Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins geta þess vegna tveggja atriða sem komu fram í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, að athugun hefur farið fram á því hvernig hægt sé að bregðast við fjárhagsvanda Leikfélags Akureyrar og viðræður hafa farið fram milli Akureyrarbæjar, menntmrn. og fjmrn. um það atriði. Það mál hefur verið til umfjöllunar í fjvn. og ég vænti þess að það verði hægt að skoða það mál og jafnvel leiða til lykta á næstu dögum. Akureyrarbær hefur lýst sig reiðubúinn að taka þátt í lausn þessa fjárhagsvanda ásamt ríkinu og við ræddum það m.a.
með forsvarsmönnum Akureyrarbæjar, menntmrh. og ég, fyrir skömmu síðan.
    Hitt atriðið var fjárhagsvandi Óperunnar. Hann er mikill. Þar hafa komið fram hugmyndir um það að ríkið og Reykjavíkurborg ásamt einkaaðilum fyndu lausn á fjárhagsvanda Óperunnar. Það mál er skemmra á veg komið vegna þess að hingað til hefur Reykjavíkurborg ekki verið reiðubúin að stíga það skref að taka þátt í rekstrarkostnaði og fjárhagsvanda Óperunnar líkt og gert er með Leikfélag Reykjavíkur og Leikfélag Akureyrar. En margir hafa verið þeirrar skoðunar, eins og m.a. kom fram í leiðara Morgunblaðsins í sumar, að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg, ríkið og einkaaðilar tækju höndum saman um að tryggja fjárhagsgrundvöll Óperunnar. Ríkið hefur fyrir sitt leyti verið reiðubúið til þess og við bíðum eftir svari frá Reykjavíkurborg um það hvort hún er líka reiðubúin að taka þátt í því að leysa fjárhagsvanda Óperunnar. Ég á ekki von á því að svar fáist í því máli fyrir 3. umr. fjáraukalaganna, en vona hins vegar að málefni Leikfélags Akureyrar geti skýrst fyrir þá umræðu.