Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég sé að utanrrh. er ekki hér í salnum, ég ætlaði aðeins að beina orðum mínum til hans.
    Það var mikill sannfæringarkraftur í ræðu hæstv. utanrrh. Honum tókst að sannfæra mig um það sem ég hafði grunsemdir um og það var það að hæstv. ríkisstjórn og ekki síst hann vantaði dómgreind, þeir hefðu ekki skilið þá samninga sem þeir stóðu að sjálfir að gera. Það virðist vera að þeir hafi ætlað sér að reyna að snúa á viðsemjendur sína. En hver sneri þar á hvern? Þeir virðast allir vera hissa á þeim úrskurði sem kom frá Félagsdómi. Hann kom þeim á óvart að þeir segja. Ég segi fyrir mig að ég er undrandi á þessum dómgreindarbresti sem þarna kemur fram og er undirstrikað af hæstv. utanrrh.
    Ég hef beðið um að fá álit frá þeim lögfræðingum sem forsrh. sagði í sjónvarpi að hann hefði fengið og hefði undir höndum. Ég sagði það að ég treysti mér ekki til þess að standa með þessum lögum með öðrum hætti. Nú er það komið í ljós, að ég tel, að þetta álit hefur ekki verið á þann veg að hægt væri að sýna það. Og í staðinn fyrir það kemur í meirihlutaáliti hv. fjh. - og viðskn. vörn ríkislögmanns í málinu sem er auðvitað ekki mark á takandi sem slíku því að hann er þarna með vörn og á samkvæmt öllum venjum og reglum að gera það sem hann getur til þess að verja þessa gjörð sem hann er settur í af ríkinu. Það er alveg gjörsamlega út í hött að halda því fram að það sé eitthvað sem sé bitastætt í eða sannfæri nokkurn mann um það að þessi bráðabirgðalög stangist ekki á við stjórnarskrá. Ég hef aldrei fullyrt það. En ég hef heyrt hér í ræðustól á Alþingi það vera fullyrt, ég hef heyrt það á greinargerðum annarra lögfræðinga og ég hef talað við nokkra lögfræðinga. Og nú hefur það komið í ljós að álit eins af þeim mönnum sem ég reiknaði með að hæstv. forsrh. hefði leitað til, þ.e. Eiríks Tómassonar, mun, eftir því sem sagt er, ekki vera á þann veg að það væri ávinningur fyrir ríkisstjórnina að sýna það hér á hv. Alþingi.
    En ég lýsi því enn og aftur yfir að ég vil fá þessi álit. Ef þau ekki berast, þá tel ég að sá skilningur minn sé réttur að þau séu ekki á þann veg að hæstv. ríkisstjórn telji það sér til ávinnings að sýna þau hér.
    Hv. þm. Ólafur G. Einarsson vildi halda því fram hér í ræðu áðan að við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vildum ekki samþykkja bráðabirgðalögin en vildum samt fá þau í gegn. Þetta er hans skilningur á málinu. Ríkisstjórnin ætlaði að rjúfa þing, hefja kosningabaráttu yfir hátíðir, talaði um að setja aftur bráðabirgðalög, sem ég vil ekki trúa að forseti hefði samþykkt. Því að þrátt fyrir það sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, þá hef ég skilið það svo að það sé á valdi forseta að samþykkja lög, skrifa undir lög, hún geti neitað því. Ég stend í þeirri trú. Og ég vil þá fá skýringu á því hvort ég stend þarna eitthvað villur vegar. Að rjúfa þing nú og efna til kosninga er þvílíkt gerræði gagnvart landsbyggðinni og tillitsleysi að ég hef bara ekki á mínum ferli heyrt neitt svipað.
    Ég sagði áðan, hæstv. utanrrh., að það hefði verið mikill sannfæringarkraftur í þinni ræðu og hefði sannfært mig um það sem ég hafði grun um, að ríkisstjórnina vantaði dómgreind. Hún hefði ekki skilið það sem fólst í þeim samningum sem hún gerði við sína viðsemjendur. Yfirleitt var allur málflutningurinn og öll ræða hæstv. ráðherra á þá leið að sannfæra mig um mínar grunsemdir. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það.
    Það er alveg útilokað að það geti haldist þjóðarsátt miðað við þá vexti sem eru í þjóðfélaginu. Það er alveg útilokað. Það getur aldrei gengið. Og ef ekki verður tekið á þeim málum, þá þýðir það að þessi þjóðarsátt er búin að vera á nokkrum mánuðum. Fólkið í landinu þolir þetta ekki undir neinum kringumstæðum. Og þegar hæstv. utanrrh. segir að allir séu settir við sama borð, vilji að allir séu settir við sama borð, veit ekki ráðherrann það --- hann hefur náttúrlega verið í útlöndum lengi og svona rétt að hann hafi skroppið hér heim og veit kannski ekki hvað er að gerast --- að launamunurinn í þjóðfélaginu hefur aldrei verið meiri en núna. Aldrei. Mundu hæstv. ráðherrar vilja lifa af 50 -- 60, í mesta lagi 70 þús. eins og er algengt nú? Hver getur það og borgað þá vexti sem eru meira en tvöfalt hærri en í Bretlandi? Raunvextirnir eru meira en tvöfalt hærri. Nei, þjóðarsáttin stenst ekki, getur ekki staðist. Það er hægt að tala um þjóðarsátt að þessu leyti til en hún stenst ekki öðruvísi en að taka á vaxtamálunum, á peningamálunum, á okrinu í bönkunum sem er alveg viðurstyggð og ég mun koma betur að því ef viðskrh. er einhvern tíma í salnum þegar á að taka vaxtamálin til umræðu og ég ætla ekki að ræða um það frekar hér.
    En ef ekki berst neitt frá lögfræðingum ríkisstjórnarinnar um þeirra álit á þessari gjörð, þá er það svar frá hæstv. ríkisstjórn frá mínum bæjardyrum séð að það sé ekki til neitt sem hægt er að sýna.