Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að hér er ekki tími til langrar umræðu um þetta efni þó að vert væri. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur umræðuna sökum anna í fjvn. en ég vil ekki láta hjá líða að lýsa eindregnum stuðningi mínum við þessa tillögu, a.m.k. að þessi mál verði athuguð rækilega.
    Það má vel vera að skoðunin sjálf sé í allgóðu lagi víða hvar við þær reglur sem nú ríkja ef reglur skyldi kalla. Þessi mál eru öll í meira og minna ólestri og eru dæmi um aðgerðir af hálfu Alþingis þar sem eru gerðar breytingar breytinganna vegna. Ég álít að svo hafi verið þegar sú samþykkt var gerð að leggja niður Bifreiðaeftirlitið í þeirri mynd sem það var og setja þær reglur sem nú gilda um einkennisbókstafi skráningarsvæða. Það hefur verið hrapað mjög að málunum, enda var ég ekki á landinu þegar þetta var gert. En ég vil ekki taka tímann frá Alþingi til þess að ræða þetta í einstökum atriðum. Ég endurtek það að ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við þessa tillögu. Hér er þörf á úrbótum til að ráða fram úr því ófremdarástandi sem ríkir í þessum málum.