Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín spurningu áðan sem ég mun að sjálfsögðu leitast við að svara. Hann spurði hvort sú niðurstaða sem væri í þessu fjáraukalagafrv. um fjárveitingu til endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts til íslenskrar iðnaðarframleiðslu væri í samræmi við þær tillögur sem ég hefði gert. Af þessu tilefni vil ég láta koma fram að í upphaflegu frv. til fjáraukalaga var gerð tillaga um 150 millj. kr. í þessu skyni. Þá lágu fyrir áætlanir um það hjá iðnrn. og samantekt á reikningum frá iðnfyrirtækjum að miðað við fyrr gildandi reglur næmi heildarfjárhæð endurgreiðslu söluskatts vegna ársins 1989 192,2 millj. kr., ef mitt minni svíkur mig ekki. Þá var gert ráð fyrir því að þessi endurgreiðsla stæði með óbreyttum reglum allt til loka ársins. Í meðförum fjvn. og með mínu samþykki er tillaga nú um 160 millj. kr.
    Það er í þessu máli eins og flestum málum af þessu tagi að fjárhagstakmörkun verður að virða. Það er líka gert hér. Ég tel að með þessu sé komið sanngjarnt lokauppgjör á því kerfi endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts sem fylgt hefur söluskattskerfinu frá því á miðjum áttunda áratugnum. Það er vel að nú hefur virðisaukaskatturinn leyst söluskattinn af hólmi. Af þeirri breytingu hefur iðnaðurinn margvíslegt hagræði, hagræði sem að mínu áliti réttlætir það að lokagreiðslan sé sú sem hér er gerð tillaga um, 160 millj. kr.