Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli frsm. meiri hl. fjvn., hv. 5. þm. Vestf., þá voru gefnar hér yfirlýsingar við 2. umr. af frsm. meiri hl. við þá umr., hv. 1. þm. Vesturl., um það að nokkur atriði er varða afgreiðslu þessa máls, fjáraukalaga 1990, yrðu tekin til athugunar á milli 2. og 3. umr.
    Sú athugun hefur að einhverju leyti farið fram en niðurstaða úr þeirri athugun sem hér var skýrð af hv. frsm. meiri hl. við þessa umræðu, Sighvati Björgvinssyni, felur það í sér að ekki er tekið inn í frv. nú nema eitt atriði, þ.e. hækkun til Leikfélags Akureyrar til að fullnægja tilteknu samkomulagi sem þar hafði verið gert. Hin stærri atriðin fá ekki náð fyrir augum meiri hl. að þessu sinni, enda þótt gefið sé í skyn og gefið sé fyrirheit um að þau verði tekin til meðferðar annað tveggja við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár ellegar þá við afgreiðslu á fjáraukalagafrv. sem flutt verður væntanlega í byrjun næsta árs þar sem farið verður væntanlega fram á heimildir til þess að greiða úr ríkissjóði það sem greitt verður umfram heimildir, sem hér er verið að samþykkja, og umfram heimildir fjárlaga eins og þau liggja fyrir.
    Ég sé ástæðu til þess að láta það koma fram varðandi þá yfirlýsingu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson las hér varðandi sjúkrahúsin, að þau mál eru í raun þríþætt. Í fyrsta lagi er hér um að ræða að virðisaukaskattur leggst á sjúkrahúsin, ekki einvörðungu sjúkrahúsin í Reykjavík eða ríkisspítala heldur á sjúkrahúsin í heild og heilsugæslustöðvar með mun meiri þunga en söluskattskerfið gerði áður. Varðandi sjúkrahúsin ein er talið að þessi mismunur nemi í nýrri skattheimtu á rekstri sjúkrahúsanna 90 millj. kr. Það liggur fyrir að það var ekki ætlað fyrir þessari nýju skattheimtu í fjárlögum fyrir þetta ár.
    Ég tel það út af fyrir sig góðra gjalda vert að því sé hér lýst yfir að þetta verði tekið til athugunar við afgreiðslu fjárlaga, væntanlega sá þáttur málsins er lýtur að rekstri næsta árs, þ.e. ársins 1991, og við afgreiðslu á fjáraukalagafrv. í byrjun næsta árs að því er lýtur að hinni raunverulegu skuld, hinni raunverulegu skattheimtu ríkisins á þessu ári á hendur sjúkrahúsunum. En þessi tala er það há, 90 millj. kr., að ástæða hefði verið til að taka þegar inn í þessar heimildir a.m.k. nokkuð af þeirri fjárhæð til að mæta sárasta vandanum af þessum hluta sem hér birtist í nýrri skattheimtu á hendur þessum stofnunum. Mér þykir miður að það skuli ekki hafa gerst, enda þótt ég skilji að það geti verið nauðsyn til þess að setja af stað sérstaka rannsókn á því hvernig virðisaukaskatturinn hefur lagst á hinar ýmsu stofnanir ríkiskerfisins
umfram það sem söluskattskerfið gerði áður. Því þetta er auðvitað ekki leið til skattheimtu. Það á ekki með skattkerfisbreytingum að sækja sér fé til ríkissjóðs af rekstri stofnana sem ríkissjóður rekur og verða að fá allt sitt fé úr ríkissjóði til rekstrar. Það vitaskuld gengur ekki. Nóg er nú samt um skattheimtu hæstv. ríkisstjórnar.
