Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. í tveimur liðum á þskj. 213. Þau efnisatriði sem þar koma fram eru gamalkunnug, voru reyndar til umræðu þegar fjáraukalög á fyrri hluta þessa árs voru hér til umræðu á hv. Alþingi. Þá kallaði ég samsvarandi tillögur aftur að ósk hæstv. iðnrh. sem sagðist vera að vinna að málinu í hæstv. ríkisstjórn.
    Ég vil fyrst gera grein fyrir þessum tillögum. Í fyrsta lagi er um það að ræða að breyta tekjulið fjárlaga úr 500 millj. kr. í 960 millj. kr. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er sú að þegar fjárlög voru til lokaafgreiðslu á síðasta þingi var samþykkt í tekjuáætlun að jöfnunargjald gæfi ríkissjóði 500 millj. kr. á yfirstandandi ári. Sú skýring var gefin að sú upphæð jafngilti hálfu jöfnunargjaldi. Síðar hefur hæstv. iðnrh. gefið þá skýringu að samþykkt Alþingis við lokaafgreiðslu fjárlaga hafi verið við það miðuð að jöfnunargjaldið yrði innheimt í hálft ár, þ.e. frá 1. jan. til 30. júní á yfirstandandi ári.
    Um þetta urðu miklar umræður á síðasta þingi þegar ég benti á að til þess að tekjuáætlunin stæðist yrði að breyta lögum. Ég mun síðar í ræðu minni víkja að því hvernig þau mál þróuðust og hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur æ ofan í æ í þessu máli farið gegn sínum fyrri yfirlýsingum.
    Með þessari fyrri brtt. er ég einungis að fara fram á það að hv. Alþingi samþykki það sem nú er orðinn hlutur, að jöfnunargjaldið gefi 960 millj. kr. Sú tala er fengin úr fjárlagafrv. fyrir næsta ár og er að sjálfsögðu áætluð tala en er sú tala sem fjmrn. gefur upp sem þá upphæð sem næst inn, verði jöfnunargjaldið innheimt allt þetta ár, jöfnunargjald upp á 5%.
    Með þessari tillögugerð er ég ekki að sætta mig við það að hæstv. ríkisstjórn hafi gengið á bak orða sinna og ákveðið að innheimta þetta gjald helmingi lengur en til stóð. Ég er að koma í veg fyrir það með þessari tillögugerð að það sé hægt í framtíðinni að nota fordæmi hæstv. ríkisstjórnar, að það sé hægt í framtíðinni að segja Alþingi ósatt þegar verið er að gera tekjuáætlun fyrir ríkissjóð og þegar líða tekur á árið að standa þá ekki við þær áætlanir sem Alþingi samþykkti í upphafi.
    Í örstuttu máli má segja að með fyrri tillögunni á þskj. 213 sé einungis verið að gefa hv. Alþingi tækifæri til þess að samþykkja þá tekjuáætlun sem farið hefur verið eftir en ekki þá tekjuáætlun sem gefin var upp fyrir ári síðan þegar fjárlagafrv. var til umræðu. Þá var sagt: Hæstv. ríkisstjórn ætlar aðeins að innheimta jöfnunargjald í hálft ár. Nú er ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlar að innheimta jöfnunargjaldið allt árið og þess vegna ber hv. Alþingi auðvitað að breyta tekjuáætlun fjárlaga til samræmis við það.
    Þessi tillaga er því flutt til staðfestingar því að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að fara út fyrir það sem hv. Alþingi samþykkti á sínum tíma og gefa hæstv. ríkisstjórn, og þá einkum og sér í lagi hæstv. fjmrh., tækifæri til þess að koma í ræðustól og biðjast afsökunar á því að hafa sagt Alþingi rangt til um

það hvernig standa skuli að tekjuáætlun fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári.
