Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti skal láta fara fram könnun á þessu atriði. Þó minnist forseti eins slíks tilviks en það var þegar hv. 5. þm. Vesturl. tilkynnti hinu háa Alþingi að hann gengi til liðs við annan stjórnmálaflokk. Þegar um er að ræða slík mál hefur verið leyft að þingmenn flyttu hinu háa Alþingi tilkynningar af þessu tagi.
    Ég vona því að hér hafi engin þingsköp verið brotin en vil upplýsa að um þetta atriði er raunverulega ekkert í lögum um þingsköp. Það er einungis minnst á í 29. gr. þingskapalaga að ráðherrar geti gert grein fyrir opinberu málefni munnlega en þá má ekki gera neinar ályktanir. Þetta hefur verið fært yfir á þingmenn einnig í fáeinum tilvikum. En forseta er ljúft og skylt að láta taka saman hversu oft slíkt hefur komið fyrir.