Tímabundin lækkun tolls af bensíni
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar veruleg verðhækkun varð á erlendum mörkuðum á olíuvörum stóðum við frammi fyrir þeim vanda hvort slíkar tímabundnar hækkanir ættu að hafa veruleg áhrif hér á verðlag og þar með á þá þjóðarsátt sem hefur orðið einn af hornsteinum efnahagsmála í okkar landi. Þá fóru þess vegna fram viðræður milli forustumanna samtaka launafólks og atvinnulífs og fjmrn. um þá hugmynd að tekjur ríkisins vegna tolla og virðisaukaskatts af olíuvörum yrðu óbreyttar í krónutölu þrátt fyrir hækkun á erlendu innkaupsverði. Eftir nánari athugun á málinu ákvað ég að beita mér fyrir því að slík tillaga yrði samþykkt. Þó var nauðsynlegt að fram kæmi og var lýst yfir stuðningi við það sjónarmið af hálfu forustumanna atvinnurekenda og samtaka launafólks að ef um
langvarandi hækkun væri að ræða, þá væri óeðlilegt að áhrif hennar yrðu deyfð með þeim hætti að greiða verðlagið niður beint eða óbeint. Rétt er að geta þess að á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem haldinn var í septembermánuði sl. voru allir sérfræðingar og stjórnmálamenn sammála um það að meginlærdómur af síðustu olíukreppu væri að þau ríki sem fóru þá leið að dylja áhrifin af margs konar niðurgreiðslum voru sein að ná sér upp úr vandanum en þau sem tóku erfiðleikana á sig strax voru mun fljótari að ná sér.
    Hins vegar stóðu vonir til að sú verðhækkun vegna ástandsins við Persaflóa sem er tilefni frv. væri tímabundin og því væri rétt að gera þær ráðstafanir sem hér eru lagðar til og fela í sér að fjmrh. er heimilt að lækka toll á þessum vörum um ákveðinn tíma en sú heimild rennur út að þeim tíma loknum. Markmiðið er að samanlagðar tekjur ríkisins af virðisaukaskatti og tolli af bensíni og olíuvörum verði óbreyttar.
    Frv. var samþykkt einróma í hv. Nd. Því var breytt í samræmi við það samkomulag sem gert var milli fjmrn. og fulltrúa atvinnulífs og launafólks þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru framlengdir fyrir þremur vikum síðan. Kemur frv. þannig breytt til hv. deildar.
    Ég legg svo til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.