    Kannski þykir mörgum hv. alþingismönnum ekki merkilegt, menn eru orðnir svo vanir því að hæstv. ríkisstjórn umgangist Alþingi með þeim hætti að ekki sé ætlast til þess að tekið sé mark á hæstv. ríkisstjórn. En hér er þó a.m.k. gerð tilraun til þess að hv. Alþingi fái tækifæri til að samþykkja nýja tekjuáætlun sem byggir á þeim staðreyndum sem nú liggja fyrir en þær eru að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að
efna ekki loforð sitt um að hætta innheimtu gjaldsins á miðju ári heldur hefur hún kosið að halda áfram að heimta inn gjaldið. Að þessu máli víkur fyrri hluti till. Um síðari hlutann gegnir öðru máli þótt þessar tvær till. eigi sömu rætur. Með síðari hluta till. er verið að leggja til að ríkissjóður endurgreiði 200 millj. kr. vegna þess uppsafnaða söluskatts sem varð til í iðnfyrirtækjum á sl. ári.
    Mörg undanfarin ár hefur það gerst að íslenska ríkið hefur innheimt jöfnunargjald og greitt aftur til iðnaðarins upphæð sem svarar til þess söluskatts sem hefur verið greiddur ofan á söluskatt og aðra skatta í rekstri iðnfyrirtækjanna. Sl. haust lofaði ríkisstjórnin því að þessi uppsafnaði söluskattur yrði endurgreiddur. Ég endurtek, hæstv. ríkisstjórn lofaði því, og það loforð átti að efna með fjáraukalögum sem voru til umræðu á hv. Alþingi fyrir nákvæmlega ári síðan. Þá samþykkti Alþingi aukafjárveitingar til þess að standa undir greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti, annars vegar til iðnaðarins og hins vegar til sjávarútvegsins. Þegar kom fram á þetta ár varð ljóst að talsvert vantaði á að ríkið ætlaði sér að standa við endurgreiðslurnar. Strax í marsmánuði varð ljóst að þessar greiðslur hlytu að verða 170 millj. En þegar upp var staðið og reikningar fyrirtækjanna lágu fyrir er ljóst að þessi upphæð er a.m.k. 190 millj. og jafnvel nær 200 millj. þó ekki sé tekið tillit til vaxta í því dæmi.
    Í umræðum á síðasta þingi, nánar tiltekið þegar rætt var um fjáraukalög á sl. vori, var þetta mál til umræðu. Þá lagði ég fram samsvarandi till. en kallaði hana aftur vegna þess að hæstv. iðnrh. sagðist vera að vinna að þessu máli í hæstv. ríkisstjórn. Hann sagði að á haustþinginu mundi verða lagt fram frv. til fjáraukalaga þar sem séð yrði fyrir þessari endurgreiðslu. Það hefur nú verið gert með þeim hætti að einungis á að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt samkvæmt reikningum fyrirtækjanna til 1. des. Þegar spurt er að því hvernig á því standi að sleppa eigi desember, sem aldrei hefur gerst fyrr í iðnaðinum, er sagt að ekki sé ástæða til þess að endurgreiða þennan uppsafnaða söluskatt í sjávarútvegi og iðnaði öllu lengur.
    Með slíkum svörum er verið að gefa í skyn að sömu reglur eigi að gilda um sjávarútveginn og iðnaðinn, en því fer víðs fjarri. Allt frá 1979 hefur uppsafnaður söluskattur verið endurgreiddur til iðnaðarins, samkvæmt fyrirliggjandi reikningum iðnfyrirtækja. Allir vita að það eru fáein ár síðan að sjávarútvegurinn fékk uppsafnaðan söluskatt greiddan og það er ekki gert samkvæmt reikningum fyrirtækjanna heldur samkvæmt allt annarri formúlu. Þess vegna á sú

söluskattsendurgreiðsla ekkert skylt við endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts í iðnaði. Á þetta vil ég leggja áherslu vegna þess að það er bókstaflega gefið í skyn að sömu reglur eigi að gilda um báðar greinarnar.
