að borga niður ný tæki, en það á að gera sér grein fyrir því að tæknin hlýtur alltaf að vera á þann veg að hægt sé að gera hlutina á ódýrari máta en gert var áður þegar ekki var hægt að beita tækninni. Hver skoðun tekur mikið styttri tíma við þær aðstæður sem núna er boðið upp á. Það liggja miklu minni vinnulaun á bak við hverja skoðun en áður var vegna tækninnar og það ætti að koma út á þann máta að kostnaðurinn yrði minni. Það er hægt að deila um það hvort þessi þjónusta er þess virði sem hún er verðlögð á. Ef hún hefur verið dýr þegar gamla aðstaðan var notuð þá held ég að hún sé dýr enn þá.
    Fyrst hæstv. dómsmrh. er mættur og undir hann heyrir þetta málefni sem við erum að fjalla um hér, þá væri ekki úr vegi að spyrja hæstv. dómsmrh. hvaða áætlanir séu uppi um það að byggja fleiri skoðunarstöðvar eins og um var rætt þegar þessi lög voru samþykkt hér á hv. Alþingi. Megum við vænta þess að skoðunarstöðvar í líkingu við þá sem hér er risin í Reykjavík, og við höfum verið að hæla hver sem betur getur hér hv. þm., rísi innan tíðar í öðrum kjördæmum?