    Annar þáttur þessa máls er sem hér er viðurkennt

að það er mjög naumt sem við 2. umr. var samþykkt til þess að mæta rekstrarvanda sjúkrahúsanna. Við höfum heyrt af þeim mikla vanda í fjvn. og almenningur í landinu hefur líka heyrt af þeim mikla vanda vegna þess að það lítur svo út sem það þurfi að loka deildum undir lok ársins, um jólaleytið og senda sjúklinga út og jafnvel ekki vissa fyrir því hvort greiðlega verður opið fyrir bráðamóttöku. En það hefði verið auðveldara mál fyrir sjúkrahúsin að sitja uppi með þennan vanda ef nokkuð hefði verið greitt úr að því er varðar virðisaukaskattinn.
    Þriðji þáttur þessa máls lýtur svo algjörlega að fjárlagaafgreiðslu fyrir næsta ár. Ekki að þessu frv. sem hér er til meðferðar heldur afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Það er sá liður fjárlagafrv. þar sem steypt er saman í einn lið sem kallast ,,Sjúkrahús í Reykjavík``. Ríkisspítalar eru nú ekki allir í Reykjavík, t.d. er Kristneshæli ekki enn þá í Reykjavík, það er að mig minnir norður í Eyjafirði, hæstv. fjmrh., sem finnst þetta nú mjög skemmtilegt allt saman. En samt sem áður er þessi stofnun skírð ,,Sjúkrahús í Reykjavík`` og þar er öllu hært saman í eitt með þeim hætti að enginn af forustumönnum þessara stofnana veit hvað hann má búast við að hvert sjúkrahúsið fyrir sig fái til ráðstöfunar í rekstrarfé eða tækjakaupum eða öðrum fjárlagaliðum fyrir næsta ár. Enginn þeirra veit það. Og það er ekki von, fjvn. veit það ekki heldur, það veit enginn. Á þessum tíma er það venja að sjúkrahúsin hafi gert sínar áætlanir sem byggjast á því sem fram kemur í fjárlagafrv. Og á fjárlagafrv. byggja þau venjulega sínar tillögur við úrbætur varðandi rekstrarfé fyrir árið sem er fram undan, en þau geta ekki gert það nú. Þau byggja ekki á neinu því sem kemur fram í fjárlögum því það skilur enginn. Þar er allt saman sett í einn graut, í einn pott sem síðan var ætlun hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórnar að einhver nefnd á vegum hæstv. ráðherra fengi til meðferðar að deila út á milli þessara stofnana að eigin geðþótta og vild og það eigi að gerast einhvern tímann væntanlega þegar kemur fram á næsta ár og enginn hefur getað byggt upp raunhæfar áætlanir fyrir árið fyrir fram. Þetta er auðvitað alveg forkastanlegt og er auðvitað sett svona upp í þeim tilgangi að leyna þeim vanda sem þarna er við að etja, en ekki til sparnaðar eða hagræðingar, og til þess að villa sem mest um fyrir fólki sem þarf að ráða í þessi mál.
    Þess vegna hafa bæði ég sem fulltrúi minni hl. og raunar formaður fjvn. sjálfur krafist þess að fá tillögur um skiptingu á þessu fé áður en gengið verður til afgreiðslu fjárlaga við 2. umr. þannig að við getum sagt hvað hverri og einni stofnun er ætlað í þessum málum. Það er ekki frambærilegt að bera svona tillögur á borð. Þess vegna lýtur þetta atriði, sem hér er inni í yfirlýsingu hv. formanns fjvn., einvörðungu að afgreiðslu fjárlagafrv. en kemur út af fyrir sig þessu frv., sem hér er til meðferðar og lokaafgreiðslu, fjáraukalögum fyrir árið 1990, ekkert við.
