Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það var rétt til getið hjá hv. 4. þm. Vestf., sem rétt í þessu lauk sinni ræðu, að það er tilgangur þessa frv. að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðjunar en ekki að breyta skattalögum eða hafa sérstök áhrif á tekjustofna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða skattlagningu í þeim skilningi. Það er sannarlega rétt.
    Tilgangurinn, og ég vildi leyfa mér að gera þá athugasemd við hina ítarlegu ræðu hv. 4. þm. Vesturl., með frv. er í fyrsta lagi að setja sömu skilyrði og gilda um önnur atvinnufyrirtæki fyrir þetta ágæta atvinnufyrirtæki. Í öðru lagi að auka sveigjanleika í starfsemi félagsins þannig að það hafi fyrst og fremst um hag félagsins að hugsa, Akurnesingum og öðrum landsmönnum til hagsbóta eins og dæmin sanna. Ekki bara héðan heldur líka þaðan. Í þriðja lagi að það sé rétt og skynsamlegt að það sé takmörkuð ábyrgð á þessu atvinnufyrirtæki, eins og öðrum hlutafélögum, en ekki ótakmörkuð ríkisábyrgð. Þetta tel ég að muni stuðla að því að fyrirtækið verði betur rekið og í framtíðinni Akurnesingum og öðrum landsmönnum betri eign.
    Það er alls ekki rétt að tilgangurinn sé sá einn að breyta stjórnarkjöri í félaginu, enda geri ég ekki ráð fyrir því, fái ég miklu um ráðið, að þar verði miklar breytingar. Það er ekki kjarni málsins.
    Ég vil nú taka það líka alveg sérstaklega fram að ég þakka hv. 4. þm. Vesturl. fyrir að kynna svo vel mín sjónarmið á því hvað sé æskilegt eignarform í atvinnurekstrinum. Fyrir það er ég honum mjög þakklátur. Ég hefði ekki getað gert það betur sjálfur. Ég vildi líka taka það fram af því að hann las hér upp langan pistil eftir Daníel Ágústínusson að þótt það væri margt vel um þann lista þá hafði hv. 4. þm. Vesturl. gert betur grein fyrir þeim hugsunum öllum sjálfur í sinni eigin ræðu. Hann hefði ekki þurft að lesa listann eftir Daníel. Ekki það ég amist við honum en ég bendi á það að flest það sem þar var kynnt um eiginleika þessa ágæta fyrirtækis, sem við nú ræðum, mun ekki breytast hætis hót nema þá helst til batnaðar ef fyrirtækið verður gert að hlutafélagi. Það var ekkert í þessum afrekaskrám sem mundi setja niður við það, þvert á móti, öll líkindi til þess að betur mundi til takast því það má lengi bæta það sem vel er gert. Það er mín sannfæring og þess vegna flyt ég frv. en alls ekki þótt það séu hliðarsjónarmið í málinu þessi skattamálefni sem hv. 4. þm. Vestf. gerði hér aðallega að umtalsefni.
    Ég vildi líka taka það fram, þótt um það hafi þegar verið rætt, að verði aðstöðugjaldið lagt niður, sem er langvarandi baráttumál íslenskra atvinnufyrirtækja og atvinnuvega af því það er ekki sanngjarn skattur, munu koma skattar í staðinn. Það má ekki setja dæmið upp þannig að ekki komi annar skattur í staðinn, eins og mér virtist að hv. 4. þm. Vesturl. gerði. Það eiga að koma í staðinn sanngjarnir skattar, ekki skattar sem leggjast með uppsöfnun á kostnað fyrirtækjanna.

    Ég vík þá að því sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. Mér fannst hálfvegis að hann sakaði hv. 4. þm. Vesturl. um að halda hér gamla ræðu. Ég er ekki alveg viss um að ræða hv. 8. þm. Reykv. hafi ekki heyrst hér fyrr í þingsalnum. Hv. þm. leiðréttir mig ef hann hefur á því máli aðra skoðun. En ekki þar fyrir, virðulegu þingdeildarmenn, að þetta mál sem við hér ræðum er, eins og hv. 4. þm. Vestf. réttilega orðaði það, gamall kunningi. Þess vegna er kannski eðlilegt að við heyrum hér gömlu góðu lögin leikin og sungin. Ég hef ekkert á móti því og tel að þessi umræða hafi að því leyti til alls ekki átt að valda neinum manni vonbrigðum. Þvert á móti tel ég að hún hafi tekist vel og sjónarmiðin skýrst nokkuð þó ég játi það að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að hv. 4. þm. Vesturl. skuli nú vera harðari í andstöðu sinni við málið en hann var í fyrra og ég vona að það lagist í nefndinni.
    Að öðru leyti tel ég ekki, virðulegi forseti, mikla ástæðu til þess að fjölyrða um málið. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið um það og vonast til þess að það fái greiða leið í gegnum þessa hv. þingdeild og minni á það, eins og hér hafa aðrir gert, að málið var samþykkt hér með ágætum frá hv. Ed. í fyrra og ekki ástæða til að ætla annað en að það sigli líka nú hraðbyri í gegnum deildina.