Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. alþm. rekur minni til þá lýsti ég í umræðum um það frv., sem hér er spurst fyrir um, yfir jákvæðum viðhorfum mínum til þeirra grunnhugmynda sem fram koma í frv. og bætti reyndar við ýmsum atriðum sem þyrfti að skoða nánar. Í því sambandi nefndi ég ýmislegt sem snertir starfshætti Alþingis og annað sem snýr að framkvæmdarvaldinu.
    Ég fól ríkisreikningsnefnd í framhaldi af samþykkt þingsins, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, að vinna að endurskoðun á ríkisreikningi og þar með fjárgreiðslum úr ríkissjóði vegna þess að margt af því sem í frv. er snertir gildandi löggjöf um ríkisreikning. Vinnuhópur var skipaður sérstaklega innan ríkisreikningsnefndar til þess að fara yfir þetta mál og skila niðurstöðum um það hvernig þessi þáttur ríkisfjármálanna verði bættur. Sá vinnuhópur byggði niðurstöður sínar á frv. fjvn. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Í áliti vinnuhópsins, sem lagt hefur verið fram í ríkisreikningsnefnd, kemur fram að hann álítur að frv. fjvn. sé góður stofn að áframhaldandi vinnu en rétt er að geta þess að í ríkisreikningsnefnd sitja allir þeir æðstu embættismenn sem um þessi mál þurfa að fjalla og hafa fjallað um langan tíma.
    Það hefur komið fram á fundum sem ég hef átt, bæði með formanni fjvn. og öðrum fulltrúum úr fjvn., að það er sameiginlegt áhugamál mitt, fjvn. og embættismanna fjmrn. að frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði komi til umfjöllunar þingsins á nýjan leik. Þeir aðilar sem hafa fjallað um þetta frv. í þeirri vinnu sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum hafa bent á tvö meginsjónarmið sem þurfi að hafa í huga um umfjöllun um það. Hið fyrra lýtur að grundvallarspurningunni um samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og hið seinna að lögum og reglum sem í gildi eru um fjárgreiðslur og heimild til þess að skuldbinda ríkissjóð.
    Af stjórnarfarsfræðingum mun almennt viðurkennt, eins og oft hefur komið fram hér í umræðunum á Alþingi, að samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds eru um margt óskýr og þessi atriði hafa oft sætt gagnrýni. Í þessu frv. sem vikið er að hefur kannski sérstaklega verið fjallað um þann þátt sem snýr að Alþingi og framkvæmdarvaldinu hvað snertir vald Alþingis. En auðvitað þarf líka að huga að þeim þætti málsins að Alþingi sem löggjafarvald sé ekki að birtast á vettvangi framkvæmdarvaldsins og rugla reytum sínum saman við hinn eðlilega vettvang framkvæmdarvaldsins skv. grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Þess vegna hafa margir sérfræðingar bent á það að liður í þeirri vinnu sem hér fer fram sé að skýra mörkin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á þann hátt að styrkja vald Alþingis annars vegar en um leið draga úr því að Alþingi eða einstakir þingmenn eða nefndir þingsins séu að taka ákvarðanir sem eðli málsins samkvæmt séu á vettvangi framkvæmdarvaldsins.
    Hitt atriðið sem sérstaklega hefur verið nefnt í

þessari umfjöllun varðar gildandi lög og reglur og að hve miklu leyti þau ná yfir ákvæði sem er að finna í því frv. sem hér er spurst fyrir um. Það er álit ríkisreikningsnefndar að æskilegt sé að fella ákvæðið um fjárgreiðslu inn í gildandi lög um gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Hér og hvar í gildandi lögum, bæði um gerð ríkisreiknings og fjárlaga og lögum um lánsfjármál, er komið inn á nokkur þeirra atriða sem finna má í frv. fjvn. Þess vegna þarf að tengja saman annars vegar endanlega gerð þess frv. sem hér er spurst fyrir um og hins vegar breytingar á ákvæðum í gildandi lögum um ríkisreikning.
    Eins og ég lýsti hér áðan, þá er það sameiginlegt áhugamál mitt og embættismanna fjmrn. og ég veit einnig fjvn. að að þessu máli verði unnið áfram. Ég tel mjög mikilvægt að sú nefnd sem starfar skv. lögum, ríkisreikningsnefnd, hefur nú farið mjög rækilega yfir þessi mál og sérstakur vinnuhópur á hennar vegum skilað niðurstöðu. Ég hef kynnt fulltrúum fjvn. að þessi vinna hafi farið fram. Ég tel að fulltrúar fjvn. og fjmrn. eigi í samvinnu við ríkisreikningsnefnd að skoða þær hugmyndir sem þar koma fram og íhuga breytingar á frv. fjvn. í samræmi við þetta álit ríkisreikningsnefndar og að við getum í sameiningu hér á þessu þingi náð því að flytja frv. og afgreiða það um þennan mikilvæga þátt ríkisfjármálanna vegna þess að ég hef verið eindreginn talsmaður þess að skýrari og afdráttarlausari reglur verði settar um þessi efni og þeim verði fylgt.