    Önnur þau atriði sem hér voru nefnd hafa ekki hlotið afgreiðslu. Ég hef hér við fyrri umræður rætt um yfirtöku ríkissjóðs á lausaskuld Verðjöfnunarsjóðs

fiskiðnaðarins þann 1. júní sl. þegar sá sjóður var lagður niður. Það var auðvitað kominn tími til þess að það hefði verði tekið á því máli, fengist á því afgreiðsla hjá hv. meiri hl. fjvn. hvort þetta yrði tekið inn á fjáraukalögin eða ekki. Nú segir hv. formaður fjvn. og frsm. meiri hl. að ekki hafi verið tími til þess í fjvn. að halda fund um þetta mál. Vel má vera að það hafi verið svo miklar annir hjá meiri hl. en ég segi nú fyrir mína parta, ég hef alveg haft tíma til að mæta á fund til þess að ræða þetta mál ásamt fulltrúa fjmrn. og fulltrúa Ríkisendurskoðunar sem birt hefur greinargerð um málið. En út af fyrir sig fagna ég því að hv. formaður fjvn. hefur gefið það í skyn í orðum sínum hér áðan að með þetta mál muni farið að áliti sérfræðinga sem um málið fjalla. Það álit út af fyrir sig liggur fyrir þó svo að miðað við þessa afgreiðslu meiri hl. þá bíði það mál til næsta árs að færa það inn á fjáraukalög fyrir þetta ár, árið 1990. Það er auðvitað þarflaust að geyma það til næsta árs vegna þess að yfirtakan á þessari lausaskuld, sem er um 1500 millj. kr., fór fram 1. júní sl.
    Ég mun ekki ræða það frekar. Ég hef skýrt þetta mál mjög ítarlega í fyrri ræðum mínum, en ég er auðvitað mjög óánægður yfir því að ekki skuli á þessu máli tekið nú því að rétt skal vera rétt í reikningsskilum ríkissjóðs og við meðferð mála við afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.
    Eins og kunnugt er voru fluttar hér við 2. umr. brtt. er lúta að jöfnunargjaldi og greiðslu á innheimtu jöfnunargjalda til atvinnuveganna. Þær tillögur hafa ekki hlotið náð fyrir augum meiri hl. og hefði nú verið ákjósanlegt að við þessa umræðu gæti verið hæstv. iðnrh. vegna þess að það hafa borist nokkuð tvíhliða yfirlýsingar frá hans ráðuneyti, svo maður noti nú orð sem kunnugt er úr öðrum málaflokki hér á hinu háa Alþingi. En það hefði verið ákjósanlegt að hæstv. iðnrh. væri hér til að staðfesta það hvort það sé samkomulag hans og hæstv. fjmrh. að innheimta af iðnaðinum um 50 millj. kr. í jöfnunargjald og greiða það ekki til baka í samræmi við venjur og fyrirheit um allt þetta mál. Þær venjur og þau fyrirheit, þau loforð eru brotin með þessum hætti. Sömu sögu er raunar að segja um aðra þætti jöfnunargjalda, sem í heild nema um 260 millj. kr. til allra atvinnugreina, að þau eru ekki endurgreidd fyrir nóvembermánuð. Skatturinn skal greiddur af atvinnuvegunum, af atvinnufyrirtækjunum en endurgreiðslan fer ekki fram.
    Ég hlýt að segja það að hér er vitaskuld ómaklega farið að atvinnuvegunum eins og víðar má greina í tiltektum þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég sé svo ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri. Ljóst er að þetta frv., sem hér er til lokaafgreiðslu, er að ýmsu leyti með vanburða afgreiðslu þar sem stórir útgjaldaliðir ríkissjóðs, sem þegar liggja fyrir og hljóta að koma inn á greiðsluyfirlit þessa árs, eru ekki hér teknir með, heldur er eins og fyrri daginn reynt að leyna vandanum svo sem mest má verða, reynt að draga það á langinn að láta raunveruleg útgjöld koma í ljós. Ef þessi hæstv. ríkisstjórn hefði nú hrökklast frá þessa dagana þá

hefðu þeir væntanlega verið alls hugar fegnir að þurfa ekki að sýna það hver hin raunverulegu útgjöld ríkissjóðs verða á þessu ári, þá hefðu þeir væntanlega getað sagt á eftir: Ja, þetta er bara einhverjum öðrum að kenna.