    Allt frá árinu 1981 til ársins 1989 má segja að þriðjungur, helmingur og allt upp í 60% af jöfnunargjaldinu sem innheimt var hafi gengið til þess að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í greininni. Nú gerist það á yfirstandandi ári, og það er kannski mjög athygli vert fyrir þá sem hafa áhuga á því hvernig komið er fram við atvinnulífið í landinu, að gert er ráð fyrir því að 500 millj. kr. innheimtist af jöfnunargjaldi en ekkert fari í endurgreiðslu vegna uppsafnaðs söluskatts. Þegar árinu lýkur stendur dæmið þannig að 960 millj. kr. verða innheimtar, vegna þess að hæstv. ríkisstjórn sveikst um að leggja fram frv. til að leggja af jöfnunargjaldið, en aðeins 160 millj. kr. verða endurgreiddar vegna uppsafnaðs söluskatts ef brtt. meiri hl. fjvn. verður samþykkt. Þar er gert ráð fyrir 10 millj. kr. hækkun, þ.e. að endurgreiðslan verði ekki 150 millj. kr. heldur 160 millj. kr. vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt það að upphæðin til 1. des. er 160 millj. kr. en ekki 150 millj. kr.
    Þá kem ég að einum þætti þessa máls sem fáir hafa gefið gaum en hann er sá að mörg þeirra fyrirtækja sem eiga inni og hafa átt inni þessa fjármuni hjá ríkinu mánuðum saman eiga síðan að fá endurgreiðsluna án vaxta. Þetta eru fyrirtæki í útflutningsiðnaði, fyrirtæki í málmiðnaði og mörg þessara fyrirtækja hafa verið í greiðsluvandræðum, þar á meðal hafa þau ekki öll getað staðið skil á greiðslum til ríkisins. Ríkissjóður hefur tekið fulla dráttarvexti af þeim greiðslum en þessi fyrirtæki hafa enga möguleika á því að skuldajafna þó það hafi verið gert um áratug og þyki sjálfsagt að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt.
    Þannig kemur hæstv. ríkisstjórn, þannig koma hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh., þeir tveir menn sem bera mesta ábyrgð á þessu, fram við atvinnulífið í þessum greinum.
    Fyrir hv. Alþingi liggja nú tvö frv. til laga um jöfnunargjald. Annað frv. er þingmannafrv. sem sá flytur sem hér stendur, hitt frv. er stjórnarfrv. sem gerir ráð fyrir því að gjaldið skuli lækkað frá 1. jan. nk. úr 5% í 4% og lækka síðan niður í 2% frá 1. júlí 1991 og leggjast af í lok ársins. Ef það frv. verður samþykkt stenst tekjuáætlun fjárlaga um 700 millj. kr. innheimtu á jöfnunargjaldi hér um bil. En hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til þess að skýra Alþingi frá því a.m.k. að gert er ráð fyrir því, ef ég veit rétt, í þjóðarsáttarsamningaaukanum að þessi innheimta lækki um 300 millj. kr. Þess vegna þarf strax við 1. umr. málsins, ef þetta er rétt, að lækka eða breyta frv. hæstv. ríkisstjórnar. Ef þetta er rangt sem mér sýnist --- ég segi nú ekki heyrist, á hæstv. ráðherra þegar hann hristir höfuðið --- ef þetta er rangt sem mér sýnist á hæstv. ráðherra þá held ég að hann þurfi að koma hér í þessari umræðu og gera grein fyrir sínu máli. Kannski væri ekki úr vegi að hæstv. ráðherra gerði í leiðinni grein fyrir því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að efna sinn þátt í þjóðarsáttarviðaukanum sem varð til um daginn, og þá sérstaklega þann þátt sem snýr að skattamálunum. En eins og öllum hlýtur að vera ljóst eru ríkissjóði settar þröngar skorður og kemur að sjálfsögðu ekki til greina að skattheimtan verði aukin vegna þess að ætlast verður til að hæstv. ríkisstjórn standi við sinn hluta þjóðarsáttarinnar.
