Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. sem ég mæli hér fyrir eru gerðar fáeinar breytingar sem fólu það í sér að stuðla að lækkun verðlags.
    Sú fyrsta snýr að því að flýta afnámi virðisaukaskatts af íslenskum bókum. Eins og hv. þm. er kunnugt var sú ákvörðun tekin hér á Alþingi á sínum tíma að virðisaukaskattur á bókum yrði afnuminn. Önnur tillagan felst í því að víkka endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu við viðhald í endurbótum á húsnæði.
    Þessar breytingar voru taldar nauðsynlegar til þess að stuðla að því að markmiðum kjarasamninga um þróun kaupmáttar og verðlags yrði náð. Reynslan sýndi að þessi lög áttu verulegan hlut í því að þau markmið sem sett voru með febrúarsamningunum stóðust jafnvel og raun ber vitni á þessu ári.
    Ég tel í sjálfu sér ekki þörf á því að segja mikið meira hér við 1. umr. um þetta mál. Frv. var afgreitt einróma í hv. Nd. og mæltu allir nefndarmenn í fjh.- og viðskn. með því að það yrði samþykkt.
    Ég vil svo að lokinni þessari 1. umr. mælast til þess að frv. verði vísað til hv. fjh. - og viðskn. og 2. umr.