Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Vera má að hv. formaður sjútvn. Ed. álíti okkur eitthvað fótfúnari en hann sjálfan. En jafnvel þó að ástæðan sé ekki sú að við séum fótfúnir eða séum að koma okkur undan því að fara upp í sjútvrn. til þess að lesa þar gögn sem okkur hefur verið boðið upp á lesa þar, svo og í kringum borð á fundum sjútvn., þá er það þannig að þó að við séum sjálfsagt næmir þá erum við líklegast ekki eins næmir og hv. þm. álítur sjálfan sig að það geti dugað honum að fara upp í ráðuneyti og líta yfir allan þann lista og geta notað hann síðan í viðtölum við þá aðila sem hafa samband við okkur. Það er náttúrlega alveg útilokað að þegar viðkomandi aðilar, norðan úr Grímsey, vestan af Hellissandi eða annars staðar, hringja í okkur, oftast nær utan þingtíma, höfum við enga möguleika til þess að leita upplýsinga niðri í ráðuneyti eða til ráðherra eða kalla saman fund í sjávarútvegsnefndum. Það sem hv. formaður sjútvn. Ed. er að segja hér er því eingöngu útúrsnúningur gagnvart þeirri beiðni sem við höfum flutt fram. Og ég endurtek þá beiðni að við fáum þessi gögn í hendur og getum notað þau, vitaskuld sem trúnaðarmál í viðræðum okkar við þessa aðila.