    Í hinu frv., þingmannafrv. sem ég á eftir að mæla fyrir og þarf þess vegna ekki að flytja langt mál um það sem þar stendur, er málið rakið sögulega. Það er ekki hægt að bera neinar brigður á það sem þar kemur fram enda er það að mestu leyti haft eftir viðkomandi hæstv. ráðherrum. Þar er m.a. sagt frá því að þegar hæstv. ríkisstjórn stóð að gerð kjarasamninga á miðju ári 1989, nánar tiltekið í lok aprílmánaðar, skrifaði hæstv. forsrh. í nafni ríkisstjórnarinnar bréf til vinnuveitenda. Þar sagði orðrétt: ,,Jöfnunargjald af innfluttum vörum verði hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda.`` Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstjórn lofaði því að fella jöfnunargjaldið niður við upphaf þessa árs, sveik það að sjálfsögðu, það þykja nú ekki fréttir, lagði til að 500 millj. kr. mundu heimtast inn á þessu ári, sveik það að sjálfsögðu og heimti inn 1.000 millj. kr. Þá var sagt að þetta yrði bara þetta ár. Nú eru það 700 millj. kr. sem á að heimta inn á næsta ári. Mér er sagt að það eigi að lækka þær niður í 400 millj. kr. en ég yrði ekki hissa þótt hæstv. ráðherra stæði hér upp og segðist líka ætla að svíkja það.
    Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. fjmrh., og tel það vera hollt fyrir hæstv. ráðherra að hlýða á þetta vegna þess að það er hollt fyrir hann að læra af eigin mistökum og hann má ekki reyna að flýja það því þetta eru staðreyndir sem munu aldrei flýja hæstv. ráðherra þannig að ráðherra getur ekki flúið þær, þá var gert ráð fyrir því þegar virðisaukaskatturinn var lagður á að hann næði inn tekjum sem jöfnunargjaldið hafði áður útvegað ríkissjóði. En hæstv. fjmrh., sem gjarnan er kallaður ,,skattmann`` meðal almennings í landinu, sá auðvitað við saklausum almúganum og dró nýjar kanínur upp úr sínum hatti. Ein var sú að ná í auknar tekjur með svikum af þessu tagi. Með öðrum orðum, að auk peninga sem náð var inn með virðisaukaskattinum var þeim líka náð inn með jöfnunargjaldinu. Og ekki nóg með það heldur var það ætíð í huga hæstv. ráðherra að ná inn helmingi meiri tekjum en hann sagði Alþingi að hann mundi ætla að ná í fyrir u.þ.b. ári síðan.
    Auðvitað hlýtur maður að spyrja: Er hægt að treysta svona mönnum til nokkurs hlutar? Svar mitt er augljóst. Það er auðvitað nei. En ég hygg að það sé hollt samt sem áður, þó það sé kannski verið að berja höfðinu við steininn að benda á þessa svikasögu alla, fyrir hæstv. ráðherra að heyra það að þessir hlutir eru ekki gleymdir og hæstv. ráðherra kemst ekkert hjá því að þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum.
    Ég tel, virðulegur forseti, það lágmarksskilyrði að hv. Alþingi sjái til þess að hæstv. ríkisstjórn standi

við það loforð sem hún gaf iðnaðinum á sínum tíma, að uppsafnaður söluskattur skuli endurgreiddur til greinarinnar vegna framleiðslu ársins 1989. Og það gengur engan veginn að hæstv. ríkisstjórn ætli nú að svíkja þessar greiðslur um einn mánuð, þ.e. því sem nemur framleiðslu í desembermánuði sl. Þarna vantar u.þ.b. 40 millj. kr. á og ég skora á hæstv. ráðherra og hv. meiri hluta, sem hér fer með völd á Alþingi, að endurskoða afstöðu sína og koma til móts --- ekki við kröfur iðnaðarins, eins og segir í meirihlutaálitinu, heldur við rétt iðnaðarins til að fá þessar endurgreiðslur enda var alltaf gert ráð fyrir því þegar lögin um jöfnunargjald voru sett að hluti af því fjármagni sem heimtist inn með jöfnunargjaldinu rynni til iðnþróunar. Það hefur ætíð verið gert með þeim hætti að greiða fyrirtækjum til baka uppsafnaðan söluskatt eftir reikningi. Þess heldur þarf hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn sem hana styður enn þá, þeim fer nú fækkandi a.m.k. í ýmsum málum, að standa við þetta og að sjá til þess að þetta sé gert þegar það er haft í huga að hæstv. ríkisstjórn fær helmingi meiri tekjur, tvisvar sinnum meiri tekjur, af jöfnunargjaldinu í ár en hæstv. ráðherra ætlaði sér að ná inn á yfirstandandi ári. Við erum þess vegna aðeins að tala um örlítið brot af þessum tekjum sem eigi að ganga til baka. Er ég þá ekki að minnast á allt það óréttlæti sem felst í því að ekki er hægt að skuldajafna þessum rétti fyrirtækjanna og vangreiddum gjöldum sem fyrirtækin eiga að standa skil á til opinberra aðila og er auðvitað sjálfsagt að fyrirtækin greiði.
