Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst örfá orð um þá tillögu sem hér er til umfjöllunar. Ég held að hún sé allra góðra gjalda verð og vil fyrir minn hlut taka undir hana. Ég held að það væri til bóta ef menn fengju þá breytingu sem hún gerir ráð fyrir þrátt fyrir hugsanlega tilfinningasemi sem að baki býr.
    En ég kveð mér aðallega hljóðs til þess að svara fyrirspurn sem hér kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. um það hvaða áætlanir væru uppi um hinar nýju skoðunarstöðvar. Það er rétt sem hér hefur komið fram að skoðunarstöðin hér í Reykjavík er mikil og góð nýjung og ég held að það fari ekkert á milli mála að í starfsemi hennar þann stutta tíma sem hún hefur starfað er um að ræða markverðar nýjungar til bóta.
    Næst er áformað að slík stöð rísi á Akureyri og þegar er búið að fá lóð undir slíka stöð fyrir austan fjall, á Selfossi. Ég held að eins og málin horfa núna séu þetta þær ákvarðanir sem þegar er búið að taka á þessum vettvangi.