Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir efni þessarar þáltill., tel hana hreyfa mjög merku máli. Ég veit að að baki hennar liggur mikil vinna þeirrar nefndar sem undirbjó hana og þau markmið sem fram eru sett eru mjög ítarleg. Ég átti þess kost að sitja ferðamálaráðstefnu í fyrravetur þar sem drög að þessari till. voru til umræðu og menn luku þar einum munni upp um þetta. Hér er fjallað um atvinnugrein sem er í vexti og mér er fullkunnugt um það að ef þessi atvinnugrein væri ekki fyrir hendi væri mjög mikið þrengra um á vinnumarkaðnum, t.d. yfir sumarmánuðina. Það er reynslan úr mínum landshluta þar sem ferðaþjónustan er farin að skipta verulegu máli í atvinnulífinu. Það er þróun sem hefur skeð á síðasta áratug. Áður var ferðaþjónustan minni háttar en hún hefur vaxið og er farin að skipta verulegu máli. En sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist á er auðvitað landið okkar og það er náttúrlega fyrsta boðorðið að varðveita það sem best þannig að það sé aðlaðandi fyrir ferðamenn. Eigi að síður var það erindi mitt í þessa umræðu að benda á að við þurfum að tengja ferðaþjónustuna betur en gert hefur verið atvinnulífinu í landinu. Hv. 2. þm. Vestf. tók að nokkru leyti af mér ómakið og minntist á þetta. Mér er kunnugt um að víða erlendis eru atvinnufyrirtæki og sérstæð atvinnustarfsemi aðdráttarafl fyrir ferðamenn. En við höfum lítið farið inn á þessa braut enn þá. Við höfum afar sérstætt atvinnulíf hér miðað við iðnaðarþjóðir Evrópu. Við höfum atvinnulíf sem er í nánum tengslum við náttúru landsins og náttúrufar. Ég vil t.d. benda sérstaklega á sjávarútveginn í þessu efni, hvort það sé mögulegt að tengja sjávarútveginn betur ferðamennskunni. Ég er viss um að ferðamenn hafa áhuga fyrir að kynnast þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar. Ég vildi undirstrika þetta alveg sérstaklega og reyndar hefur verið komið inn á þetta í umræðunni.
    Það hefur verið bent á það einnig hér í þessari umræðu að ferðamennskan, hv. 4. þm. Vesturl. benti á það, væri bundin mjög mikið við suðvesturhornið. Ég hygg að þetta sé nú allmikið að breytast og það sé a.m.k. um háannatímann veruleg umferð víðar. En eigi að síður koma flestir ferðamenn sem koma hingað með flugi til Keflavíkur og gera út héðan.
    Það er náttúrlega alveg grundvallaratriði í þessu sambandi að fjölga flugvöllum úti á landi sem geta tekið á móti beinu leiguflugi, eins og var byrjað á á Akureyrarflugvelli sl. sumar. Ég held að fyrir erlenda ferðamenn sem koma hingað í heimsókn sé það ekkert sáluhjálparatriði að koma inn í landið hér á suðvesturhorninu, nema síður sé. Þeir vilja alveg eins gera út einhvers staðar annars staðar frá. Sú uppbygging sem verið hefur í flugvallamálum styður þetta. Og það er grundvallaratriði að henni verði haldið til streitu. Það mál er í réttum farvegi og ég vil undirstrika það í þessari umræðu í sambandi við ferðamál að eftir því sem ferðamenn koma víðar inn í landið þá jafnast álagið. Álagið af ferðamönnum jafnast einnig við það að beina ferðamönnunum að

fleiri stöðum og beina þeim að atvinnulífi landsmanna. Það er óneitanlega svo að auglýsingastarfsemi um Ísland hefur mikið beinst að hálendi landsins og ferðamenn sækja mikið inn til miðhálendisins á álagsstaði sem kannski þola ekki nema takmarkaðan hóp ferðamanna.
    Það mætti auðvitað tala langt mál um ferðamálin í landinu. Þar er af nógu að taka. En ég ætla ekki að lengja mál mitt. Það hefur verið rætt hér að verðlagið í landinu sé hemill á aðdráttarafl landsins fyrir ferðamenn. Auðvitað er það mest áríðandi að halda okkar efnahagslífi í jafnvægi, bæði matarverði og öðru verðlagi, þannig að menn muni það ekki helst frá heimsóknum sínum hingað að hér er hátt verðlag og breytilegt verð. Jafnvægi í efnahagsmálum er náttúrlega lífsnauðsyn fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er mjög viðkvæm, t.d. fyrir breytilegu gengi og sveiflum í verðlagi. Framtíð ferðaþjónustunnar tengist þess vegna mjög almennum málum hér heima, bæði uppbyggingu vegakerfis, flugmála og annarra slíkra þátta og efnahagslífinu almennt.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu öllu frekar. Ég tek undir efni till. og tel hana byggða á mjög vandaðri og góðri vinnu. Hún setur reyndar mjög almenn en þó ákveðin markmið í ferðaþjónustunni. Og ég vil hvetja til þess að hún fái hér vandaða meðferð og allra síst að hún komi í pólitíska umræðu í einhverjum hálfkæringi. Hér er mál á ferðinni sem er auðvelt fyrir alla að sameinast um hvar í flokki sem menn standa. Þetta er framtíðarmál og þetta er atvinnugrein sem á áreiðanlega framtíð fyrir sér hér á landi. Hún er þó viðkvæm og það verður að halda rétt á henni ef vel á að fara.