Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Efni
þessarar þáltill. er tvíþætt: Í fyrsta lagi að fram fari könnun á lögum og reglum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins um heimildir til fjárveitinga og samgöngubóta sem rökstyðja mætti með nauðsyn varnarkerfis landsins og í annan stað hvort fordæmi væru fyrir fjárveitingum í öðrum bandalagsríkjum til samgöngukerfa þeirra landa. Af þessu tilefni vildi ég gjarnan taka fram eftirfarandi:
    Íslendingar hafa ekki gerst aðilar að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins og hafa að því leyti sérstöðu meðal aðildarríkjanna. Ég hef áður að gefnu tilefni upplýst hvaða kvaðir það fæli í sér ef við gerðumst aðilar. Framlög aðildarríkja miðast við þjóðartekjur og fólksfjölda. Ef Ísland gerðist fullgildur aðili að sjóðnum mætti búast við að hlutfall Íslands í heildarframlögum til sameiginlegs hluta hans yrði um 0,185% eða svipað hlutfall og t.d. Lúxemborg greiðir. Heildarframlög eru reiknuð með tilliti til framkvæmda hverju sinni.
    Áætlanir Mannvirkjasjóðsins taka að jafnaði til sex ára í senn og er framkvæmdum skipt í flokka eftir tegundum mannvirkja. Áætlanir hafa að sjálfsögðu þegar verið gerðar fyrir tímabilið 1985 -- 1990 í þeim flokki framkvæmda sem varðar Ísland. Væri gert ráð fyrir því að hlutdeild Íslands í sameiginlegum kostnaði af þessum framkvæmdum yrði 0,185% eins og áður sagði, þá þýddi það að framlag Íslands til Mannvirkjasjóðsins ætti að nema 38 millj. ísl. kr. á ári eða 226 millj. á sex ára tímabili.
    Gerðist Ísland fullgildur aðili að Mannvirkjasjóðnum hefði það í för með sér að Ísland, en ekki Bandaríkin eins og nú er, yrði opinbert gistiland framkvæmda af hálfu sjóðsins hér á landi. Við slíkar aðstæður þyrfti að semja í hverju einstöku tilviki um skiptingu kostnaðar milli Íslands og Mannvirkjasjóðsins og kæmi sá kostnaður til viðbótar framlögum til sameiginlegs hluta sjóðsins. Engin algild hlutfallsregla á við í þessu efni. Mannvirkjasjóðurinn hefur t.d. út frá spurningunni um fordæmi greitt að fullu fyrir byggingu flugvalla Atlantshafsbandalagsins í afskekktum byggðarlögum Noregs, mannvirkja sem ekki þjóna almennri flugumferð nema þá að mjög takmörkuðu leyti.
    Á hinn bóginn hafa önnur ríki, þar á meðal t.d. Ítalía og Danmörk, tekið á sig að greiða nokkurn hluta kostnaðar vegna byggingar flugvalla bandalagsins í þessum löndum, flugvalla sem jafnframt hafa þjónað almennri flugumferð. Ýmis óbeinn kostnaður mundi bætast við beinan kostnað vegna sameiginlegs hluta sjóðsins og hugsanlegra framkvæmda á Íslandi. Aðild að sjóðnum fylgir m.a. sú kvöð að taka þátt í störfum mannvirkjasjóðsnefndar og fjárhags - og þróunarnefndar, en þessar nefndir fást við langtímaáætlanir Mannvirkjasjóðsins og taka afstöðu til einstakra framkvæmda. Þátttaka í slíkri starfsemi mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér aukin umsvif og kostnað fyrir utanrrn.

    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að varnir hernaðarlega mikilvægra staða á Íslandi verði tryggðar með samgöngubótum á borð við það sem þáltill. gerir ráð fyrir og þess vegna ekkert á móti því að fram fari könnun af því tagi sem hér er farið fram á. Það er mat manna að ef slík könnun yrði sett af stað fljótlega mætti búast við því að niðurstöður hennar gætu legið fyrir við þinglausnir í vor. Hitt ber svo að hafa í huga að vegna þeirra sögulegu breytinga sem átt hafa sér stað í Evrópu á undanförnum missirum, þá eru allar fjárveitingar úr Mannvirkjasjóði í heildarendurskoðun. Á þessari stundu er ekki talið líklegt að fé fáist úr sjóðnum til annars en viðhalds á þeim mannvirkjum sem þegar eru fyrir hendi og er skemmst að minnast breyttrar stefnu af hálfu Atlantshafsbandalagsins og stjórnar Mannvirkjasjóðs, t.d. varðandi áformin um byggingu varaflugvallar fyrir Norður - Atlantshafssvæðið á Íslandi eða Grænlandi eins og áform voru uppi um, en þau hafa nú verið lögð á hilluna um ófyrirsjáanlegan tíma. Eins og ég segi, ef slík könnun færi fram þá má búast við því að niðurstöður gætu legið fyrir svona um þinglausnir en fyrir fram væri ekki ástæða til að ætla að sú könnun leiddi í ljós að við gætum vænt stórra framlaga að óbreyttum aðstæðum þótt við gerðumst aðilar.