Sjálfseignarstofnanir
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Síðla vetrar 1989 báru þingkonur Kvennalistans fram till. til þál. um að fela ríkisstjórninni að setja á stofn starfsnefnd er ynni að samningu rammalöggjafar um sjálfseignarstofnanir. Þessa till. samþykkti hið háa Alþingi hinn 5. maí 1989 en í breyttri mynd, þ.e. þannig að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir gerð frv. til laga um sjálfseignarstofnanir sem lagt verði fyrir næsta löggjafarþing. Í skýrslu forsrh. um framkvæmd þál. segir að með bréfi dags. 6. sept. 1989 hafi dómsmrn. falið Guðmundi Skaftasyni, fyrrv. hæstaréttardómara, að gera drög að slíku frv. En í samþykkt þáltill. er áætlað að frv. verði lagt fyrir næsta löggjafarþing, þ.e. löggjafarþingið 1989 -- 1990, sem eins og allir vita er löngu liðið. Og ég veit ekki til að slíkt frv. hafi verið lagt fram.
    Því er nú spurt: ,,Hvenær hyggst dómsmrh. leggja fram frv. til laga um sjálfseignarstofnanir, sbr. bréf dómsmrn., dags. 6. sept. 1989, þar sem Guðmundi Skaftasyni, fyrrv. hæstaréttardómara, var falið að gera drög að slíkum lögum?``