Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér höfum við enn einu sinni fengið lítinn frumvarpsbút til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta frv. er nýkomið hér á borð okkar þingmanna. Það varð að leita afbrigða til þess að það mætti koma hér til umræðu og var það fúslega veitt. Ég held að hér sé gott mál á ferðinni. Að vísu hef ég ekki haft aðstæður til að kynna mér það í smáatriðum en frv. er stutt og mér sýnist að sú breyting sem hér er lögð til sé til mikilla bóta.
    Ég vil aðeins vegna orða hv. 18. þm. Reykv. taka undir margt af því sem hún sagði að öðru leyti en því að mér finnst að það eigi að leggja meiri áherslu á það að skapa fólki með venjulegar launatekjur möguleika á því að eignast húsnæði en ekki að leggja áherslu á að öllum sé ýtt inn í félagslega húsnæðismálakerfið. Ég held að það sé meginmálið að þannig sé búið að fólki, og þá ekki síður ungu fólki, að því sé gert kleift að eignast húsnæði í hinu almenna húsnæðiskerfi. Mér finnst málin hafa þróast í þá átt að það sé of mikil áhersla lögð á að allir þurfi að falla undir félagslega íbúðakerfið. Þetta vildi ég láta koma hér fram sem mitt sjónarmið. Það þarf að skapa fólki þær aðstæður að það geti staðið á eigin fótum, að það sé sjálfbjarga og geti eignast húsnæði af almennum launatekjum.