    Ég vona, virðulegur forseti, að þessi sjónarmið hafi komið skýrt fram. Ég veit að þetta mál verður frekar til umræðu á næstunni. Ég hef því miður orðið var við það að fjölmiðlar og þeir sem segja frá þingstörfum átta sig ekki á þessu máli. Sjálfsagt finnst ýmsum þetta dálítið flókið. En málið er í hnotskurn þetta: ríkisstjórnin lofar að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við það. Ríkisstjórnin lýsir því yfir á Alþingi að hún ætli að ná inn ákveðnu gjaldi með því að leggja það á tiltekinn tíma ársins en hæstv. ríkisstjórn efnir það að sjálfsögðu ekki heldur heimtir inn gjaldið allt árið og fær 500 millj. kr. til viðbótar því sem áætlað var. En hún tímir samt sem áður ekki að greiða til baka þær 40 millj. kr. sem á vantar vegna framleiðslu í desembermánuði. Ríkisstjórn sem hagar sér þannig gagnvart atvinnulífinu í landinu á auðvitað ekki skilið að njóta nokkurs trausts. Og það kann einmitt að vera skýringin á því hvernig ýmsir stjórnarþingmenn hafa að undanförnu verið að flýja hæstv. ríkisstjórn. Það kann að vera skýringin á því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur leyft sér að koma fram annars vegar við atvinnulífið og hins vegar við launþegana í landinu.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra komi hér í pontu og lýsi stuðningi við þessar till. mínar. Önnur till. er einungis um að leiðrétta fjárlög sem er handvömm hjá hæstv. ráðherra að láta ekki gera þegar ljóst er að hann hefur viljandi áætlað rangt í frv. Það er tæknilegt atriði. Hitt atriðið er spurning um það réttlæti að nota peninga til þess að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt eins og gert hefur verið mörg undanfarin ár.
    Ég ætla að segja það að lokum að ég vona bara að hæstv. ráðherra komi ekki með gömlu ræðuna sína sem hann er búinn að flytja líklega sex sinnum á þessu ári og tvisvar sinnum á síðasta ári, átta sinnum alls ef ég man rétt, um það að hann sé að leggja jöfnunargjaldið á fyrir iðnaðinn vegna þess að í Evrópu eigi sér stað styrkjakerfi til útkjálkahéraða. Einfaldlega vegna þess að
styrkja kerfið til útkjálkahéraða, einfaldlega vegna þess ... ( Fjmrh.: Þetta er fín ræða.) Þetta er fín ræða, segir hæstv. ráðherra, og kallar hér fram í vegna þess að honum þykir alltaf sinn fugl fegurstur. Það má vel vera að honum þyki ræðan fín, en ræðan er svo yfirmáta vitlaus að jafnvel ég, sem er andstæðingur hæstv. ráðherra, þoli vart lengur við að hlusta á slíka vitleysu sem þar kemur fram, vegna þess --- og svo ætla ég að ljúka mínu máli þegar ég er búinn að segja af hverju --- vegna þess að það er ekki hægt að jafna því saman að ef Skotar fá styrk frá London eða úr Evrópu til að lækka vöruverð þar þá sé réttlæti í því fólgið að hæstv. fjmrh. uppi á Íslandi leggi aukna skatta á Íslendinga til að jafna þennan mun. Niðurstaðan verður einfaldlega sú að vöruverð á Íslandi verður enn þá hærra en vöruverð í Glasgow fyrir vikið. Og það er ein af meginskýringunum á því hvers vegna fólk flykkist þangað til þess að kaupa, það er vegna þess að þar er verðið lægra. Ástæðan er sú að hæstv. ráðherra skilur ekki út á hvað þessir hlutir ganga, því miður. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra flytji ekki gömlu, vitlausu ræðuna sína hér þegar hann kemur til að svara þessu.